Sýnir færslur með efnisorðinu min jin lee. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu min jin lee. Sýna allar færslur

sunnudagur, 9. júlí 2017

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Fyrr á árinu kom út skáldsagan Pachinko eftir Min Jin Lee, bandaríska skáldkonu af kóreskum uppruna, frá bókaútgáfunni Head of Zeus (Apollo). Mér barst eintak til að ritdæma og birti bókina á № 8 bókalistanum mínum. Verkið er reynslusaga kóreskrar fjölskyldu, um baráttu hennar og seiglu sem innflytjendur í Japan, og spannar átta áratugi 20. aldar. Tilfinningar mínar til bókarinnar eru eilítið blendnar, aðallega vegna þess að höfundur fer hratt yfir sögu - 490 síður bókarinnar eru fljótlesnar - og stundum vantaði að þróa persónur betur. Engu að síður er boðskapur bókarinnar mikilvægur og hún hefur sögulegt mikilvægi því höfundurinn varpar ljósi á félagslegt vandamál sem ég var ómeðvituð um: þá meðferð og kúgun sem kóreskir innflytjendur hafa búið við í japönsku samfélagi áratugum saman.

Titill bókarinnar, orðið pachinko, krefst útskýringar. Það birtist fyrst þegar bókin er hálfnuð. Pachinko er spilakassi með stálkúlum og pachinko-salirnir mynda risastóran iðnað í Japan, með hærri tekjur en útflutningstekjur bílaiðnaðarins. Pachinko-salirnir voru einn fárra staða sem vildu ráða fólk frá Kóreu í vinnu. Auk þess voru kofahreisi í kóreskum gettóum eina húsnæðislausnin því enginn vildi leigja þeim húsnæði.

Í Pachinko er rakin saga fjögurra kynslóða, sem byrjar árið 1911 í sjávarþorpi á suðausturhluta Kóreuskagans, ári eftir að Japanir innlimuðu landið. Spólum aðeins fram: Hin fimmtán ára gamla Sunja verður barnshafandi eftir ástarsamband við kvæntan mann. Fjölskyldu hennar er forðað frá útskúfun þegar Ísak, kristinn prestur frá norðurhluta landsins, býðst til að kvænast henni og taka hana með sér til Osaka, í Japan, þangað sem þau koma í apríl 1933.
Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Við upphaf ferðalagsins, í kringum blaðsíðu 80, fer sagan á flug og verður nokkuð spennandi. Ritstíllinn er einfaldur og vegna samræðna er takturinn hraður, sem einnig er megin galli bókarinnar. Í stað þess að þróa persónurnar, gefa þeim meiri dýpt, og að leyfa lesandanum að staldra aðeins við með þeim til að öðlast betri innsýn þá virðist sem höfundurinn sé stöðugt að keyra söguna áfram, kannski til að halda í við sögulegt samhengi. Saga Min Jin Lee er sannarlega áhugaverð en frásögnina skortir fyllingu.

Hún skiptir bókinni í þrjá hluta: Fyrstu tveir eru aðallega um reynslu innflytjandans, um baráttu Sunja og fjölskyldu hennar í kóresku gettói, og á bóndabæ á meðan heimstyrjöldin geisar. Þriðji hlutinn hefst í apríl 1962 og fjallar aðallega um afkomendurna. Á þeim punkti er fjölskyldan fjárhagslega stöndugri og síðar uppskera yngri meðlimirnir vel vegna pachinko-iðnaðarins. Þarna fer höfundurinn út af sporinu; sá þriðji er veikasti hlekkur bókarinnar. Min Jin Lee kynnir nýjar persónur til sögunnar - fáar sem höfðuðu til mín - og skilur eftir tómarúm þegar hún allt að því yfirgefur eldri kynslóðina. Það virðist sem Sunja og eldri fjölskyldumeðlimirnir falli í bakgrunninn, eins og þau séu ekki lengur mikilvæg, þegar það einmitt blasir við að svo mikið er ósagt um sögu þeirra, einkum tilfinningar.

Sunja er persóna sem ég hændist að og vonaðist til að kynnast betur í þriðja hlutanum. Eftir um það bil hundrað síður mátti loksins gægjast inn í hugarheim hennar: „All her life, Sunja had heard this sentiment from other women, that they must suffer—suffer as a girl, suffer as a wife, suffer as a mother—die suffering. Go-saeng—the word made her sick. What else was there besides this? She had suffered to create a better life for Noa, and yet it was not enough“ (bls. 420). Þetta var skammvinnt, því miður. Höfundurinn leiddi okkur beint inn í samræður og hélt áfram með söguna.

Ritdómur: Pachinko eftir Min Jin Lee · Lísa Stefan


Þó að Pachinko teljist seint til meistaraverka á bókmenntasviðinu ber að virða framlag höfundarins. Partur af mér vill standa með bókinni vegna þema hennar og mikilvægis fyrir okkar tíma: innflytjendur og sjálfsmynd, og hvernig við komum fram við innflytjendur og flóttafólk. Þarna tekst Min Jin Lee vel til. Þarna er að finna ádeilu á Japan en hún hvorki matar lesendur af skoðunum né fellur í þá gryfju að láta þá sjá hlutina í svörtu og hvítu. Ég treysti fullkomlega rannsóknarvinnu hennar fyrir ritun bókarinnar, reynslu fólks frá Kóreu í japönsku samfélagi, og hún lætur það í hendur lesandans að fella dóm.

Lesendur sem eru einungis í leit að sögu munu njóta lesturs bókarinnar, njóta þess hversu fljótlesin hún er. En lesendur sem snúa sér að bókmenntum fyrir ritstílinn, fyrir setningar sem þá langar að lesa aftur, og jafnvel skrifa niður, sitja uppi eilítið tómhentir.

Pachinko
Höf. Min Jin Lee
Innbundin, 490 blaðsíður
Head of Zeus / Apollo



Pachinko birtist á № 8 bókalistanum mínum



mánudagur, 20. mars 2017

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi · Lísa Stefan


Er ekki tilvalið að deila nýjum bókalista á þessum fyrsta vordegi? Þrjár bókaútgáfur, Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail, útveguðu fyrstu þrjár bækurnar á listanum og fyrir það ber að þakka. Síðar mun ég birta ritdóma um skáldsöguna Pachinko og dagbók Astrid Lindgren, A World Gone Mad, sem hún skrifaði á stríðsárunum, en í dag langar mig að beina athygli ykkar að einstöku norðurkóresku smásögusafni, The Accusation eftir Bandi (skáldanafn). Höfundurinn, óþekktur, býr enn í Norður Kóreu og hætti lífi sínu með skrifunum og því að smygla þeim úr landi (sjá meira hér að neðan). Þetta er № 8 bókalistinn:

1  Pachinko  · Min Jin Lee
2  A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 
3  The Accusation  · Bandi
4  Seize the Day  · Saul Bellow
5  The Blue Touch Paper  · David Hare
6  Another Country  · James Baldwin
7  Pale Fire  · Vladimir Nabokov
8  The Sea, The Sea  · Iris Murdoch


Seize the Day er mitt fyrsta verk eftir Saul Bellow - löngu tímabært! Vinur á Instagram og bókaormur sagði það vera „incredible“ og bætti við „it's haunted me most of my adult life.“ Ég ætlaði að byrja á Herzog en hún var ófáanleg á bókasafninu. Leikskáldið David Hare er í miklu uppáhaldi. Að hlusta á hann tala um skrif er hrein unun og loksins ætla ég að lesa æviminningar hans. Hann skrifaði til dæmis handrit kvikmyndarinnar The Hours (2002), sem er byggt á samnefndri sögu eftir Michael Cunningham. Yndisleg bók, yndisleg mynd. Ég er að endurlesa eina bók á listanum: The Sea, The Sea eftir Murdoch. Ég var líklega of ung þegar ég las hana því ég virðist afskaplega lítið muna eftir henni.

Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi · Lísa Stefan
Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi

The Accusation eftir Bandi inniheldur sjö sögur um venjulegt fólk í Norður Kóreu. Bandi (eldfluga á kóresku) er skáldanafn hins óþekkta höfundar og til að vernda hann enn frekar var nokkrum smáatriðum breytt. Í athugasemd frá útgefanda er tekið fram að þau telji verkið vera „an important work of North Korean samizdat literature and a unique portrayal of life under a totalitarian dictatorship“ (samizdat merkir að prenta og dreifa bönnuðum ritum í einræðisríkjum). Fyrir utan það sem við sjáum í fréttum þá höfum við bara kynnst frásögnum og ritum fólks sem tekist hefur að flýja landið. Það sem gerir þessa bók einstaka er að í fyrsta sinn höfum við sögur eftir rithöfund sem býr þar enn. Í stað formála og þakkarorða eru ótitluð ljóð eftir höfundinn, sem lýsir sjálfum sér svona í hinu fyrrnefnda: „Fated to shine only in a world of darkness“. Hið síðarnefnda inniheldur ljóð sem fjallar um þá ósk hans að orð hans séu lesin:
Fifty years in this northern land
Living as a machine that speaks
Living as a human under a yoke
Without talent
With a pure indignation
Written not with pen and ink
But with bones drenched with blood and tears
Is this writing of mine

Though they be dry as a desert
And rough as a grassland
Shabby as an invalid
And primitive as stone tools
Reader!
I beg you to read my words.
Það sem ég vildi að allur heimurinn læsi þessar sögur og að Bandi gæti einn daginn notið höfundalaunanna sem frjáls maður. Ég er ekki búin með bókina en það sem ég hef lesið fram að þessu er harmþrungið. Félagslegar- og pólitískar aðstæður í Norður Kóreu, og skortur á mannréttindum, er eitthvað sem þekkjum, en þegar maður les sögur eftir einstakling sem býr við slíkar aðstæður þá skyndilega verður ástandið enn raunverulegra og sársaukafyllra.

The Accusation
Höf. Bandi
Innbundin, 256 blaðsíður
Serpent's Tail


Listaverk: Utagawa Hiroshige, Rauð plómugrein á móti sumartungli, ca upp úr 1840
Utagawa Hiroshige, Rauð plómugrein á móti sumartungli,
ca upp úr 1840, viðarprent í lit

Næsti bókalisti verður sá japanski sem ég hef þegar minnst á hér á blogginu. Mér þótti því við hæfi að deila líka verki eftir japanska listamanninn Utagawa Hiroshige (einnig Andō Hiroshige, 1797-1858). Tré í vorblóma, mon dieu! Bráðum get ég drukkið latte á veröndinni og lesið undir bleikum blómum kirsuberjatrés ... gæðastund í lífi bókaunnanda.

Listaverk Utagawa Hiroshige af vefsíðu The Art Institute of Chicago | fyrstu þrjár bækurnar á bókalistunum eru í boði útgáfanna: Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail