Sýnir færslur með efnisorðinu keramik. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu keramik. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 11. ágúst 2015

Náttúrulegt eldhús með réttri áferð

Náttúrulegt eldhús · Lísa Hjalt


Rétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul

þriðjudagur, 30. september 2014

Ný keramiklína: POME-POME



Eruð þið að leita að fallegum og stílhreinum munum til að prýða borðið ykkar, einhverju nýju til að safna? Nú í haust er væntanleg á markað ný keramiklína, POME-POME, frá hinni dönsku Malene Helbak, sem hún hannaði í samstarfi við sænska grafíska hönnuðinn Nygårds Maria. Þær stöllur sóttu innblástur í jurtaríkið og allir munirnir eru hvítir með sæbláum og petról-bláum (er til íslenskt heiti yfir svona lit?), mintugrænum og appelsínugulum tónum. Er það klisja að segja að það gerist varla skandinavískara? Ég veit ekki með ykkur en ég gæti vel hugsað mér að dekka mitt borð með þessum munum.

mynd:
af vefsíðu Bo Bedre

miðvikudagur, 30. júlí 2014

Hönnuðurinn Urte Tylaite hjá Still House í spjalli


Ef þið eruð búsett í eða á leiðinni til New York þá gæti það verið góð hugmynd að rölta um East Village hverfið og kíkja í hönnunarbúðina Still House, sem er í eigu skartgripahönnuðarins Urte Tylaite. Hún fæddist í Litháen en flutti til New York þegar hún var 18 ára og lærði í Pratt. Í búðinni er að finna fallega handgerða muni frá hinum og þessum hönnuðum og listafólki - til dæmis keramik, glervörur, skartgripi og bréfsefni - og hennar eigin skartgripalínu. Urte var svo væn að samþykkja stutt viðtal fyrir náttúruleg efni bloggseríuna mína og að sjálfsögðu spurði ég hana hvað væri að finna í kaffibollanum hennar!


Hvað varð til þess að stelpa fædd í Litháen endaði sem hönnuður í New York?
Fjölskylda mín flutti til Bandaríkjanna þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla. Þó svo ég talaði varla ensku þá var ég staðráðin í að fara beinustu leið í háskóla. Upprunalega, þegar ég bjó enn í Litháen, ætlaði ég að verða lögfræðingur, jafnvel pólitíkus, en með enga ensku virtist það vera tímasóun. Í staðinn valdi ég listaskóla. Í mörg ár hafði ég sótt listanámskeið og hafði sett saman möppu þrátt fyrir að hafa aldrei hugsað mér að starfa við list. Þannig endaði ég í Pratt þar sem ég nam listmálun. Foreldrar mínir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun.

Að námi loknu reyndi ég að fá vinnu í listaheiminum en það virtist ekki henta mér. Til að ná endum saman starfaði ég fyrir nokkra skartgripahönnuði í Brooklyn og féll fyrir iðninni. Ég vann eins mikið og ég gat til þess að læra allt um geirann og heildsöluna og á kvöldin sótti ég tíma í skartgripahönnun. Það kom að því að vinnan var ekki að kenna mér neitt nýtt. Ég var tilbúin fyrir nýjar áskoranir. Ég sá tvær leiðir, annaðhvort að fá vinnu hjá mun stærra fyrirtæki eða að fara út í minn eigin rekstur. Það síðarnefnda átti betur við mig.


Hvað var þér efst í huga, hverjir voru draumar þínir, þegar þú útskrifaðist frá Pratt?
Það er skrýtið að viðurkenna það, en ég hafði ekki skýra sýn á það sem ég vildi gera. Hugmyndir mínar voru meira almenns eðlis. Ég vissi að ég var tilbúinn að leggja hart að mér. Ég vildi líka finna fyrir ástríðu gagnvart vinnunni og virklega njóta hennar, og starfa með fólki sem mér líkaði við og dáði. Ég var bara í leit að spennu og gleðilegum augnablikum því í slíkum aðstæðum fékk ég alltaf nýjar hugmyndir. Ein hugmynd leiddi til annarrar og hér er ég í dag - eigandi búðar og skartgripahönnuður.

Hvaða 3 lykilorð myndirðu nota til að lýsa hönnun þinni?
Lítt áberandi, einföld, tímalaus.


Af hverju að opna búð, Still House, í East Village?
Ég var alltaf svo hrifin af East Village. Ég endaði í þessu hverfi á mínum fyrstu dögum í New York og það togaði strax í mig. Þetta er frábært hverfi til að fara út á kvöldin, en ég naut þess alltaf að koma aftur að degi til og rölta um. Og ég hafði alltaf ástæðu til að koma aftur. Ég þjónaði til borðs á veitingastað hér rétt hjá þegar ég var í skóla, ég var að hitta strák sem bjó í hverfinu, og nokkrir af mínum bestu vinum bjuggu hér. Þegar ég byrjaði að leita að húsnæði fyrir búð þá sjálfkrafa spurðist ég fyrir um rými í East Village því það var hverfið sem ég þekkti best.



Hvað er eiginlega með þig og grjót og steina?
Undarlega er það ástríða sem ég þróaði með mér á fullorðinsárum. Ég vann fyrir skartgripulínu Swallow í Brooklyn. Þau eru með úrval af fallegum hálsmenum með gimsteinum. Ég lagði nöfnin á minnið til þess að vita hvað ég væri að selja. Þegar ég byrjaði að hanna mína eigin skartgripi þá sótti ég sölusýningar með steinum og perlum, og uppgötvaði söluaðila sem buðu einnig upp á náttúrulega steina og grjót og ég féll kylliflöt fyrir þessu. Fyrir mér er þetta áminning um hversu heillandi, fallegur og dularfullur þessi heimur er. Ég elska litina, sem geta komið á óvart, og formin. Grjót og steinar eru munir sem vekja eftirtekt og viðskiptavinir mínir eru einstaklega hrifnir af því að skreyta heimili sín með þeim.

Geturðu nefnt hönnuði sem hafa haft áhrif á verk þín og af hverju?
Ég verð að segja að það er aðallega fólk sem veitir mér innblástur, ekki endilega verk þess. Þetta er ástæða þess að ég elska New York svo mikið. Við erum stöðugt umkringd ástríðufullu og sterku fólki sem elskar lífið.


Hvert ferðu til að sækja innblástur?
Ég tek frídag og slaka á. Nýju munirnir í Still House skartgripalínunni urðu til þar sem ég lá á ströndinni á Long Island fyrir nokkrum helgum síðan. Flestar hugmyndirnar að megin vörulínu minni urðu til í göngutúrum norðar í New York-fylki. Hönnun mín er ekki innblásin af náttúrunni, en ég er það. Þegar ég er úti í náttúrunni fyllist hugurinn af nýjum og ferskum hugmyndum. Strax eftir frídaga reyni ég alltaf að eyða nokkrum dögum á vinnustofunni til þess að vinna úr þessum hugmyndum.

Urte, drekkurðu kaffi, og ef já, hvað er í kaffibollanum þínum?
Ó já! Ég byrja hvern morgun á sterku uppáhelltu kaffi með smá mjólk út í. Og ég fæ mér meira kaffi þegar ég nálgast búðina mína. Við erum svo heppin að það er fullt af kaffihúsum í East Village. Abraco er langbesta kaffihúsið. Ég mæli með að þið kíkið þangað næst þegar þið eruð í grenndinni.


Still House búðin er staðsett á 117 East 7th street. Ef þið komist ekki til New York til að kíkja í búðina þá er engin ástæða að örvænta því það er líka netverslun.


myndir:
Urte Tylaite + Still House

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Georgia O'Keeffe innblásið borðhald



Fyrir ykkur sem lesið ensku útgáfu bloggsins þá ætti þessi póstur ekki að koma á óvart. Í fyrradag deildi ég tískuþætti innblásnum af Georgia O'Keeffe og í dag innliti í hús listakonunnar í Abiquiu í New Mexico, en því hefur verið haldið við síðan hún lést árið 1986. Mig langaði til að vera með eitthvað tengt Georgia O'Keeffe á íslenska blogginu líka og mundi þá eftir myndaþættinum „South by Southwest“ sem birtist í tímaritinu Gourmet fyrir nokkrum árum síðan. Stílisering var í höndum Ruth Cousineau og ljósmyndarinn Mikkel Vang festi herlegheitin á filmu. Hrái stíllinn og hlutlausu tónarnir í bland við þá bláu eru mér að skapi. Hauskúpur dýrana gætu ekki verið meira O'Keeffe. Þær voru innblástur að mörgum verka hennar, en hún safnaði þeim ásamt beinum og steinum í göngutúrum sínum í stórbrotinni náttúru New Mexico.


myndir:
Mikkel Vang fyrir Gourmet | stílisering: Ruth Cousineau af blogginu One Part Gypsy