Sýnir færslur með efnisorðinu james baldwin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu james baldwin. Sýna allar færslur

föstudagur, 10. janúar 2020

Lestrarkompan: Whitehead, Baldwin & Brecht

Kaffi og Brecht; punktar úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Skólinn er byrjaður og ég er rólega að koma mér í gírinn, gef mér enn tíma til að lesa bækurnar á síðasta bókalista áður en vinnuálagið eykst og skiladagar taka yfir. Ég kláraði Year of the Monkey eftir Patti Smith, sem mér fannst aldrei almennilega komast á flug, ef hægt er að lýsa þannig æviminningum sem að hluta til fjalla um missi og hafa því einkenni depurðar. Sam Shepard heitinn birtist á síðunum sem bjargar henni. Ég er aðdáandi Patti, skrifa hennar um ekki neitt, eins og hún útskýrir í bókinni M Train, en hér vantar eitthvað. Bókin hefur fengið góðar viðtökur en lýsingar á draumum og matsölustöðum (e. diners) gerðu lítið fyrir mig. Ég vildi að hún hefði beðið og skrifað um ferð sína til Ástralíu ári síðar (á meðal margra ljósmynda í bókinni er ein sem hún tók af Uluru/Ayers Rock), en þá hefði titill bókarinnar verið annar.

En þá að lestrarkompunni, síðustu færslunni fyrir bókalista ársins 2017. Ég veit, ég veit, við erum búin að ræða þetta.

Lestrarkompan, № 13 bókalisti, 3 af 4:

The Underground Railroad eftir Colson Whitehead
Þessi skáldsaga vann bæði Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir 2017 og National Book Awards árið 2016, og var val Oprah-bókaklúbbsins sama ár. Kannski hefur þetta gert henni smá óleik því lesendur búast líklega við bókmenntalegu meistaraverki. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni, þrælahald, er hún mjög læsileg, og ég stend mig enn að því að hugsa um hana. Að hugsa um söguna sjálfa, ekki sögupersónurnar. Persónusköpunin er að mínu mati ekki sterk. Aðalsöguhetjan, Cora, hafði ekki mikil áhrif á mig en það sem stendur eftir er að saga hennar er saga of margra. Titillinn er vísun í net skipulagðra leiða til hjálpar þrælum á flótta yfir í frelsið. Whitehead notar aftur á móti töfraraunsæi og gefur þessu neti efnislegt form, sem ég hélt að truflaði mig, en gerði það ekki. Ég hef ekki lesið önnur verk eftir hann en ætla mér það svo sannarlega. Hann er góður sögumaður.

Giovanni's Room eftir James Baldwin
Ég var að vonast til að mér líkaði þessi bók meira en ég gerði. Ekki misskilja mig, hún er góð en fer ekki í uppáhaldsflokkinn. Sögupersónan Giovanni fór í taugarnar á mér (undir lokin átti hann þó samúð mína) og mér fannst ekki sannfærandi að maður eins og David félli fyrir manni eins og Giovanni. Þessi sena hefur að vísu fests í huga mér, kvöldið sem þeir hittast á bar í París 6. áratugarins:
And he took his round metal tray and moved out into the crowd. I watched him as he moved. And then I watched their faces, watching him. And then I was afraid. I knew that they were watching, had been watching both of us. They knew that they had witnessed a beginning and now they would not cease to watch until they saw the end.
Þetta var önnur bókin sem ég las eftir Baldwin (hef núna lesið fleiri) en sú fyrsta sem ég las, Another Country, er enn í mestu uppáhaldi.

Der Gute Mensch von Sezuan eftir Bertolt Brecht
Þetta leikrit var fyrsti þýski textinn sem ég las eftir að við fluttum til Þýskalands árið 2017, tilraun til að endurheimta orðaforðann (einu sinni fór ég nokkuð létt með að lesa skáldsögur á þýsku). Ég skildi ekki allt en náði merkingunni og naut lestursins. Leikritið er dæmisaga og sögusviðið er Kína. Þrír guðir koma til jarðar í leit að góðri manneskju. Vændiskonan Shen Te er sú eina sem býður þeim næturgistingu þegar þeir þurfa og í kjölfarið skiptir hún um atvinnugrein og kaupir tóbaksverslun fyrir peninga sem þeir gefa henni. Að vera góð manneskja í spilltum heimi reynist erfitt og hún býr til hliðarsjálf, frænda sinn Shui Ta, til að geta stundað viðskipti. Árið 1933 yfirgaf Brecht Þýskaland nasismans og leikritið er eitt af mörgum sem hann skrifaði í útlegðinni á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Næsta verkið hans á listanum mínum er Mutter Courage und ihre Kinder (Mutter Courage og börnin hennar).



laugardagur, 23. febrúar 2019

№ 19 bókalisti: frumraun ungrar skáldkonu

№ 19 bókalisti: frumraun ungrar skáldkonu · Lísa Stefan


Sko mig, ég náði að deila nýjum bókalista í febrúar! Ég er einkum spennt fyrir efstu bókinni á þessum, The Parisian, frumraun ungu skáldkonunnar Isabellu Hammad. Hún kemur út í vor hjá forlaginu Jonathan Cape og ég get sagt að lestur fyrstu kaflanna lofar góðu. Þá að öðrum Black History Month: frá árinu 1976 í Bandaríkjunum hefur febrúarmánuður verið tileinkaður sögu blökkumanna og ég sýni stuðning minn með If Beale Street Could Talk eftir James Baldwin. Bretar fagna þessum mánuði í október og Baldwin var líka á listanum sem ég deildi þá (№ 16). Hann er í miklu uppáhaldi. Kvikmynd leikstjórans Barry Jenkins sem byggð er á bókinni ætti ekki að hafa farið fram hjá Baldwin-aðdáendum. Hann er tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir handritið og Regina King fyrir aukahlutverk. Á morgun kemur í ljós hvort þau vinna.

№ 19 bókalisti:
1  The Parisian  · Isabella Hammad
2  Orientalism  · Edward W. Said
3  If Beale Street Could Talk  · James Baldwin
4  The Ghost Writer  · Philip Roth
5  Women and Writing  · Virginia Woolf

The Parisian eftir Isabellu Hammad, frumraun höfundar (№ 19 bókalisti)
Isabella Hammad er alin upp í London og hlaut Plimpton-verðlaunin fyrir skáldskap árið 2018, fyrir smásöguna Mr. Can'aan sem birtist í The Paris Review, sem er bókmenntatímarit. Í apríl kemur út hennar fyrsta bók, sögulega skáldsagan The Parisian. Starfsfólk Jonathan Cape (Vintage) var svo elskulegt að senda mér prufueintak. Lýsingin hér á eftir er tekin úr fréttatilkynningu: „As the First World War shatters families, destroys friendships and kills lovers, a young Palestinian dreamer sets out to find himself.“ Draumóramaðurinn er hinn arabíski Midhat Kamal sem lesendur hitta á fyrstu síðu, um borð í skipi sem siglir frá Alexandríu til Marseille, þar sem hann kemur til hafnar í október 1914.

Rithöfundurinn Zadie Smith lofar The Parisian í ummælum á baksíðunni, segir bókina vera „göfuga lestrarupplifun: fíngerða, hófsama, áberandi skarpa, óvenjulega yfirvegaða og sannarlega fallega“ og bætir svo við:
It is realism in the tradition of Flaubert and Stendhal - everything that happens feels not so much imagined as ordained. That this remarkable historical epic should be the debut of a writer in her twenties seems impossible, yet it's true. Isabella Hammad is an enormous talent and her book is a wonder.

The Parisian
Höf. Isabella Hammad
Innbundin, 576 blaðsíður
Jonathan Cape



Síðasti bókalisti var japanskur og undanfarnar vikur hafa því eðlilega einkennst af japanskri menningu. Blómgunartími bóndarósa er ekki fyrr en í vor/sumar en ég ætla samt að slá botninn í þetta með listaverki eftir Hokusai og segja skilið við japanskar bókmenntir í bili.

Katsushika Hokusai, Kanarífugl og peonía, 1834
Katsushika Hokusai, Kanarífugl og peonía, 1834, Guimet Museum, París/WikiArt



föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Stefan


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.



mánudagur, 1. október 2018

№ 16 bókalisti | Black History Month (UK)

№ 16 bókalisti · Lísa Stefan


Bókasöfn eru hamingjustaðurinn minn. Eða svo hélt ég. Í síðustu viku var ég á safninu með minnisbók, þá sem ég nota fyrir bókatitla sem mig langar að lesa. Eins og þið getið ímyndað ykkur var ég eins og lítill krakki á leið í Disneyland. Ég gekk upp þrepin og inn á hæð hugvísinda (þetta er háskólabókasafn, það er stórt) þar sem ég í sæluvímu gekk á milli hárra bókarekka. Skoðaði bækur, snerti bækur. Fjarlægði bækur af bókalistanum sem ég hafði þegar í huga til að skapa pláss fyrir þær sem kröfðust þess að vera á honum. Setti bækur aftur á listann, kannski til þess eins að taka þær af honum aftur stuttu síðar. Bara eðlileg bókasafnshegðun.

En svo gerðist eitthvað, eitthvað sem ég var ekki búin undir: ég upplifði augnabliks hræðslukast. Í nokkrar sekúndur, þar sem ég stóð við fyrstu hillurekkana með bandarískum skáldskap, gerði ég mér skyndilega grein fyrir því hversu margar bækur voru þarna á hæðinni, í öllum þessum hillum: Í þessu lífi kæmist ég aldrei yfir það að lesa allar bækurnar á langar-að-lesa listanum því hann verður alltaf lengri. Ég get ekki verið eini bókaunnandinn sem hefur upplifað þennan ótta. Getur ekki verið. Það er eins gott að það sé líf á eftir þessu, þar sem okkar bíður bókasafn með öllum ólesnu bókunum sem okkur langar að lesa. Það er eins gott.

№ 16 bókalisti:
1  Blue Nights  · Joan Didion
2  Go Tell It on the Mountain  · James Baldwin
3  Sing, Unburied, Sing  · Jesmyn Ward
4  The Human Stain  · Philip Roth
5  Stet  · Diana Athill
6  Train Dreams  · Denis Johnson
7  The Bookshop  · Penelope Fitzgerald
8  Do Not Say We Have Nothing  · Madeleine Thien
9  The Collected Essays of Elizabeth Hardwick  · ritstj. D. Pinckney


Á laugardaginn - kannski hafið þið þegar séð það á Instagram - las ég æviminningar Didion, Blue Nights, í einum rykk. Hún skrifaði bókina eftir andlát dóttur sinnar, Quintana, sem var aðeins 39 þegar hún lést. (Hún skrifaði The Year of Magical Thinking eftir andlát eiginmannsins, rithöfundarins John Gregory Dunne). Mér líkaði Blue Nights. Þetta er ekki sorgarsaga sem kallar á bréfþurrku við lesturinn. Stíll Didion er ekki ofurhlaðinn tilfinningum. Hún er bara að reyna að ná utan um þetta allt. Að reyna að finna svör við spurningum sem ekki er hægt að svara.

Okótber er Black History Month í Bretlandi, mánuður tileinkaður sögu blökkumanna (febrúar í BNA). Ég sýni stuðning minn með tveimur skáldsögum á listanum, eftir James Baldwin og Jesmyn Ward. Hún hlaut verðlaunin National Book Awards 2017 fyrir Sing, Unburied, Sing. Það var í annað sinn sem hún hlaut þau, árið 2011 fyrir skáldsögu sína Salvage the Bones.



sunnudagur, 24. desember 2017

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð · Lísa Stefan


Fyrr í vikunni lofaði ég að deila stuttum bókalista - þessi er № 13 - fyrir jólin (myndina tók ég fyrir tveimur dögum þegar ég var að pakka inn gjöfum; það sem hýasinturnar hafa vaxið síðan þá!). Á þessu augnabliki er ég í kaffipásu og fletti nýjasta tölublaði, janúar 2018, The World of Interiors, sem okkar elsta kom með frá Skotlandi. Jólaeftirréttirnir eru tilbúnir og bráðum byrjum við að undirbúa máltíð kvöldsins. Það sem ég hlakka til að setjast til borðs og borða veislumat.

№ 13 bókalisti:
1  The Underground Railroad  eftir Colson Whitehead
2  Giovanni's Room  eftir James Baldwin
3  Der Gute Mensch von Sezuan  eftir Bertolt Brecht
4  Jane Eyre  eftir Charlotte Brontë

Síðasta sumar keypti ég eintak af Giovanni's Room eftir James Baldwin og hef beðið eftir rólegri stund til að hefja lesturinn. Ef síðasta bloggfærsla fór fram hjá ykkur þá er hann nýi uppáhaldshöfundurinn minn. Það er orðinn siður hjá mér á jólunum að endurlesa eitt klassískt verk og í ár valdi ég Jane Eyre. Það eru mörg ár síðan ég las hana og á jólunum í fyrra fékk ég þessa fallegu innbundnu útgáfu frá Penguin. Hún hefur starað á mig í eitt ár og ég sver það ég heyri hana stundum hvísla, Lestu mig!  Hinar tvær bækurnar hafið þið kannski þegar séð á Instagram; Whitehead var hluti af bókagjöf frá kærri vinkonu á Íslandi og leikritið eftir Brecht var fyrsta bókin sem ég keypti á þýsku eftir flutningana (ég veit ekki hvort það hafi verið þýtt á íslenku en hér er ensk útgáfa frá Bloomsbury, The Good Person of Szechwan, í þýðingu John Willett). Ég er þegar byrjuð að lesa hana, en rólega. Mjög rólega. Þetta er mín leið til að endurheimta þýska orðaforðann minn.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðar á komandi ári!



miðvikudagur, 20. desember 2017

Lestrarkompan 2017: Baldwin, Bandi, Bellow ...

Lestrarkompan mín: Baldwin, Bandi, Bellow · Lísa Stefan


Lestrarkompan mín, muniði eftir henni? Ég er á eftir með bloggið (sem gaf mér þá hugmynd að nota Instagram-myndirnar mínar fyrir þennan flokk). Ég held að best sé að nota bara að-flytja-til-Þýskalands spilið mitt. Við erum enn að venjast nýju umhverfi og tungumálinu. Við höfum átt góðar stundir en líka ergjandi, og upplifað einstaka afturför. Svona er þetta bara. Stuttu eftir flutningana fór okkar elsta aftur til Skotlands vegna náms og ég kann að hafa skilið hluta hjartans eftir á flugvellinum. Þetta var allt laust við dramatík en ég held að ég hafi gert mér grein fyrir því að einn daginn verður hreiðrið tómt. (Ég gæti alltaf leikið eftir Faust og gert samning við djöfulinn, selt honum sálu mína svo börnin kjósi háskóla á svæðinu þegar sá tími kemur. Vandamálið er að ég trúi ekki á tilvist hans.) Um jólin verður fjölskyldan saman á ný og framundan er afslöppun og góður matur (nýverið í spjalli á Skype minntist ég á gjafirnar og tvö barnanna skutu inn í: „Mamma, okkur er alveg sama um gjafirnar, við viljum bara matinn!“). Áður en jólahátíðin gengur í garð ætla ég að deila nýjum bókalista, stuttum. Þarf bara að finna tíma til að taka mynd.

Lestrarkompan, № 8 bókalisti, 5 af 8:

The Accusation eftir Bandi
(Ensk þýðing: Deborah Smith)

Þegar ég birti bókalistann þá gaf ég þessu smásögusafni, sem var smyglað út úr Norður-Kóreu, sérstakan sess. Sögurnar ásækja mig enn, sérstaklega ein sem kallast „City of Specters“, en sú er önnur í röðinni. Í hvert sinn sem Norður-Kórea er í fréttunum - svo til á hverjum degi - verður mér hugsað til þessa sögusafns sem minnir mig á óréttlætið, vonleysið og ómannúðlegar aðstæður fólksins.

Another Country eftir James Baldwin
Ég vissi að hann yrði nýi uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég kom að þessari persónulýsingu á síðu 18: „[H]e had discovered that he could say it with a saxophone. He had a lot to say.“ Frá fyrstu síðu skynjar maður rytma í frásögninni. Ég las einhvers staðar á netinu að það væri jazz og hugsaði með mér, Jazz, auðvitað! Skáldsagan gerist á síðari hluta 6. áratugarins, í Greenwich Village, NY. Hún er ekki fyrir alla (ef stutt er í blygðunarkennd ykkar ættuð þið að láta þessa eiga sig; ég verð þó að segja að þið eruð að missa af frábærum ritstíl) þar sem hún tekst á við ögrandi þemu eins og framhjáhald, samkynhneigð, tvíkynhneygð og sambönd fólks af ólíkum kynþætti. Athugið að bókin kom út árið 1962! Ég skammast mín fyrir að segja að þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Baldwin. Ég hafði bara lesið gömul viðtöl við hann og umfjallanir í tímaritum þar sem vísað var í verk hans og nú ætla ég mér að lesa allt sem hann skrifaði, skáldverk og ritgerðir.

Seize the Day eftir Saul Bellow
Mín fyrsta bók eftir Bellow. Minnisverð nóvella sem gerist í NY en, ef ég á að segja alveg eins og er, greip mig ekki alveg frá byrjun (ég segi þetta með allri virðingu fyrir aðdáendum hans: á meðan lestrinum stóð kann Bellow að hafa eilítið fölnað í samanburði við Baldwin, sem hafði heltekið bókabéusinn innra með mér). Það var ekki fyrr en að lestrinum loknum sem sagan fór að koma reglulega upp í hugann og nú langar mig að lesa hana aftur.

The Blue Touch Paper eftir David Hare
Æviminningar sem ég naut að lesa þó að sumir hlutar hafi ekki verið eins áhugaverðir og aðrir. Oft þegar ég les ævisögur þá leiðist mér barnæskuhlutinn (stundum er það vegna skorts á heiðarleika af hálfu höfundar; stundum á höfundur til með að mála helst til of rósrauða mynd), sem var ekki í þessu tilfelli. Áður en ég las bókina vissi ég ekkert um uppvaxtarár Hare og hann hélt mér við lesturinn með skemmtilegum og heiðarlegum sögum, eða svo held ég. Það er heilmikið um pólitík í bókinni, sem höfðar kannski ekki til allra, en leikhússena Lundúna vaknar til lífsins á síðunum og lesandinn fær að deila sigrum Hare, og ósigrum.

Pale Fire eftir Vladimir Nabokov
Kláraði ekki bókina. Ekki minn tebolli. Á síðunum höfum við ljóðskáld, Shade, sem hefur samið langt ljóð fyrir andlát sitt. Nágranni hans og kollegi, Kinbote, greinir ljóðið ansi ítarlega og mjög fljótt áttar lesandinn sig á því að hann er úti á túni. Ég einfaldlega missti þolinmæðina við að lesa greiningu Kinbote, fyrir sjálfsblekkingu hans (það hafði ekkert með skrif Nabokov að gera).

[Sem fyrr geri ég engar athugasemdir við endurlesnar bækur í lestrarkompunni eða
þær sem ég hef þegar fjallað um. Sjá sér færslur fyrir þessar tvær af listanum:
Stríðsdagbækur Lindgren A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45
og skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.]



mánudagur, 20. mars 2017

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi · Lísa Stefan


Er ekki tilvalið að deila nýjum bókalista á þessum fyrsta vordegi? Þrjár bókaútgáfur, Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail, útveguðu fyrstu þrjár bækurnar á listanum og fyrir það ber að þakka. Síðar mun ég birta ritdóma um skáldsöguna Pachinko og dagbók Astrid Lindgren, A World Gone Mad, sem hún skrifaði á stríðsárunum, en í dag langar mig að beina athygli ykkar að einstöku norðurkóresku smásögusafni, The Accusation eftir Bandi (skáldanafn). Höfundurinn, óþekktur, býr enn í Norður Kóreu og hætti lífi sínu með skrifunum og því að smygla þeim úr landi (sjá meira hér að neðan). Þetta er № 8 bókalistinn:

1  Pachinko  · Min Jin Lee
2  A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 
3  The Accusation  · Bandi
4  Seize the Day  · Saul Bellow
5  The Blue Touch Paper  · David Hare
6  Another Country  · James Baldwin
7  Pale Fire  · Vladimir Nabokov
8  The Sea, The Sea  · Iris Murdoch


Seize the Day er mitt fyrsta verk eftir Saul Bellow - löngu tímabært! Vinur á Instagram og bókaormur sagði það vera „incredible“ og bætti við „it's haunted me most of my adult life.“ Ég ætlaði að byrja á Herzog en hún var ófáanleg á bókasafninu. Leikskáldið David Hare er í miklu uppáhaldi. Að hlusta á hann tala um skrif er hrein unun og loksins ætla ég að lesa æviminningar hans. Hann skrifaði til dæmis handrit kvikmyndarinnar The Hours (2002), sem er byggt á samnefndri sögu eftir Michael Cunningham. Yndisleg bók, yndisleg mynd. Ég er að endurlesa eina bók á listanum: The Sea, The Sea eftir Murdoch. Ég var líklega of ung þegar ég las hana því ég virðist afskaplega lítið muna eftir henni.

Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi · Lísa Stefan
Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi

The Accusation eftir Bandi inniheldur sjö sögur um venjulegt fólk í Norður Kóreu. Bandi (eldfluga á kóresku) er skáldanafn hins óþekkta höfundar og til að vernda hann enn frekar var nokkrum smáatriðum breytt. Í athugasemd frá útgefanda er tekið fram að þau telji verkið vera „an important work of North Korean samizdat literature and a unique portrayal of life under a totalitarian dictatorship“ (samizdat merkir að prenta og dreifa bönnuðum ritum í einræðisríkjum). Fyrir utan það sem við sjáum í fréttum þá höfum við bara kynnst frásögnum og ritum fólks sem tekist hefur að flýja landið. Það sem gerir þessa bók einstaka er að í fyrsta sinn höfum við sögur eftir rithöfund sem býr þar enn. Í stað formála og þakkarorða eru ótitluð ljóð eftir höfundinn, sem lýsir sjálfum sér svona í hinu fyrrnefnda: „Fated to shine only in a world of darkness“. Hið síðarnefnda inniheldur ljóð sem fjallar um þá ósk hans að orð hans séu lesin:
Fifty years in this northern land
Living as a machine that speaks
Living as a human under a yoke
Without talent
With a pure indignation
Written not with pen and ink
But with bones drenched with blood and tears
Is this writing of mine

Though they be dry as a desert
And rough as a grassland
Shabby as an invalid
And primitive as stone tools
Reader!
I beg you to read my words.
Það sem ég vildi að allur heimurinn læsi þessar sögur og að Bandi gæti einn daginn notið höfundalaunanna sem frjáls maður. Ég er ekki búin með bókina en það sem ég hef lesið fram að þessu er harmþrungið. Félagslegar- og pólitískar aðstæður í Norður Kóreu, og skortur á mannréttindum, er eitthvað sem þekkjum, en þegar maður les sögur eftir einstakling sem býr við slíkar aðstæður þá skyndilega verður ástandið enn raunverulegra og sársaukafyllra.

The Accusation
Höf. Bandi
Innbundin, 256 blaðsíður
Serpent's Tail


Listaverk: Utagawa Hiroshige, Rauð plómugrein á móti sumartungli, ca upp úr 1840
Utagawa Hiroshige, Rauð plómugrein á móti sumartungli,
ca upp úr 1840, viðarprent í lit

Næsti bókalisti verður sá japanski sem ég hef þegar minnst á hér á blogginu. Mér þótti því við hæfi að deila líka verki eftir japanska listamanninn Utagawa Hiroshige (einnig Andō Hiroshige, 1797-1858). Tré í vorblóma, mon dieu! Bráðum get ég drukkið latte á veröndinni og lesið undir bleikum blómum kirsuberjatrés ... gæðastund í lífi bókaunnanda.

Listaverk Utagawa Hiroshige af vefsíðu The Art Institute of Chicago | fyrstu þrjár bækurnar á bókalistunum eru í boði útgáfanna: Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail