mánudagur, 14. apríl 2014

Etnískar mottur

Etnískar mottur · Lísa Hjalt


Fyrir fjölmörgum árum síðan í einhverri allsherjar tiltekt þá henti eiginmaðurinn óvart bunka af tímaritum sem ég ætlaði að geyma. Í þessum tiltekna bunka var erlent tímarit sem var með innliti á afskaplega fallegt heimili í annaðhvort New Mexico eða Arizona þar sem stíllinn á húsgögnunum var hrár, ósléttir veggir hvítmálaðir og svo voru mottur og annar textíll í etnískum stíl (líklega Navajo). Eftir öll þessi ár get ég enn þá kallað fram einstaka myndir í innlitinu í huga mér enda var ég gjörsamlega heilluð af þessu húsi.

Það sem sérstaklega höfðaði til mín var jafnvægið sem náðist í innanhússhönnuninni; ekkert var ofhlaðið eða ofskreytt. Í síðustu viku á ensku útgáfunni póstaði ég einni mynd frá búgarði Ralph Lauren, nánar tiltekið af innganginum í líkamsræktina (það var eina rýmið sem mér fannst flott), og hún minnti mig á innlitið.

Etnískar mottur · Lísa Hjalt
Kilim-mottur

Upp á síðkastið hefur þessi etníski stíll svolítið verið að toga í mig aftur og ég er farin að veita honum meiri athygli þegar ég er að fletta tímaritum eða skoða á netinu (þetta er hluti af myndum sem ég er búin að safna í möppu). Mig langar að eignast alla vega eina etníska mottu hvort sem hún yrði sett í stofuna eða bara í skrifstofuherbergið. Annaðhvort myndi ég velja stóra mottu eða þá að ég myndi leggja minni mottu ofan á náttúrulega mottu. Ég held að það gæti verið smart, sérstaklega þar sem mig langar í etníska mottu með ljósum tónum, einhverja sem er ekki of litrík því ég veit að ég myndi fljótt fá leið á því. Annars finnst mér stíliseringin hjá West Elm sem sést á efstu myndinni vera töff, þ.e. að raða bara litlum mottum saman.

Ef þið eruð í etnískum hugleiðingum þá vona ég að þessar myndir veiti innblástur.

Etnískar mottur · Lísa Hjalt
Notuð tyrknesk kilim-motta
Etnískar mottur · Lísa Hjalt
Etnískar mottur · Lísa Hjalt


myndir:
1: West Elm stílisering af blogginu Lotus & Fig / 2: The Marion House Book / 3: Little Dog Vintage á Etsy / 4: Marie Claire Maison af blogginu The Style Files / 5: Cultiver af blogginu The Design Files