miðvikudagur, 19. mars 2014

Hönnuðurinn Lotta Jansdotter í spjalli


Það er komið að fyrsta viðtalinu í náttúruleg efni seríunni á blogginu, spjall við sænska hönnuðinn Lotta Jansdotter sem er búsett í Brooklyn. Í fullkomnum heimi hefði ég kíkt í heimsókn á vinnustofu hennar í Gowanus-hverfinu og svo setið með henni á kaffihúsi þar sem við hefðum rætt um hönnun hennar og hvernig það að alast upp í Svíþjóð hefur mótað hönnunina. En Atlantshafið aðskilur okkur og auk þess er Lotta mjög upptekin. Í staðinn sendi hún mér form með tilbúnum spurningum og svörum og þar var að finna allt sem mig langaði að fá svör við, fyrir utan eina spurningu, þá síðustu sem hún að sjálfsögðu sendi mér svar við.



Rætur hennar eru skandinavískar. Hún fæddist á Álandseyjum (á milli Svíþjóðar og Finnlands) og hún var alin upp í Stokkhólmi. Öllum sumrum eyddi hún með föður sínum og ömmu á Álandi. Að dvelja þar er í hennar huga næring fyrir sálina. Hún er höfundur bókarinnar Lotta Jansdotter's Handmade Living: A Fresh Take on Scandinavian Style og annarra bóka. Hún er sjálflærð, aðallega með tilraunum og mistökum. Þannig nam hún iðnina.

Við skulum kynnast henni betur!

Hver er sagan á bak við þinn listræna feril og þann sess sem þú hefur skapað þér?
Mér hefur alltaf þótt gaman að teikna. Sem krakki elskaði ég að teikna blóm og mynstur og það hefur fylgt mér allar götur síðan. Ég var 20 ára þegar ég flutti frá Svíþjóð til Bandaríkjanna í leit að því sem ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég sótti alls kyns kúrsa í tómstundaskólum í Kaliforníu: skartgripahönnun, skúlptúr, teikningu, keramik og silkiprentun ... ég ELSKAÐI silkiprentun. Ég ákvað að hætta í skóla og stofna mitt eigið fyrirtæki, sem ég gerði árið 1996. Ég prentaði myndirnar sem ég teiknaði og mótífin á lín og bjó til púða og töskur sem seldust í Ameríku og Japan. Stíll minn var einfaldur, stílhreinn og mjög innblásinn af náttúrunni og sumrunum sem ég eyddi sem barn í skandinavískri náttúru.


Ég elskaði að teikna og klippa pappír, að nota blek og gúmmísement og penna ... og lærði aldrei að nota tölvuforrit fyrir þessa list ... þannig að mitt mjög svo lífræna ferli þróaðist með þeim hætti að ég hannaði aldrei neitt í tölvu, það sem ég skapaði var ójafnt, svolítið „wabi sabi“-legt ... ófullkomlega fullkomið. Slíkan stíl var ekki að finna á ameríska gjafa/innanhússmarkaðnum á þeim tíma ... og þannig byrjaði þetta allt.

Hvernig lýsirðu hönnunarferli þínu?
Ég teikna svo til alla mína hönnun í teikniblokkir eða á lausablöð, umslög o.s.frv. Ég nota venjulegan gamlan penna (aldrei blýant - þoli þá ekki - línurnar þurfa að vera stöðugar, þykkar og sterkar) eða blek. Ég nota svo ljósritunarvél til að leika mér með stærðir og endurtekningar. Ég kann ekki að nota tölvu og vil heldur ekki nota hana. Ég elska að meðhöndla, að klippa, líma og festa - að snerta pappírinn og verða aðeins klístruð á fingrunum. Ferlið er mjög skemmtilegt.



Því miður er ég oftast svo upptekin við reksturinn að ég á erfitt með að finna tíma til að teikna og skapa. En til allrar lukku þá tel ég það skapandi ferli að vera með sinn eigin rekstur, það er bara öðruvísi sköpunarferli.

Er eitthvað í hönnunarferlinu í uppáhaldi?
Ég elska þá tilfinningu þegar ég dett niður á góða hönnun. Ég teikna og rissa alls kyns hluti og svo allt í einu er ég komin með mótíf sem einhvern veginn er hið rétta. Það gerir mig spennta og ég veit að það mun koma vel út. Það er næstum því eins og að leita að fjársjóði í manns eigin listræna heila. Stundum hefur maður ekki hugmynd um hver útkoman verður. Það hljómar abstrakt, ég veit - það getur verið erfitt að lýsa ferlinu.

Ánægjulegasti hlutinn?
Ég elska að snerta og finna pappírinn, að klippa og leika mér með mynstrin, að fá lím á fingurna. Það er þessi áþreifanlega upplifun sem mér finnst svo mikilvæg þegar ég er að skapa; að finna hlutina sem ég skapa með höndunum, sem er ástæða þess að ég nota ekki tölvu fyrir prenthönnun mína.


Hvaða hlutverki gegna litir í hönnuninni?
Þeir eru undirstöðuatriði í hönnun minni. Mjög mikilvægir. Ég hanna allt í svörtu og hvítu og svo geri ég tilraunir með mismunandi liti. Hönnunin verður mjög ólík með notkun mismunandi lita. Að finna „rétta“ litinn skiptir sköpum - það er það sem gefur hönnuninni tóninn.

Hvað heldurðu að það sé við stíl þinn sem laðar að viðskiptavini?
Fólk skrifar mér og segir að hönnun mín veiti þeim innblástur, sem gerir mig glaða - það er ótrúlega gefandi fyrir hönnuð að veita öðrum innblástur. Því finnst hönnunin róandi (þann hluta skil ég ekki því ég lít ekki á mig sem róandi manneskju), hrein og einföld. Stíll minn er ekki drifinn áfram af tískustraumum. Hann er tímalaus. Ég held að fólk kunni að meta einfalda og náttúrlega eiginleikann. Hönnunin er ekki flókin eða íburðarmikil.


Hvaða þættir stuðla að því að hönnuður nýtur velgengni?
Þrautseigja og að hafa háan staðal þegar kemur að gæðum og frumleika. Að þora að fylgja innri sannfæringu sinni. „Að hafa háls til að stara út í tómið“ og smá lukku. Ég held að ég sé aðallega að tala fyrir sjálfa mig.

Hvað veitir þér innblástur?
Fólk, matur, staðir, ferðalög, götuskilti, tímarit, almenningsgarðar, búðargluggar, bátsferðir í Eystrasaltinu, göngutúrinn í vinnuna ... þetta hljómar klisjukennt, einfaldlega allir staðir og allt. Mynstur og mótíf eru allt um kring. Ég þarf bara að hafa augun opin og draga þau til mín. Ég á það til að nóta hjá mér fleiri hugmyndir á ferðalögum. Þá er ég afslappaðri og ekki upptekin af hlutum sem þarf að sinna dags daglega.


Hverjar eru þínar hetjur á sviði hönnunar? Einhver (lífs eða liðinn) sem sérstaklega fyllir þig innblæstri?
Ég myndi vilja eiga eins skapandi og afkastamikinn feril og Stig Lindberg átti (sænskur hönnuður). Josef Frank var ansi merkilegur. Hönnun Lucienne Day var dásamleg og veitti innblástur ... sannarlega goð á sviði hönnunar. Marimekko hefur framleitt svo mörg falleg mynstur. Ég ólst upp við þau - mamma skreytti íbúðina og sig sjálfa með Marimekko. Mér líkar sérstaklega við hönnun Annika Rimala fyrir Marimekko. Japanski hönnuðurinn Minä Perhonen er frábær. Allt sem hann gerir! Ég er einnig hrifin af hönnun Maison Georgette - það er hamingja og leikur í henni.

[Tenglar valdir af mér.]



Hvers kyns tól og verkfæri notarðu?
Svarti penninn minn er mikilvægasta verkfærið. Ég er mjög vandlát þegar kemur að flæði bleksins og þykkt pennans o.s.frv., en pennarnir þurfa ekki að kosta mikið. Ég fæ þá í flestum skrifstofuvöruverslunum ... Ég elska að kaupa kassa af pennum! Japanskir kúlupennar eru bestir. Ég nota líka indverskt blek með penslum og svo eru það vatnslitirnir mínir.

Og að lokum spurningin sem ég var forvitin að fá svar við:

Lotta, hvað er í kaffibollanum þínum?
Ég drekk kaffi á þrjá vegu, veltur bara á því hvar ég er stödd: Heima hjá mér með geitamjólk. Á kaffihúsinu í nágrenni vinnustofunnar með mjólk og rjóma til helminga til að gera vel við sjálfa mig. Í Svíþjóð með sojamjólk.



myndir:
Lotta Jansdotter vefsíða + vefverslunPinterest-síða

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.