Sýnir færslur með efnisorðinu darryl pinckney. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu darryl pinckney. Sýna allar færslur

mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



mánudagur, 1. október 2018

№ 16 bókalisti | Black History Month (UK)

№ 16 bókalisti · Lísa Stefan


Bókasöfn eru hamingjustaðurinn minn. Eða svo hélt ég. Í síðustu viku var ég á safninu með minnisbók, þá sem ég nota fyrir bókatitla sem mig langar að lesa. Eins og þið getið ímyndað ykkur var ég eins og lítill krakki á leið í Disneyland. Ég gekk upp þrepin og inn á hæð hugvísinda (þetta er háskólabókasafn, það er stórt) þar sem ég í sæluvímu gekk á milli hárra bókarekka. Skoðaði bækur, snerti bækur. Fjarlægði bækur af bókalistanum sem ég hafði þegar í huga til að skapa pláss fyrir þær sem kröfðust þess að vera á honum. Setti bækur aftur á listann, kannski til þess eins að taka þær af honum aftur stuttu síðar. Bara eðlileg bókasafnshegðun.

En svo gerðist eitthvað, eitthvað sem ég var ekki búin undir: ég upplifði augnabliks hræðslukast. Í nokkrar sekúndur, þar sem ég stóð við fyrstu hillurekkana með bandarískum skáldskap, gerði ég mér skyndilega grein fyrir því hversu margar bækur voru þarna á hæðinni, í öllum þessum hillum: Í þessu lífi kæmist ég aldrei yfir það að lesa allar bækurnar á langar-að-lesa listanum því hann verður alltaf lengri. Ég get ekki verið eini bókaunnandinn sem hefur upplifað þennan ótta. Getur ekki verið. Það er eins gott að það sé líf á eftir þessu, þar sem okkar bíður bókasafn með öllum ólesnu bókunum sem okkur langar að lesa. Það er eins gott.

№ 16 bókalisti:
1  Blue Nights  · Joan Didion
2  Go Tell It on the Mountain  · James Baldwin
3  Sing, Unburied, Sing  · Jesmyn Ward
4  The Human Stain  · Philip Roth
5  Stet  · Diana Athill
6  Train Dreams  · Denis Johnson
7  The Bookshop  · Penelope Fitzgerald
8  Do Not Say We Have Nothing  · Madeleine Thien
9  The Collected Essays of Elizabeth Hardwick  · ritstj. D. Pinckney


Á laugardaginn - kannski hafið þið þegar séð það á Instagram - las ég æviminningar Didion, Blue Nights, í einum rykk. Hún skrifaði bókina eftir andlát dóttur sinnar, Quintana, sem var aðeins 39 þegar hún lést. (Hún skrifaði The Year of Magical Thinking eftir andlát eiginmannsins, rithöfundarins John Gregory Dunne). Mér líkaði Blue Nights. Þetta er ekki sorgarsaga sem kallar á bréfþurrku við lesturinn. Stíll Didion er ekki ofurhlaðinn tilfinningum. Hún er bara að reyna að ná utan um þetta allt. Að reyna að finna svör við spurningum sem ekki er hægt að svara.

Okótber er Black History Month í Bretlandi, mánuður tileinkaður sögu blökkumanna (febrúar í BNA). Ég sýni stuðning minn með tveimur skáldsögum á listanum, eftir James Baldwin og Jesmyn Ward. Hún hlaut verðlaunin National Book Awards 2017 fyrir Sing, Unburied, Sing. Það var í annað sinn sem hún hlaut þau, árið 2011 fyrir skáldsögu sína Salvage the Bones.