mánudagur, 17. ágúst 2015

Marengstoppar og súkkulaðisósa

Marengstoppar og súkkulaðisósa · Lísa Hjalt


Ég man eftir þegar Nigella sagði í gríni í einum sjónvarpsþætti að allt virkaði miklu hollara með jarðarberjum. Hún var í náttslopp að gera pönnukökur í morgunmat í húsi við ströndina, að mig minnir. Þetta festist í huganum. Ég þarf að fá orð hennar lánuð því af öllum uppskriftunum mínum eru marengstopparnir sú uppskrift sem inniheldur hvað mest sykurmagn. Í mörg ár gerði ég reglulega tilraunir og játaði mig sigraða að lokum og sættist við það að hollari útgáfa af marengs var óskhyggja. Það þarf ákveðið magn af sykri á móti eggjahvítunum til að áferð marengsins verði rétt. Það er kannski örlítil huggun að nota lífrænan hrásykur en sykur verður alltaf sykur. Ég ber marengstoppana fram með þeyttum rjóma, súkkulaðisósu, jarðarberjum og bláberjum, og að sumri til nota ég gjarnan nektarínur eða ferskjur líka.

Þetta er uppskrift sem ég hef þegar deilt á gamla matarblogginu en þegar ég var að baka toppana í gær þá hugsaði ég með mér, af hverju ekki að smella af nýjum myndum. Í raun var ég búin að aðskilja egg og ætlaði að gera belgískar vöfflur þegar krukkan með kókosolíunni kom fljúgandi út úr baksturskápnum og brotnaði á gólfinu. Ég átti ber í kælinum þannig að það var eðal hugmynd að gera marengstoppa í staðinn.
Marengstoppar og súkkulaðisósa · Lísa Hjalt


Í samanburði við aðrar uppskriftir mínar eru marengstopparnir með hátt sykurinnihald en samt er bragðið ekki dísætt. Það er sagt að trefjar og frúktósi jarðarberja hjálpi við að koma jafnvægi á blóðsykur sem gæti verið skýringin á því að við finnum ekki fyrir sykurkikki eftir að hafa neytt toppanna. En athugið að þetta er ekki uppskrift sem ég baka vikulega, topparnir eru bara spari. Ég átti einu sinni KitchenAid hrærivél en í mörg ár hef ég ekki notað hrærivélar nema til að þeyta rjóma og eggjahvítur. Núna nota ég bara handþeytara á standi og finnst því best að bæta hrásykrinum í smáum skömmtum út í skálina, ekki öllum í einu. Í marengstilraunir mínar notaði ég lyftiduft, sítrónusafa, vínstein (e. cream of tartar) og alls kyns blöndur af þessu en endaði á því að blanda bara örlitlu maísmjöli saman við sykurinn. Ef þið eruð óvön marengsgerð passið þá bara að það fari engin eggjarauða í hræriskálina (sjá ráð hér að neðan).

MARENGSTOPPAR (SÚKKULAÐI)

4 eggjahvítur (notið stór egg, við stofuhita)
185 g lífrænn hrásykur (notið eins fínan og hægt er)
½ teskeið maísmjöl
klípa fínt sjávarsalt
ef súkkulaðimarengstoppar: ½ matskeið kakó

Aðskiljið eggin. Setjið hvíturnar í hræriskál ásamt klípu af salti. Blandið saman hrásykri og maísmjöli í sér skál.

Þeytið eggjahvíturnar þar til það fer að myndast froða. Bætið hrásykrinum smátt og smátt út í (ég geri þetta á ca. 10-12 mínútum) þar til þið fáið nokkuð stífa áferð á marengsinn. Ef þið viljið súkkulaðimarengstoppa sigtið þá kakóið út í og blandið rólega saman með sleikju til að fá marmaraáferð.

Setjið bökunarpappír á ofnplötu og notið sleikju til að mynda 6 marengstoppa með hringsnúningi.

Bakið við 140°C (125°C ef blástursofn) í ca. 80 mínútur, slökkvið þá á ofninum, opnið ofnhurðina og látið toppana vera í ofninum í 10 mínútur til viðbótar.

Berið fram með þeyttum rjóma og ferskum berjum og jafnvel súkkulaðisósunni hér að neðan.

Recipe in English.

Ef þið eruð óvön marengsbakstri eða klaufsk þá er kannski betra að aðskilja köld egg og bara eitt egg í einu: Notið sér skálar fyrir hvítur og rauður og setjið eggjahvítuna strax í hræriskálina áður en þið aðskiljið næsta egg. Ef þið notið köld egg setjið þá plastfilmu/disk á hræriskálina og þeytið hvíturnar eftir 30 mínútur.


Marengstoppar tilbúnir fyrir bakstur

Súkkulaðisósan er afbrigði af súkkulaðikremi sem ég gerði fyrir uppskrift að skúffuköku. Ég jók bara vatnið til að breyta því í sósu (það má líka nota sósuna á ís). Notið alltaf gæða kakó í bakstur, helst lífræna eða velferðarframleiðslu (e. fair-trade). Útbúið sósuna á meðan topparnir bakast í ofninum svo hún nái að kólna.

SÚKKULAÐISÓSA

3 matskeiðar kakó
1½ matskeið lífrænn hrásykur
2½ matskeið hreint hlynsíróp eða agavesíróp
4½-5 matskeiðar vatn (ca. 75 ml)
lítill bútur lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði (15-20 g)
má sleppa: klípa fínt sjávarsalt

Setjið allt hráefnið í lítinn pott eða pönnu. Hitið við meðalhita upp að suðu og hrærið rólega á meðan. Þegar suðan er komin upp þá fjarlægið þið pottinn af hellunni.

Hellið kreminu í skál og leyfið því að standa í 30-40 mínútur fyrir notkun.


Recipe in English.
4 ummæli:

 1. Girnilegir toppar og svo dásamlega fallegar myndir hjá þér. Oh ég elska borðið þitt það gefur myndunum svo fallegt yfirbragð.
  Eigðu góðan dag og takk fyrir fallegt blogg sem alltaf er unun að skoða.
  kveðja Stína

  SvaraEyða
  Svör
  1. Takk Stína ;-)
   Ég kem hrósinu áfram til eiginmannsins sem smíðaði borðið. Ég hafði nú bara beðið um eitthvað lítið og nett en kom svo að honum í bílskúrnum að smíða massaborð sem er svo stöðugt að það myndi þola dvergana úr Hobbitanum! Hann langði að vísu mikið að smíða það úr eik en það hefði orðið töluvert dýrara. Ég valdi bara í það frönsk furugólfborð og svo bæsuðum við borðið í einhverjum lit sem kallaðist dökk eik. Það er ótrúlega þægilegt að vera með svona vinnuborð í eldhúsinu.

   Eyða
 2. Ofboðslega fallegar myndir og auðvelt að slefa á lyklaborðið vegna þeirra!

  SvaraEyða
  Svör
  1. takk, takk ... vona að lyklaborðið sé ekki í hættu ;-)

   Eyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.