fimmtudagur, 2. ágúst 2018

№ 15 bókalisti | #WITMonth

№ 15 bókalisti: Eisenberg, McPhee, McEwan · Lísa Hjalt


Hitabylgja mætti á svæðið. Ég vona að hún fari að láta sig hverfa því ég get ekki lesið í þessum kæfandi hita, get ekki einbeitt mér. Hitabylgjur eru ekki fyrir fólk sem er fætt í nálægð við heimskautsbauginn. Þessa dagana eru það ís og sjónvarpsþættir sem hjálpa okkur að höndla ástandið. Bókalistinn, sem ég ætlaði að deila fyrr, hefur gengið í gegnum breytingar: Ég hef til dæmis fjarlægt tvær bækur sem ég endurlas og bókina The Human Stain eftir Philip Roth, sem nú er látinn. Roth verður að bíða því bókasafnið átti ekki eintak.

№ 15 bókalisti:
1  Enduring Love  · Ian McEwan
2  Draft No. 4  · John McPhee
3  Under the 82nd Airborne  · Deborah Eisenberg *
4  The Hare with Amber Eyes  · Edmund de Waal
5  Cheerful Weather for the Wedding  · Julia Strachey **
6  Comet in Moominland  · Tove Jansson **

* Eintakið mitt er ófáanlegt. Tengillinn leiðir ykkur á annað safn sem inniheldur
sömu smásögurnar.  ** Endurlestur

Ég keypti bókina eftir John McPhee í vor. Þó að vikur séu liðnar frá því ég las hana þá vildi ég hafa hana á listanum; mæla með henni fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum. Hún er ekki hefðbundin ritstílsbók með dæmum og áherslulistum heldur safn ritgerða. Prófessor McPhee notar persónulegar dæmisögur til að deila innsýn sinni í það sem hann kallar skapandi óskálduð skrif (e. creative nonfiction). Á listanum er rit eftir listamanninn Edmund de Waal sem skrifaði sögu fjölskyldu sinnar. Það var textílhönnuðurinn Lisa Fine sem mælti með bókinni hér á blogginu og það er kominn tími til að lesa eintakið sem ég keypti í Skotlandi síðasta sumar.


Ágúst er Women in Translation Month, eða mánuður tileinkaður þýddum bókum eftir konur. Á samfélagsmiðlunum gengur hann undir merkinu #WITMonth. Það var Meytal Radzinski, sem heldur úti blogginu Bibliobio, sem sýndi frumkvæði árið 2014 og kynnti hann til sögunnar. Ég hef aldrei tekið þátt, sennilega vegna þess að ég, eins og aðrir Íslendingar, hef lesið þýddar bækur eftir konur (og karla) frá því ég man eftir mér. Að lesa þýdd verk telst eðlilegt meðal lesanda sem fæðast í löndum þar sem enska er ekki móðurmálið. Ég ákvað samt að lýsa stuðningi við #WITMonth í ár með því að bæta einni bók um Múmínálfana á bókalistann: Comet in Moominland eftir finnsku skáldkonuna Tove Jansson, í enskri þýðingu eftir Elizabeth Portch. Á íslensku kallast bókin Halastjarnan og það var Steinunn S. Briem heitin sem þýddi. Steinunn var ötull þýðandi.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.