Sýnir færslur með efnisorðinu mottur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu mottur. Sýna allar færslur

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag

þriðjudagur, 22. apríl 2014

Innlit: Hlýlegt heimili í Danmörku




Ég var að leita að einhverju á Pinterest um daginn þegar ég rakst á myndina með hvítu hillunum hér að ofan og þegar ég sá glitta í hvít viðargólfborð þá vissi ég að þetta hlyti að vera skandinavískt heimili. Þegar ég smellti á myndina endaði ég á heimasíðu Femina og sá að eigandinn bar íslenskt nafn (innlitið er að vísu orðið gamalt þannig að ég veit ekki hver er núverandi eigandi). Persónulega er ég lítt hrifin af hvítmáluðum gólfborðum; ég hef séð of mikið af þeim stíl í skandinavískum innanhússtímaritum. Eins og sést eru gólfborðin ómáluð í svefnherberginu og þau finnst mér mun fallegri. En stíllinn á heimilinu finnst mér hlýlegur.



Isak Hoffmeyer fyrir Femina (uppgötvað á síðu Abby Capalbo/Pinterest)

mánudagur, 14. apríl 2014

Etnískar mottur

Etnískar mottur


Fyrir mörgum árum síðan í allsherjar tiltekt þá henti eiginmaðurinn bunka af tímaritum sem ég ætlaði að geyma. Í þessum tiltekna bunka var erlent tímarit sem var með innliti á afskaplega fallegt heimili í annaðhvort New Mexico eða Arizona þar sem stíllinn á húsgögnunum var hrár, ósléttir veggir hvítmálaðir og svo voru mottur og annar textíll í etnískum stíl (líklega Navajo). Eftir öll þessi ár get ég enn þá kallað fram einstaka myndir í innlitinu í huga mér enda var ég gjörsamlega heilluð af þessu húsi. Það sem sérstaklega höfðaði til mín var jafnvægið sem náðist í innanhússhönnuninni; ekkert var ofhlaðið eða ofskreytt.

Etnískar mottur
Kilim-mottur

Upp á síðkastið hefur þessi etníski stíll svolítið verið að toga í mig aftur og ég veiti honum meiri athygli þegar ég fletti tímaritum eða skoða á netinu (þetta er hluti af myndum sem ég hef safnað í möppu). Mig langar að eignast allavega eina etníska mottu fyrir stofuna eða skrifstofuherbergið. Annaðhvort myndi ég velja stóra mottu eða minni ofan á stærri náttúrulega mottu. Ég held að það gæti verið smart, sérstaklega þar sem mig langar í etníska mottu með ljósum tónum, einhverja sem er ekki of litrík því ég veit að ég myndi fljótt fá leið á því.

Ef þið eruð í etnískum hugleiðingum þá vona ég að þessar myndir veiti innblástur.

Etnískar mottur
Notuð tyrknesk kilim-motta
Etnískar mottur
Etnískar mottur


1: West Elm stílisering af blogginu Lotus & Fig / 2: The Marion House Book / 3: Little Dog Vintage á Etsy / 4: Marie Claire Maison af blogginu The Style Files / 5: Cultiver af blogginu The Design Files