fimmtudagur, 23. maí 2013

innlit: landareign í suðurhluta Wales

Ég pósta því sama á báðum bloggunum í dag en samt ekki sömu myndunum, þessar koma annars staðar frá. Áður en ég segi ykkur frá þessari landareign í Wales þá vildi ég láta ykkur vita að ég verð í bloggfríi þar til í byrjun júní. Börnin eiga vikufrí í skólanum og við erum að vonast til þess að það hætti að rigna á okkur þannig að við getum eytt næstu viku í að skemmta okkur utandyra. Það er spáð rigningu en það má alltaf láta sig dreyma.

Og þá að þessu húsi í Wales. Það er í eigu Arne Maynard sem er einn virtasti garðhönnuður Bretlands og skrifar dálk með garðráðleggingum fyrir tímaritið Gardens Illustrated. Maynard og sambýlismaður hans keyptu þetta sögulega hús sem kallast Allt-y-bela, en það stendur í Usk í suðurhluta Wales. Það var fjallað um það í janúartölublaði Garden Design. Bókstafleg merking nafnsins á ensku væri „high wooded hillside of the wolf“ sem myndi hljóma skelfilega í beinni íslenskri þýðingu: há tré í hlíð úlfsins eða eitthvað svoleiðis - ég veit, skelfilegt en samt flott merking! En það sem er sérstaklega áhugavert við garðinn sjálfan er sú staðreynd að hann er ólíkur öllum þeim glæsilegu og rómantísku görðum sem Maynard hefur hannað í gegnum tíðina.

Fyrir garðinn í Wales valdi Maynard látlausa hönnun. Húsið sjálft er gamalt sveitasetur frá 15. öld og það var aldrei skipulagt neitt sérstaklega heldur bættu fyrrum eigendur við rýmum eftir hentugleika. Það sama gerðist eiginlega með garðinn í höndum Maynard. Hann byrjaði á því að fjarlægja allar girðingar, limgerði og slíkt á sinni eigin landareign þannig að garðurinn rynni saman í eitt og félli vel saman við nánasta umhverfi. Það var bara í kringum húsið sjálft þar sem hann hélt ákveðinni formfræði, eins og sést á myndunum.

Mér finnst landslagið þarna ákaflega fallegt. Þeir félagar eru með matjurtagarð og einnig eru þeir með hænsni sem þið getið séð á myndum í færslunni á ensku útgáfu bloggsins. Þar er einnig að finna tvær myndir sem voru teknar innandyra.

Sjáumst aftur í byrjun júní!

myndir:
Arne Maynard Garden Design

fimmtudagur, 16. maí 2013

fallegar íbúðir til leigu í Suður-Frakklandi

Það er grenjandi rigning í mínum heimshluta þannig að mér finnst kjörið á þessum fimmtudegi að láta hugann reika eilítið sunnar á hnöttinn. Í þorpinu Lagrasse í Suður-Frakklandi, ekki ýkja langt frá Spáni, er hægt að taka á leigu fallegar íbúðir í gömlu húsi sem búið er að taka í gegn. Það voru hjónin Nicole Albert, sem áður vann sem stílisti, og Michael Nunan sem keyptu gamalt sveitasetur og endurnýjuðu það í þeim tilgangi að búa þar sjálf og leigja út tvær íbúðir.

Eins og sjá má á þessum myndum er stíllinn afskaplega fallegur; rómantískur án öfga. Húsgögn og aðrir munir koma frá antíksölum og mörkuðum í nágrenninu en einnig frá heimili þeirra hjóna í London.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu House La France (sjá tengil neðst).


myndir:
Sarah Hogan og Caroline Arber fyrir House La France af síðunni Remodelista

miðvikudagur, 15. maí 2013

Uppskrift: hrísgrjón með indverskum kryddum og rúsínumÉg var að deila þessari uppskrift að hrísgrjónum með indverskum kryddum og rúsínum á matarbloggið. Hún er mjög svipuð þeirri sem ég póstaði um daginn en er laus við negulnagla og piparkorn. Ég er mjög hrifin af einföldu meðlæti og undanfarið hef ég verið nokkuð dugleg að leika mér með alls kyns útgáfur af grjónum með mat. Það getur verið gott að eiga afgang af grjónum til að hita upp í hádeginu daginn eftir og borða hrátt eða snöggsteikt grænmeti með. Einfalt og gott og klikkar ekki.

þriðjudagur, 14. maí 2013

vatnslitamynd í eldhúsið


Á Etsy má finna margt hæfileikaríkt listafólk sem selur alls kyns muni eins og prentverk eða hvað sem er. Ég á nokkrar uppáhalds-„búðir“ á Etsy og Lucile's kitchen er ein þeirra. Þetta er vatnslitamynd eftir hana af hinum ýmsu kryddjurtum. Ég væri alveg til í að sjá þessa hangandi upp á vegg í eldhúsinu mínu í fallegum svörtum ramma.

mynd:
Lucile's kitchen á Etsy


miðvikudagur, 8. maí 2013

tískuþátturinn: Ferragamo

Ítalska tískuhúsið Ferragamo hefur hleypt af stokkum auglýsingaherferð sem nefnist L’Icona en tilgangur hennar er að enduruppgötva Vara-ballerínuskóna og að fagna því að fyrir 35 árum síðan voru þeir settir á markað. Ljósmyndarinn Claiborne Swanson Frank tók myndir af 21 stúlku í Vara eða Varina (settir á markað 2007) sem klæðast ýmist sínum eigin fötum eða uppáhaldsflíkunum sínum frá tískuhúsinu. Í þessum mánuði verður myndum og myndskeiðum með þessum flottu konum deilt á heimasíðu herferðarinnar.

Þær sem birtast hér eru Lauren Santo Domingo sem var mynduð í París (ég deildi nýverið myndum af heimili hennar í París á ensku útgáfu bloggsins), Asia Baker sem var mynduð í Palm Beach, Flórída, og Miroslava Duma sem sat fyrir í Moskvu.

Mér finnst þetta frábær hugmynd til þess að fagna afmæli skónna sem eru orðnir klassískir. Hvort sem við eigum þessa skótegund eða ekki þá má nota myndirnar til þess að fá hugmyndir. Ballerínuskór paraðir við gallabuxur og rykfrakka, eins og Lauren Santo Domingo gerir á efstu myndinni, er samsetning sem fer aldrei úr tísku.

myndir:
Claiborne Swanson Frank fyrir Ferragamo L’Icona auglýsingaherferðina 2013


föstudagur, 3. maí 2013

góða helgi

Þessi grein er í vasa á skrifborðinu mínu og það liggur við að hún bæti við sig blómum á hverjum degi. Ég klippti hana óvart þegar ég var að hreinsa dauðar greinar í garðinum um daginn og rétt náði að bjarga henni áður en hún endaði í lífrænu tunnunni. Kannski hafið þið nú þegar séð þessa mynd á ensku útgáfu bloggsins en mig langaði að halda henni til haga hér líka því hún minnir mig á þetta vor sem lét sjá sig nokkuð seint, en olli svo sannarlega ekki vonbrigðum þegar það loksins kom.

Góða helgi!

mynd:
Lísa Hjalt


fimmtudagur, 2. maí 2013