föstudagur, 18. nóvember 2022

№ 33 bókalisti: Keegan og COVID-einkenni

Á № 33 bókalistanum er m.a. að finna Small Things Like These eftir írsku skáldkonuna Claire Keegan · Lísa Hjalt


Ég hef beðið með að deila þessum bókalista því mig langaði að nota myndavélina til að fanga bækurnar með kaffibolla og kannski blómum líka í stað þess að nota myndir af Instagram. En ég hef ekki verið í skapi fyrir myndatöku. Ég nældi mér í COVID fyrir 5 vikum síðan og slapp nokkuð vel. Svaf aðallega út í hið óendanlega vegna þreytu. En því miður missti ég bragðskynið - 5 vikur án kaffibragðs! - og mér fannst allar bækur sem ég var að lesa leiðinlegar. Kannski ætti ég að taka til baka þetta með að hafa sloppið vel. Við skulum líta á listann og verkin á honum því ég á bara eftir að klára eina bók.

№ 33 bókalisti:

1  Pain  · Zeruya Shalev
2  Small Things Like These  · Claire Keegan
3  Night  · Elie Wiesel
4  Nemesis  · Philip Roth
5  Sapiens: A Brief History of Humankind  · Yuval Noah Harari

Ensk þýðing: 1) Pain: Sondra Silverston; 3) Night: Marion Wiesel

Bókin hennar Claire Keegan, sem var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, er lítil perla sem gerist í írskum smábæ árið 1985 og tekur á viðkvæmu efni: hvernig kaþólska kirkjan á Írlandi komst upp með að nota ungar, þungaðar stúlkur sem vinnuafl í klaustrum og tók svo af þeim börnin eftir fæðingu. Keegan þarf ekki nema nema 116 síður til að segja allt sem segja þarf og innihaldið er ríkara en mörg lengri skáldverk. (Ég mæli með kvikmyndinni The Magdalene Sisters (2002; Peter Mullan) um sama efni.) Aðra stutta en innihaldsríka bók á listanum á Elie Wiesel, sem lifði af helförina og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1986. Hún segir frá reynslu hans í fangabúðunum, Auschwitz og Buchenwald, og lesturinn tekur oft á. Í mörg ár hef ég forðast að þessa bók. Það er fyrst núna sem ég hafði hugrekki til þess.

Í Nemesis býr Philip Roth til mænusóttarfaraldur í fæðingarbæ sínum Newark árið 1944, sem ógnar lífi barna. Ég var ekki viss hvort þetta væri rétti tíminn til að lesa bók um faraldur þar sem við erum enn að glíma við kórónaveirufaraldurinn en það truflaði mig ekki við lesturinn. Bókin er vel skrifuð (hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2011) en kannski aðeins of stutt fyrir minn smekk. Í þriðja hluta erum við komin til ársins 1971 og sögumaðurinn segir í stuttu máli frá því sem gerst hefur á öllum þessum tíma. Hér fannst mér einhverja fyllingu vanta í verkið og fannst ég þurfa meira þegar það endaði.

Ég er lítið fyrir bækur sem verða ofur vinsælar og hef tilhneigingu til að forðast bækur sem allir virðast vera að lesa og kalla skyldulesningu. Sapiens eftir ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari fellur í þann flokk. Hún hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál; á íslensku með undirtitlinum Mannkynssaga í stuttu máli. Eitthvað hélt þó áfram að draga mig að henni þannig að ég keypti hana handa syni mínum og hugsaði að ég gæti fengið hana lánaða einn daginn. Ég hef núna lesið fyrsta hlutann af fjórum í rólegheitum og bókin lofar góðu. Harari nálgast viðfangsefnið þverfaglega og er lipur penni.

Kápa bókarinnar Pain eftir Zeruya Shalev á bókalistanum · Lísa Hjalt
Pain er skáldsaga eftir ísraelska rithöfundinn Zeruyu Shalev

Samband mitt við nútímaskáldverk getur oft verið skrítið. Ég fylgist vel með útgáfu bóka en verð sjaldan spennt fyrir nýjum skáldsögum. Þegar það gerist hef ég líklega látið lokkandi bókarkápu ginna mig. Sjálfur lesturinn veldur mér oft vonbrigðum og ég finn jafnvel fyrir ergelsi og óþolinmæði. Ég ákvað að lesa Pain eftir Zeruya Shalev eftir að hafa lesið stutt viðtal við fransk-marokkósku skáldkonuna Leïlu Slimani þar sem hún mærði skrif Shalev. Pain fjallar um ísraelska konu sem lifir af hryðjuverkaárás en glímir enn við afleiðingarnar 10 árum síðar. Bókin byrjaði vel en fljótlega varð hún ein af þessum skáldsögum sem ég klára bara til að geta haft skoðun á henni. Shalev á ágætis spretti í bókinni, það vantar ekki, en við skulum orða það þannig að ég mun ekki rjúka út í bókabúð til að kaupa aðra bók eftir hana, sem skrifast alfarið á mig.

Ég minntist á leiðinlegar bækur í upphafi. Ein af þeim átti að fara á listann, klassíska ferðaritið In Patagonia eftir sjálfan Bruce Chatwin, en ég gafst upp eftir nokkra kafla. Fyrst hélt ég að það væru bara mín COVID-einkenni að finnast bókin óáhugaverð (mér fannst allar bækur leiðinlegar) og hélt því lestrinum áfram þegar ég komst almennilega á fætur. En ritstíllinn gerði ekkert fyrir mig og stuttir kaflarnir, meira eins og stuttar frásagnir heldur en kaflar, voru of sundurlausir fyrir minn smekk. Ég hef sagt það áður að lífið er of stutt og dýrmætt fyrir bækur sem fá ekki lestrarhjartað til að slá hraðar.

myndir mínar, birtust á Instagram 31/08/22 og 14/09/22



mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Hjalt


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, og á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina sem skrifuð hefur verið um ævi hennar. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Bókin Memoirs kom út í ágúst, safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Hjalt
Nikkað til næsta bókalista

myndir mínar, birtust á Instagram 03/08/22 og 17/09/22



mánudagur, 29. ágúst 2022

Töfrar í bókabúð

Kápan af Dichter im Café eftir Hermann Kesten (ars vivendi) · Lísa Hjalt


Nýverið var ég stödd í bókabúð til að kaupa tvær bækur á óskalistanum og gaf mér tíma til að skoða. Eins og maður gerir. Skyndilega fangaði eitthvað athygli mína á lágri hillu í leikrita- og ljóðahorninu, þessi svarthvíta ljósmynd á bókarkápunni sem þið sjáið á myndinni að ofan. Ég sá þýska titilinn, Dichter im Café (Ljóðskáld á kaffihúsinu) og í eitt sekúndubrot las ég nafn höfundarins sem Hermann Hesse áður en ég áttaði mig á því að það var Hermann Kesten. Ég hafði aldrei heyrt um Kesten áður, eða ekki svo ég mundi. Ég tók bókina upp, sneri henni við og las:

Das Kaffeehaus - legendärer Treffpunkt
des literarischen Austauschs, Umschlagplatz
revolutionärer Ideen, Bühne des Lebens.

Þessi orð aftan á kápunni mætti þýða beint: Kaffihúsið - goðsagnakenndur fundarstaður fyrir bókmenntaumræður, miðstöð byltingarkenndra hugmynda, leiksvið lífsins.

Ég tók bókina með mér að næsta setkrók, þar sem töfrarnir gerðust. Þeir höfðu eiginlega byrjað um leið og ég sá bókina en mögnuðust þar sem ég sat og las formálann. Ég skildi allt; ef ég skildi ekki eintaka orð þá var merkingin ávallt skýr. Setning tvö hljóðaði svona: „Das Kaffeehaus is ein Wartesaal der Poesie“ (Kaffihúsið er biðsalur ljóðlistarinnar) og þegar ég las áfram varð það mér ljóst að þessa bók yrði ég að kaupa, síðasta eintakið í bókabúðinni.
Stofuborðið mitt og bækurnar · Lísa Hjalt


Þögn mín hér á blogginu á sér skýringu. Ég flutti í hjarta Linz fyrr í sumar, sem þið hafði kannski séð á Instagram, og hef verið upptekin við alls kyns verkefni. Dásemdin við þennan nýja stað er bókabúðin sem er innan göngufæris - að skoða úrvalið áður en ég versla í matinn gefur lífinu nýja merkingu. Ég verð hérna aftur innan skamms með nýjan og löngu tímabæran bókalista.

myndir mínar, sú síðari birtist á Instagram 04/08/22 | mynd á bókarkápu: Horst Friedrichs



þriðjudagur, 26. apríl 2022

№ 31 bókalisti: bréfaskrif Bishop & Lowell

Á № 31 bókalistanum mínum: bréfaskrif þeirra Bishop og Lowell · Lísa Hjalt


Það var afbragðshugmynd að setja Swann's Way á síðasta bókalista (№ 30). Ég er enn að lesa Proust og botna ekkert í mér að hafa ekki lesið hann fyrr. Ríkur prósinn kallar á hæga yfirferð og því finnst mér best að lesa 8-10 síður í einu, einkum í kyrrð og ró að morgni. Daginn byrja ég á lestri; vakna eldsnemma með syninum sem þarf að þvera Linz og úthverfi með sporvagni til að fara í skólann. Þegar hann leggur af stað - flest fólk er þá enn sofandi - sest ég niður með fyrsta kaffibolla dagsins, ristað brauð og bækur. Þessa dagana byrja ég á nokkrum bréfum sem ljóðskáldin Elizabeth Bishop og Robert Lowell sendu sín á milli áður en ég sný mér að Proust og öðrum höfundum. Þessari rútínu lýkur svo með þýska skáldverkinu sem ég er að lesa þá stundina.

№ 31 bókalisti:

1  Words in Air: The Complete Correspondence Between Elizabeth Bishop
and Robert Lowell  · ritstj. Thomas Travisano & Saskia Hamilton
2  Upstream: Selected Essays  · Mary Oliver
3  Speak, Memory  · Vladimir Nabokov
4  Personal History  · Katharine Graham
5  Ein ganzes Leben  · Robert Seethaler [þýsk]

Ég er enn að lesa Der Untergeher (plebbinn á ísl., № 30), mína þriðju bók eftir hinn austurríska Thomas Bernhard. Hann er einstaklega hnyttinn sögumaður. Mig langar að lesa allt eftir hann sem ég kemst yfir á frummálinu. Ég held að verk hans hafi ekki verið gefin út á Íslandi en skáldsögur hans og leikrit eru til í enskri þýðingu. Ég hef aldrei lesið neitt eftir landa hans Robert Seethaler og nú er kominn tími á Ein ganzes Leben sem ég keypti í fyrrasumar. Mannsævi heitir hún í íslenskri þýðingu og kom út fyrir nokkrum árum.

Kirstuberjatré í blóma, Antwerpen, vor 2011 · Lísa Hjalt
Kirsuberjatré í blóma, Antwerpen 2011

Fyrir svefninn undanfarið hef ég verið að lesa Personal History, ævisögu Katharinu Graham heitinnar, útgefanda The Washington Post. Bókin hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1998. Ég byrjaði á henni fyrir töluvert löngu síðan en hinkraði með það að setja hana á bókalista þar til núna. Ég vissi að hún skrifaði marga kafla um fjölskyldu sína og uppvaxtarár (sá hluti ævisagna sem mér leiðist hvað mest) og því vildi ég gefa mér tíma til að komast í gegnum þá. Þegar frásögn hennar komst loks á flug var stundum erfitt að leggja bókina frá sér en nánar um það í næstu lestrarkompufærslu.
Á № 31 bókalistanum: sjálfsævisaga Vladimirs Nabokov · Lísa Hjalt


myndir mínar, 01 og 03 birtust á Instagram 12/04/21 og 24/04/21



fimmtudagur, 14. apríl 2022

Lestrarkompan: Virginia Woolf um bækur

Lestrarkompan: Latte og dagbók Virginiu Woolf · Lísa Hjalt


Virginia Woolf deilir mínum eigin hugsunum um bækur:
What a vast fertility of pleasure books hold for me! I went in & found the table laden with books. I looked in & sniffed them all. I could not resist carrying this one* off & broaching it. I think I could happily live here & read forever.
Þessar dásamlegu línur skrifar hún í dagbók sína í Monk's House, fimmtudaginn 24. ágúst 1933 (4. bindi, sjá № 29).
*The Confessions of Arsene Houssaye

mynd mín, birtist á Instagram 04/02/22



þriðjudagur, 22. mars 2022

№ 30 bókalisti: Proust að vori

№ 30 bókalisti: bókabunki; Marcel Proust, Lydia Davis, Siri Hustvedt · Lísa Hjalt


Vorið er komið og því löngu tímabært að uppfæra bloggið með nýjum bókalista. Ég deildi þeim síðasta í janúar en mér til varnar þá er ég virkari á Instagramsíðunni minni sem snýst um bækur. Í góðan áratug hef ég ætlað að lesa hinn franska Marcel Proust, meistaraverkið À la recherche du temps perdu (Í leit að týndum tíma; In Search of Lost Time), og lét verða af því nýverið að kaupa enska þýðingu, fyrsta bindið af fjórum frá bókaútgáfunni Everyman’s Library. Skáldverkið samanstendur af sjö bókum og bindið inniheldur Swann’s Way (fr. Du côté de chez Swann), sem flestir þekkja, og fyrri partinn af Within a Budding Grove (fr. À l'ombre des jeunes filles en fleurs). Eftir að hafa lesið nokkrar síður finn ég strax að sögumaðurinn heillar mig og ríkur prósinn líka. Proust að vori verður ánægjuleg afþreying.

№ 30 bókalisti:

1  Essays Two  · Lydia Davis
2  Swann's Way  · Marcel Proust
3  What I Loved  · Siri Hustvedt
4  Der Untergeher  · Thomas Bernhard [þýsk]
5  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki [endurlestur]

Ensk þýðing: 1) Swann's Way: C. K. Scott Moncrieff and Terence Kilmartin;
5) The Makioka Sisters: Edward G. Seidensticker

Það má segja að Essays Two eftir Lydiu Davis hafi ýtt við mér að lesa Proust því hún er höfundur nýjustu ensku þýðingarinnar á Swann's Way og fjallar um það verkefni í nokkrum esseyjum. (Þýðingin sem ég er að lesa er mun eldri en hefur verið uppfærð.) Þetta safn ritgerða er það fyrsta sem ég les eftir Davis og einnig er ég að lesa skáldverk eftir Siri Hustvedt í fyrsta sinn. Það vill svo skemmtilega til að Hustvedt hefur verið gift rithöfundinum Paul Auster (4 3 2 1, New York þríleikurinn) í fjörutíu ár, en Davis er fyrrum eiginkona hans.

Ég hef minnst á það áður að í hvert sinn sem bók veldur mér það miklum vonbrigðum að ég klára hana ekki að þá endurles ég einhverja uppáhaldsbók. Á síðasta lista var My Brilliant Friend eftir Elenu Ferrante, fyrsta bókin í Napólí-fjórleik hennar, í enskri þýðingu. Ég virkilega reyndi en gafst endanlega upp á 20. kafla. Hvorki söguþráðurinn né persónurnar höfðuðu til mín og mér fannst stíllinn einkennast af endurtekningum. Til að bæta mér þetta upp ákvað ég að endurlesa The Makioka Sisters, klassískt verk eftir hinn japanska Tanizaki. Það er notalegt að verja tíma með Systrunum fyrir svefninn.

Listaverk: Richard Diebenkorn, Untitled, 1981
Richard Diebenkorn, Untitled, 1981

mynd mín | Diebenkorn listaverk af Richard Diebenkorn Foundation á Instagram



föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

myndir mínar, sú minnsta birtist á Instagram 10/10/21 | Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu á Twitter