Sýnir færslur með efnisorðinu eldhúsmunir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu eldhúsmunir. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 11. ágúst 2015

Náttúrulegt eldhús með réttri áferð

Náttúrulegt eldhús · Lísa Hjalt


Rétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul

þriðjudagur, 16. júní 2015

Heltekin af strandarstíl



Ég er heltekin af strandarstíl. Í allan dag hefur hugurinn reikað á ströndina og mig langar bara að finna sand á milli tánna og dýfa þeim í sjóinn. Þetta byrjaði þegar eiginmaðurinn sendi mér mynd frá þeim stað sem hann dvelur á í augnablikinu. Hann er fjarverandi vegna vinnu og gistir í einum af þessum litlu bæjum sem eru með strönd og bátahöfn. Á morgun, á þjóðhátíðardaginn, eigum við brúðkaupsafmæli (17 ár) og ef börnin væru ekki enn í skólanum þá hefðum við getað verið þar með honum og fagnað. Kannski einn daginn.

Sem sárabót með lattebollanum í morgun keypti ég júlítölublað Country Living UK, en það vill svo til að það er stútfullt af strandarstíl. Það var einn ljósmyndaþáttur sem fangaði athygli mína, Shades of the Shoreline, sem er fallega stíliseraður af Hester Page og ljósmyndaður af Catherine Gratwicke. Ef ég ætti strandarhús þá væri þetta horn með veðraða skrifborðinu í því. Ég er að hugsa um að apa eftir hluta af stíliseringunni í forstofunni í sumar. Ég er með hvítt borð þar og ég þyrfti bara að verða mér út um skeljar og grænar glervörur. Ég sá einmitt grænar glerflöskur og -krukkur í búð um daginn.



Það er hellingur af öðrum áhugaverðum ljósmyndaþáttum og greinum í tímaritinu og ein fjallar um eyjuna Guernsey og endar með þessu sæta myndskreytta korti hér að neðan (elska svona kort!). Eftir að hafa lesið bókina The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society eftir Mary Ann Shaffer (sjá þessa færslu) hefur það verið draumur minn og æskuvinkonu minnar að ferðast þangað saman.


Undanfarið hef ég verið með nett æði fyrir laufblöðum bananatrjáa og í umfjölluninni las ég að Seigneur Peter de Sausmarez sem á Sausmarez Manor-setrið í St. Martin "umbreytti fimm ökrum af skóglendi í suðræna paradís þar sem bambus- og bananatré standa meðfram göngustígum, þar sem má finna meira en 300 kamellíu-runna og fullkominn skúlptúrgarð" (bls. 64). Annar staður sem ég myndi vilja skoða er Hauteville-húsið, með Victor Hugo-garðinum, þar sem rithöfundurinn bjó þegar hann var í útlegð á eyjunni frá 1856 til 1870.

Gleðilegan þjóðhátíðardag á morgun!


myndir teknum af síðum Country Living UK, júlí 2015, bls. 92-98

miðvikudagur, 8. október 2014

Handmáluð viskustykki frá Bertozzi


Í vikunni uppgötvaði ég vefsíðu AllÓRA, sem er verslun í London sem selur hvers kyns ítalskt handverk. Ítalska orðið allóra þýðir ,í fortíðinni' og kjörorð fyrirtækisins eru ,oggi come AllÓRA' sem mætti þýðast 'í dag sem þá'. Hjá AllÓRA hafa þau myndað náið samband við handverksfólkið og þau leggja áherslu á gæði vörunnar og að hún sé ekta, að handverkið sé fallegt og unnið með ástríðu. Verslunin, sem er einnig netverslun, býður upp á gott úrval en það sem aðallega fangaði athygli mína voru handmáluðu viskustykkin frá ítalska fyrirtækinu Stamperia Bertozzi.
Handmáluð viskustykki frá Bertozzi · Lísa Hjalt


Stamperia Bertozzi er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1920. Þau nota fornar handverksaðferðir til að búa til handmáluð og handprentuð efni með ástríðu. Þau blanda litina sjálf og nota blöndur sem hafa varðveist innan fjölskyldunnar, frá einni kynslóð til annarrar.

Þessi stílhreinu viskustykki - línan kallast Gradation - eru unnin úr 100% líni. Efnið sem er notað í viskustykkin er lífrænt og ofið í vefstól sem skilar efni sem er mjúkt viðkomu. Með tímanum tekur það breytingum og verður bara fallegra í útliti.

Þegar efnið er málað er það ekki bara sett til hliðar og látið þorna heldur er línið unnið þrisvar sinnum og málað með mismunandi litatón í hvert sinn. Að lokum nota þau sérstaka Bertozzi handverksaðferð til að festa litinn sem felst í því að nota gufu sem er drifin með sólarorku. Útkoman er skær eða sterkur litur sem endist lengur.

Ég féll kylliflöt fyrir viskustykkjunum í bláu (indigo) og brúnu (cacao) og myndi gjarna vilja sjá þau í mínu eldhúsi, en Gradation-línan er einnig fáanleg í grænu og bleiku.

- stærð – 70 x 55 cm - má fara í þvottavél - þarf ekki að strauja


AllÓRA | 66 Oxford Gardens | London W10 5UN
Sími: +44 (0)20 3701 4076 | Netfang: info@allorashop.com

myndir:
af vetsíðu AllÓRA

þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POME



Eruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

mánudagur, 19. maí 2014

Breytingar



Ég lofaði fréttum á föstudaginn. Fyrir ykkur sem hafið fylgst með blogginu síðan við bjuggum í Antwerpen (var bara með ensku útgáfuna þar) þá eru svona fréttir ekki beint óvæntar: við erum að flytja aftur! Í þetta sinn eru þetta ekki flutningar á milli landa (værum á leið til Ástralíu ef yngri dóttirin mætti ráða) heldur erum við að færa okkur til South Yorkshire (ætli það kallist ekki hinu skelfilega nafni Suður-Jórvíkurskíri á íslensku. Börnin fengu kast þegar ég sagði þeim frá íslenskum þýðingum á hinum og þessum „shires“ í Englandi). Ástæðan fyrir flutningunum er löng eiginmaðurinn-óvænt-að-skipta-um-vinnu saga. Við ætluðum að flytja síðar á árinu eða því næsta en svo fundum við rétta húsið núna um páskana.

Eftir það gerðust hlutirnar frekar hratt því krakkarnir vildu byrja í nýjum skólum fyrir sumarfrí til þess að vera búnir að kynnast skólastarfinu áður en skólinn byrjar aftur í haust. Ég tala yfirleitt ekki um börnin mín á blogginu en verð að segja að aðlögunarhæfni þeirra er hreint með ólíkindum. Svona breytingar virðast varla hagga þeim. Ég sjálf er óhrædd við breytingar og hef ekki tamið mér það að halda í hluti en stundum velti ég því fyrir mér hvort ég hafi alið börnin þannig upp að þau eigi hreinlega of auðvelt með að sleppa taki á hlutum!


Á laugardaginn sá ég húsið í fyrsta sinn og um leið og ég gekk inn í það þá var ég komin heim. Það er nýtt og nútímalega innréttað en samt hlýlegt. Veggir, gólfefni og innréttingar eru í hlutlausum tónum þannig að það verður auðvelt að koma okkar dóti fyrir og skapa fallegt heimili. Ég er skotin í eldhúsinu og get ekki beðið að elda fyrstu máltíðina og skella böku eða köku í ofninn. Garðurinn sem við erum með núna er mjög fallegur og fullur af blómum en á nýja staðnum er bara gras og engin blómabeð. En við lóðarmörkin standa tignarleg síprustré og svo kaupum við bara rósir, lavender og fleiri plöntur í pottum og gerum huggulegt hjá okkur.

Á morgun mætir hér hópur af starfsmönnum flutningsfélags sem sér um að pakka öllu dótinu okkar í kassa og á miðvikudaginn flytjum við í nýja húsið. Við erum orðin ansi spennt og ég get ekki beðið eftir að taka upp úr kössunum og koma dótinu fyrir.

Takk fyrir innlitið og njótið dagsins!


myndir:
1: Sean Fennessy fyrir The Design Files / 2: El Mueble / 3: Jodi af Practising Simplicity af síðu Jacquelyn/lark & linen á Pinterest

föstudagur, 9. maí 2014

Línvörur í Merci í París


Í stað þess að óska ykkur góðrar helgar með föstudagsblómum birti ég færslu í náttúruleg efni seríunni. Síðasta föstudag vorum við að dást að kirsuberjatrjám í París og því er eðal að halda þangað aftur. Ég vildi stundum að ég byggi í París bara svo ég gæti verslað borðbúnað hvenær sem mér hentaði í Merci, yndislegu concept-búðinni á Boulevard Beaumarchais í 3. hverfi, (muniði eftir þessari færslu?). Þau eru með netverslun en það er allt önnur stemning að rölta um búðina og snerta efnin. Ég er svo hrifin af línvörunum þeirra og hef sett margar á óskalistann. Ef þið eruð að leita að náttúrlegum efnum fyrir heimilið þá er Merci rétta verslunin.

Tauservíettur, 100% lín, blá (French blue) + fölbleik (blush pink)

Ég á nokkrar tauservíettur frá Merci í hlutlausum tónum. Þær eru framleiddar úr þvegnu líni og eru náttúrulega krumpaðar í útliti. Fyrir sumarið langar mig í liti eins og bláan (French blue), mjög ljósbláan tón (blue lagoon), fölbleikan (blush pink), og jafnvel skærbleikan (bright pink), sem lítur út fyrir að vera kóralrauður.


Síðasta sumar eyðilagðist því miður uppáhaldsborðdúkurinn minn, bómull-lín blanda í blá-gráum lit, þegar vax frá flugnafælukerti helltist niður á hann. Ég keypti hann þegar við bjuggum í Antwerpen og hef ekki fundið þennan sama lit hér í Englandi. Ég man þegar ég skoðaði dúkana í Merci hvað ég varð hrifin af gráa litnum (graphite grey) og beinhvíta (off-white). Ég er líka svolítið skotin í fjólubláa (violet) dúknum.

Svuntur með rönd, 100% lín, kóralrauð (light coral) + dökkblá (dark navy blue)

Önnur vara frá Merci sem mig langar í er svunta með rönd í svo til hvaða lit sem er. Þær eru einnig úr þvegnu líni sem er náttúrlega krumpað. Svunturnar eru fáanlegar í einni stærð og maður getur notað hálsbandið eða brotið þær saman og bundið um mittið.


myndir:
Merci

þriðjudagur, 6. maí 2014

Fyrir heimilið: Toast vor 2014



Í hverjum mánuði kemur nýr bæklingur frá Toast með alls kyns munum fyrir heimilið og yfirleitt er stíliseringin mjög flott. Þetta er sá nýjasti, fyrir apríl. Gallinn við þá er að mér tekst alltaf að lengja hjá mér óskalistann, en sem betur fer er ég laus við þá þörf að þurfa að eignast allt sem lendir á honum. Stundum er nefnilega í góðu lagi að láta sig dreyma … þar til næsti bæklingur kemur.


myndir:
Toast, apríl 2014 bæklingur

þriðjudagur, 22. apríl 2014

Innlit: Hlýlegt heimili í Danmörku




Ég var að leita að einhverju á Pinterest um daginn þegar ég rakst á myndina með hvítu hillunum hér að ofan og þegar ég sá glitta í hvít viðargólfborð þá vissi ég að þetta hlyti að vera skandinavískt heimili. Þegar ég smellti á myndina endaði ég á heimasíðu Femina og sá að eigandinn bar íslenskt nafn (innlitið er að vísu orðið gamalt þannig að ég veit ekki hver er núverandi eigandi). Persónulega er ég lítt hrifin af hvítmáluðum gólfborðum; ég hef séð of mikið af þeim stíl í skandinavískum innanhússtímaritum. Eins og sést eru gólfborðin ómáluð í svefnherberginu og þau finnst mér mun fallegri. En stíllinn á heimilinu finnst mér hlýlegur.



Isak Hoffmeyer fyrir Femina (uppgötvað á síðu Abby Capalbo/Pinterest)

miðvikudagur, 19. mars 2014

Hönnuðurinn Lotta Jansdotter í spjalli


Það er komið að fyrsta viðtalinu í náttúruleg efni seríunni á blogginu, spjall við sænska hönnuðinn Lotta Jansdotter sem er búsett í Brooklyn. Í fullkomnum heimi hefði ég kíkt í heimsókn á vinnustofu hennar í Gowanus-hverfinu og svo setið með henni á kaffihúsi þar sem við hefðum rætt um hönnun hennar og hvernig það að alast upp í Svíþjóð hefur mótað hönnunina. En Atlantshafið aðskilur okkur og auk þess er Lotta mjög upptekin. Í staðinn sendi hún mér form með tilbúnum spurningum og svörum og þar var að finna allt sem mig langaði að fá svör við, fyrir utan eina spurningu, þá síðustu sem hún að sjálfsögðu sendi mér svar við.



Rætur hennar eru skandinavískar. Hún fæddist á Álandseyjum (á milli Svíþjóðar og Finnlands) og hún var alin upp í Stokkhólmi. Öllum sumrum eyddi hún með föður sínum og ömmu á Álandi. Að dvelja þar er í hennar huga næring fyrir sálina. Hún er höfundur bókarinnar Lotta Jansdotter's Handmade Living: A Fresh Take on Scandinavian Style og annarra bóka. Hún er sjálflærð, aðallega með tilraunum og mistökum. Þannig nam hún iðnina.

Við skulum kynnast henni betur!

Hver er sagan á bak við þinn listræna feril og þann sess sem þú hefur skapað þér?
Mér hefur alltaf þótt gaman að teikna. Sem krakki elskaði ég að teikna blóm og mynstur og það hefur fylgt mér allar götur síðan. Ég var 20 ára þegar ég flutti frá Svíþjóð til Bandaríkjanna í leit að því sem ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég sótti alls kyns kúrsa í tómstundaskólum í Kaliforníu: skartgripahönnun, skúlptúr, teikningu, keramik og silkiprentun ... ég ELSKAÐI silkiprentun. Ég ákvað að hætta í skóla og stofna mitt eigið fyrirtæki, sem ég gerði árið 1996. Ég prentaði myndirnar sem ég teiknaði og mótífin á lín og bjó til púða og töskur sem seldust í Ameríku og Japan. Stíll minn var einfaldur, stílhreinn og mjög innblásinn af náttúrunni og sumrunum sem ég eyddi sem barn í skandinavískri náttúru.


Ég elskaði að teikna og klippa pappír, að nota blek og gúmmísement og penna ... og lærði aldrei að nota tölvuforrit fyrir þessa list ... þannig að mitt mjög svo lífræna ferli þróaðist með þeim hætti að ég hannaði aldrei neitt í tölvu, það sem ég skapaði var ójafnt, svolítið „wabi sabi“-legt ... ófullkomlega fullkomið. Slíkan stíl var ekki að finna á ameríska gjafa/innanhússmarkaðnum á þeim tíma ... og þannig byrjaði þetta allt.

Hvernig lýsirðu hönnunarferli þínu?
Ég teikna svo til alla mína hönnun í teikniblokkir eða á lausablöð, umslög o.s.frv. Ég nota venjulegan gamlan penna (aldrei blýant - þoli þá ekki - línurnar þurfa að vera stöðugar, þykkar og sterkar) eða blek. Ég nota svo ljósritunarvél til að leika mér með stærðir og endurtekningar. Ég kann ekki að nota tölvu og vil heldur ekki nota hana. Ég elska að meðhöndla, að klippa, líma og festa - að snerta pappírinn og verða aðeins klístruð á fingrunum. Ferlið er mjög skemmtilegt.



Því miður er ég oftast svo upptekin við reksturinn að ég á erfitt með að finna tíma til að teikna og skapa. En til allrar lukku þá tel ég það skapandi ferli að vera með sinn eigin rekstur, það er bara öðruvísi sköpunarferli.

Er eitthvað í hönnunarferlinu í uppáhaldi?
Ég elska þá tilfinningu þegar ég dett niður á góða hönnun. Ég teikna og rissa alls kyns hluti og svo allt í einu er ég komin með mótíf sem einhvern veginn er hið rétta. Það gerir mig spennta og ég veit að það mun koma vel út. Það er næstum því eins og að leita að fjársjóði í manns eigin listræna heila. Stundum hefur maður ekki hugmynd um hver útkoman verður. Það hljómar abstrakt, ég veit - það getur verið erfitt að lýsa ferlinu.

Ánægjulegasti hlutinn?
Ég elska að snerta og finna pappírinn, að klippa og leika mér með mynstrin, að fá lím á fingurna. Það er þessi áþreifanlega upplifun sem mér finnst svo mikilvæg þegar ég er að skapa; að finna hlutina sem ég skapa með höndunum, sem er ástæða þess að ég nota ekki tölvu fyrir prenthönnun mína.


Hvaða hlutverki gegna litir í hönnuninni?
Þeir eru undirstöðuatriði í hönnun minni. Mjög mikilvægir. Ég hanna allt í svörtu og hvítu og svo geri ég tilraunir með mismunandi liti. Hönnunin verður mjög ólík með notkun mismunandi lita. Að finna „rétta“ litinn skiptir sköpum - það er það sem gefur hönnuninni tóninn.

Hvað heldurðu að það sé við stíl þinn sem laðar að viðskiptavini?
Fólk skrifar mér og segir að hönnun mín veiti þeim innblástur, sem gerir mig glaða - það er ótrúlega gefandi fyrir hönnuð að veita öðrum innblástur. Því finnst hönnunin róandi (þann hluta skil ég ekki því ég lít ekki á mig sem róandi manneskju), hrein og einföld. Stíll minn er ekki drifinn áfram af tískustraumum. Hann er tímalaus. Ég held að fólk kunni að meta einfalda og náttúrlega eiginleikann. Hönnunin er ekki flókin eða íburðarmikil.

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Georgia O'Keeffe innblásið borðhald



Fyrir ykkur sem lesið ensku útgáfu bloggsins þá ætti þessi póstur ekki að koma á óvart. Í fyrradag deildi ég tískuþætti innblásnum af Georgia O'Keeffe og í dag innliti í hús listakonunnar í Abiquiu í New Mexico, en því hefur verið haldið við síðan hún lést árið 1986. Mig langaði til að vera með eitthvað tengt Georgia O'Keeffe á íslenska blogginu líka og mundi þá eftir myndaþættinum „South by Southwest“ sem birtist í tímaritinu Gourmet fyrir nokkrum árum síðan. Stílisering var í höndum Ruth Cousineau og ljósmyndarinn Mikkel Vang festi herlegheitin á filmu. Hrái stíllinn og hlutlausu tónarnir í bland við þá bláu eru mér að skapi. Hauskúpur dýrana gætu ekki verið meira O'Keeffe. Þær voru innblástur að mörgum verka hennar, en hún safnaði þeim ásamt beinum og steinum í göngutúrum sínum í stórbrotinni náttúru New Mexico.


myndir:
Mikkel Vang fyrir Gourmet | stílisering: Ruth Cousineau af blogginu One Part Gypsy

miðvikudagur, 29. janúar 2014

Rýmið 51




- eldhús í Marrakesh í Marokkó
- hönnuðir Karl Fournier og Olivier Marty hjá Studio KO

mynd:
Philippe Garcia fyrir franska AD, n°120, nóvember 2013

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Rýmið 48



Stundum vildi ég að ég byggi í Ástralíu svo ég gæti skotist út í búð og gripið eintak af Vogue Living þegar mér hentar. Ég hef séð myndir úr hinum ýmsu umfjöllunum í blaðinu og allar eiga þær það sameiginlegt að vera smekklegar. Því miður veit ég engin nánari deili á þessu eldhúsi því ég hef bara þessa einu mynd. Mér þykir líklegt að þetta sé umfjöllun um sumarbústað eða sveitabæ, en það sem vakti áhuga minn voru fallegu hvítu og bláu eldhúsmunirnir. Ég er alltaf svolítið veik fyrir svona mynstrum og mig dauðlangar í þessar könnur þarna í efstu hillunni. Ég verð að finna flóamarkað fljótlega og sjá hvort ég hafi heppnina með mér.

mynd:
Jonny Valiant fyrir Vogue Living af Pinterest

fimmtudagur, 1. ágúst 2013

Sumar: afslöppun og einfaldleiki




Ef þessar myndir fanga ekki hina einu sönnu sumarstemningu þá veit ég ekki hvað! Miðað við fréttir frá Íslandi þá á ég von á því að sumarið leiki við ykkur þessa dagana. Við fengum nokkra skýjaða daga með rigningu inn á milli sem var kærkomið eftir mikil hlýindi. Ég notaði þá til að sinna heimilinu á meðan eiginmaðurinn smíðaði nýtt garðborð fyrir okkur. Sólin kom aftur í gær þannig að núna þarf ég að setja á mig garðhanskana og vera dugleg áður en við setjumst út á svalir að borða í kvöld - vonandi við nýja borðið.

En fyrst er það einn bolli af latte og einn kafli af skrifum Karen Blixen. Kannski tveir. Þá meina ég bollar og kaflar.

myndir:
01, 02, 03, 04, 05, 06: af vefsíðu Brigitte (uppgötvað af síðunni This Ivy House)