þriðjudagur, 13. mars 2018

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I · Lísa Hjalt


Á næstu vikum ætla ég að gera mitt besta til að klára Lestrarkompufærslur ársins 2017 og í dag deili ég áliti mínu á þeim bókum sem var að finna á fyrsta listanum mínum með japönskum bókmenntum eingöngu. Það gleður mig alltaf þegar ég heyri frá blogglesendum sem nota listana til að velja sér lestrarefni; enn meira þegar þeir njóta lestursins. Ég hef þegar verið spurð að því hvenær ég ætli að deila næsta japanska lista en ástæðan fyrir því að ég frestaði honum er sú að ég hef ekki klárað The Tale of Genji (sjá neðar). Á þeim lista verður bókin The Pillow Book eftir Sei Shonagon, annað klassískt verk eftir japanska hirðdömu, og mig langar að klára Genji áður en ég les hana. Þetta þýðir að lesendur bloggsins þurfa að bíða aðeins lengur.

№ 9 bókalisti:

· First Snow on Fuji eftir Yasunari Kawabata. Á meðan lestrinum stóð fékk ég það á tilfinninguna að takmörkuð þekking mín á japanskri menningu stæði í vegi fyrir að ég nyti þessara smásagna betur. Mér fannst líka eins og ég hefði fyrst þurft að lesa skáldsögur eftir Kawabata (ein verður á næsta japanska lista, og mér finnst líklegt að einn daginn lesi ég þetta sögusafn aftur). Það voru aðallega þrjár sögur sem höfðuðu til mín: „Silence“, „Nature“ og sú sem gefur bókinni titil sinn, „First Snow on Fuji“. Fuji-sagan er í uppáhaldi, en hún fjallar um tvo fyrrum elskendur sem fara saman í ferðalag þar sem þau sjá fjallið út um lestargluggann. (Ensk þýðing: Michael Emmerich.)

· The Temple of the Golden Pavilion eftir Yukio Mishima. Þegar ég deildi listanum var ég um það bil hálfnuð með bókina og sagði ykkur frá, að því er mér fannst, fráhrindandi söguhetjunni. Mishima moðaði skáldsögu úr sögunni um munkinn sem kveikti í Gullna hofinu árið 1950. Ég man ekki eftir því að hafa fundist nokkur söguhetja eins fráhrindandi. Ég fann ekki nokkra samúð með gæjanum og þegar leið á söguna varð hann sífellt meira ógeðfelldari. Sennilega er það snilldin við bókina. Ég get ekki sagt að hún hafi verið skemmtilestur. Það væri betra að lýsa lestrarupplifuninni sem áhugaverðri. (Ensk þýðing: Ivan Morris.)

· Some Prefer Nettles eftir Jun'ichirō Tanizaki. Stutt skáldsaga um menningarlega togstreitu, þar sem gamla og nýja Japan mætast. Bókin veitir innsýn í heim japansks brúðuleikhúss. Ef frá er talinn tvíræður endirinn líkaði mér bókin, mér líkaði prósinn, en mæli ekki með að fólk lesi þessa fyrst ef það hefur aldrei lesið bók eftir Tanizaki. The Makioka Sisters er enn mín uppáhaldsbók eftir hann, og ein af mínum allra uppáhaldsbókum. (Ensk þýðing: Edward G. Seidensticker.)

· The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu. Á bókalistanum voru tvær þýðingar og ég keypti þá eftir Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Eins og ég nefndi áður þá hef ég ekki lokið lestrinum. Ekki það að mér líki ekki bókin, heldur fannst mér eins og ég þyrfti einhvers konar kennslubók til að skilja þann heim sem hún lýsir. Fyrir löngu síðan skráði ég mig í kúrs um heimsbókmenntir í gegnum netið, sem ég náði aldrei að klára, og á honum var einmitt Genji tekin fyrir. Ég áttaði mig á því að ég hafði enn aðgang að fyrirlestrunum og efninu á netinu og ákvað því að taka lestrarpásu. Því miður fer kúrsinn ekki í gegnum bókina kafla fyrir kafla en fyrirlestrarnir hjálpuðu mér að fá betri innsýn í þennan heim. Núna kýs ég að lesa einn til tvo kafla í einu og velta þeim fyrir mér áður en ég held áfram. Bókin er blanda af prósa og ljóðum og lýsir fornri japanskri menningu (Heian-tímabilið), pólitík og samfélagi keisarahirðarinnar. Siðir hennar voru mér framandi en núna finnst mér ég skilja verkið betur. Ég er heilluð af því hvernig sögupersónurnar eiga samskipti með því að skiptast á ljóðum - aðallega elskhugar - og hlutverki skrautskriftar. Í verkinu er stöðugt verið að vísa í plöntur og ég stend sjálfa mig að því að fletta upp myndum af þeim á netinu.

· My Neighbor Totoro: The Novel eftir Tsugiko Kubo. Þessi dásamlega bók fyrir börn (á öllum aldri) inniheldur upprunalegu teikningar leikstjórans Hayao Miyazaki (bókin er gerð eftir teiknimyndinni frá Studio Ghibli). Ef þið eruð þreytt á því sem ég kýs að kalla hávaðasamar barnabækur þá vil ég trúa því að þessi komi ykkur á óvart og kæti. Hún fjallar um hina ellefu ára gömlu Satsuki og systur hennar Mei og hvernig þær uppgötva Totoro, skógarveru sem býr yfir göldrum. (Ef hávaðasamar teiknimyndir fá ykkur til að missa trúna á mannkyninu þá get ég mælt með teiknimyndinni, My Neighbour Totoro (1988).)

Þeir sem fylgja mér á Instagram kunna að hafa tekið eftir nokkrum nýjum bókum. Ég deili bráðum № 14 bókalistanum, þarf bara að komast á háskólabókasafnið í Bremen áður og grípa þar tvö verk sem ég vil hafa á honum. Til að segja eins og er held ég að sterkar líkur séu á því að ég missi alla sjálfstjórn og fái fleiri bækur að láni á safninu.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.