föstudagur, 23. mars 2018

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur · Lísa Hjalt


Fýluferð á háskólabókasafnið er ástæða þess að ég deili № 14 bókalistanum seinna en ég ætlaði mér. Ég fór þangað til fá að láni bækurnar eftir Martin Amis og Joan Didion - ég vildi taka mynd af öllum bókastaflanum - en gleymdi skjali sem þarf til að fá bókasafnsskírteinið afhent. Ég hef ekki fundið tíma til fara aftur en fannst það best að deila listanum áður en ég klára að lesa hinar bækurnar á honum. Af og til fletti ég kompunni sem geymir heitin á bókunum sem mig langar að lesa (er sífellt að færa inn í hana) og reyni að forgangsraða; The War Against Cliché eftir Amis er ein af þeim og The White Album eftir Didion langaði mig að endurlesa. Sumir kunna að spyrja af hverju að eyða tíma í endurlestur þegar ólesnar bækur eru margar. Sumar bækur kalla einfaldlega á endurlestur. Ég hef ekki lesið allt eftir Didion en það ætla ég svo sannarlega að gera. Bókaútgáfan Diogenes sendi mér bók til að hafa á listanum og ég þakka þeim fyrir. Hún er skemmtileg aflestrar, full af sögum sem tengjast bókabúðum (sjá neðar).

№ 14 bókalisti:
1  The Prime of Life  · Simone de Beauvoir
2  Letters to Friends, Family & Editors  · Franz Kafka
3  The White Album  · Joan Didion
4  The War Against Cliché  · Martin Amis
5  Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen  [þýsk]
6  Þúsund kossar  · Jón Gnarr
7  Orðið á götunni  · Margrét Bjarnadóttir


Til að næra minn innri bókaunnanda, og til að æfa ryðguðu þýskuna, gladdi það mig að fá senda bók frá Diogenes Verlag til að bæta á listann: Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen. Á íslensku væri titillinn: „Fallegasti staður í heimi: Frá fólki í bókabúðum“. Hún geymir tuttugu sögur tengdar bókabúðum sem Martha Schoknecht safnaði saman. Sögumenn eru höfundarnir Mark Twain, Penelope Fitzgerald, Gustave Flaubert, Ingrid Noll og Patricia Highsmith, til að nefna nokkra. Fyrir ykkur sem hafið lesið 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff (sjá bloggfærslu), og vonandi notið, þá kætti það mig að finna í bókinni sum bréfanna sem hún skrifaði til og henni bárust frá bókabúðinni Marks & Co. í London. Hún er alveg jafn dásamleg og fyndin á þýsku.

Sem manneskja sem viðurkennir að dæma oft bækur af kápunni þá verð ég að minnast á bókarhönnunina. Í hvert sinn sem ég stíg inn í bókabúð hér í Þýskalandi kemst ég ekki hjá því að dást að hvítu kiljunum frá Diogenes. Kápa þessarar bókar er einstaklega falleg: líflegt og litríkt málverk, Union Square Bookstore, eftir listakonuna Patti Mollica.

Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt · Lísa Hjalt
Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt

Í sömu færslu á ensku útgáfu bloggsins kynnti ég rétt aðeins íslensku bækurnar á listanum en með öðrum hætti en ég geri hér. Ég held að flestir íslenskir lesendur bloggsins viti að Þúsund kossar eftir Jón Gnarr er ævisaga Jógu, eiginkonu hans, sem slasaðist alvarlega í bílslysi í Bandaríkjunum þegar hún var ung. Ofan á glímuna við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins bættist líka barátta fyrir dómstólum. Allt mótaði þetta líf hennar. Jóga hefur brallað ýmislegt um ævina og rak meðal annars tískuverslunina Skaparann í Reykjavík. Ein af mínum bestu vinkonum, sem þekkir Jógu vel, gaf mér bókina. Jóga áritaði ekki bara eintakið heldur skrifaði fallega kveðju til mín á titilsíðuna sem mér þótti afskaplega vænt um að lesa. Þar kemur hún meðal annars inn á að við erum afmælissystur. Ég er komin vel inn í frásögnina sem mér finnst einstaklega einlæg og lýsa tíðarandanum vel.

Hin íslenska bókin á listanum er mjög áhugaverð og er eftir Margréti Bjarnadóttur (það vill svo til að hún er „litla“ systir vinkonu minnar sem gaf mér bækurnar). Þetta er falleg og látlaus kilja sem geymir setningar sem hún heyrði á förnum vegi á tímabilinu maí 2009 til desember 2013. Hverja skráði hún orðrétt og setti sér þær reglur að hún yrði að skrásetja setninguna um leið og hún heyrði hana og að annar aðilinn í samræðunum þyrfti að vera á ferð. Hún hleraði sem sagt aldrei samtöl fólks. Á hverri síðu er ein færsla; yfirleitt er um að ræða eina stutta setningu eða spurningu. Þessi bók er dásamleg aflestrar og heimspekileg. Ég verð að deila með ykkur nokkrum uppáhaldssetningum (sem að vísu eru svo margar að ég gæti endurskrifað bókina hér):

· Ég er fjarsýnn - reyndar líka nærsýnn.
· Mér finnst rosa erfitt að galdra sko. Það er erfitt að galdra.
· Kisugríma ... er það eitthvað?
· I, like, actively resist ...
· Er enginn fullkominn, amma?


Og að lokum ein færsla sem fór alveg með okkur hérna við matarborðið í Þýskalandi þegar ég las hana upphátt. Okkur langar að vita allt um þessar sæmræður: „But German people are. That's why I like German people.“Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.