Sýnir færslur með efnisorðinu veggir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu veggir. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 27. apríl 2016

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar · Lísa Stefan


Ég veit ekki með ykkur en ég fæ gjarnan síður úr tímaritum á heilann og get skoðað þær aftur og aftur. Þessi er ein þeirra. Svefnherbergið er í eigu hönnuðarins Stefano Guidotti, á heimili hans við Lake Como-vatnið á Ítalíu, sem var til umfjöllunar í aprílhefti Elle Decoration UK (Como in Colour, bls. 160-169, ljósmyndari Mads Mogensen). Hann segist vera heltekin af litum og þegar hann var að innrétta heimilið þá hugsaði hann upprunalegu mynsturflísarnar sem risastórar mottur. Fjólubláu tónarnir í svefnherberginu eru fallegir, rétt eins og safnið sem hann á af skrautmunum fyrir heimilið. Ef þið komist yfir tölublaðið þá skuluð þið kíkja á leðursófann í stofunni og litinn á borðstofunni. Þetta innlit veitir innblástur!

mynd smellt af Elle Decoration UK, apríl 2016, bls. 167

miðvikudagur, 2. mars 2016

Casa No Name - hús Deborah Turbeville

Casa No Name - hús Deborah Turbeville · Lísa Stefan


Á föstudaginn lofaði ég að birta síðar nokkrar myndir sem ég smellti af innliti í hús í Mexíkó. Umfjöllunin, sem kallast Destination unknown, birtist í desembertöluhefti 2015 af The World of Interiors (ljósmyndari Ricardo Labougle). Húsið átti Deborah Turbeville heitin (1932-2013), en hún var þekktur tískuljósmyndari og lifði eins konar hirðingjalífi. Hún skírði húsið Casa No Name, en það er staðsett í hinni sögulegu borg San Miguel de Allende í mexíkóska ríkinu Guanajuato. Þegar Turbeville keypti húsið var það í hræðilegu ásigkomulagi, en ef þið þekkið til verka hennar þá skiljið þið út af hverju það heillaði hana. Vinur hennar sem hafði umsjón með framkvæmdunum, sem tóku tvö ár, sagði vinnumönnunum að gera þetta ekki of fullkomið, „Senjorídan vill hafa það þannig“ (bls. 190). Það er ekkert eitt sem dregur mig að húsinu heldur er það mikilfengleikinn sem hrífur mig; glæsilegt safn af mynstruðum textíl, litir, gifsveggir, þakverönd . . . þetta er það sem meint er þegar talað er um að gera hús að heimili.


Árið 2009 kom út á vegum Rizzoli bókin Casa No Name eftir Turbeville sjálfa. Ég hef séð nokkrar myndir úr henni og hún er ekki allra. Við skulum bara orða það þannig að hún sé öðruvísi bók um innanhússhönnun og innihaldi margar hreyfðar myndir. Eldheitir Turbeville-aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum.

Ég fann stutt viðtal við Turbeville á YouTube, sem var tekið í húsinu hennar Casa No Name þegar Toast var að ljósmynda þar línuna sína fyrir vor/sumar 2010.


Fyrir alla sem hafa áhuga á tískuljósmyndun get ég mælt með bókinni Deborah Turbeville: The Fashion Pictures. Hún er einnig gefin út af Rizzoli og í henni er að finna hinar frægu en umdeildu baðhúsmyndir sem hneyksluðu margar þegar þær birtust í Vogue árið 1975.
Casa No Name í tímaritinu The World of Interiors · Lísa Stefan


myndir teknar af síðum The World of Interiors, des. 2015, Destination unknown, bls. 182-191

mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag

fimmtudagur, 19. júní 2014

Innlit: gistihús á grísku eyjunni Íþöku



Ljósmyndararnir og hjónin Gerda Genis and Robbert Koene, bæði frá Suður-Afríku, létu drauminn rætast, keyptu gamalt hús í niðurníðslu á grísku eyjunni Íþöku, nánar tiltekið í sveitum Lahos, og gerðu það upp sem gisthús með svefnaðstöðu fyrir átta manns. Eins og sjá má á myndunum kusu þau náttúruleg efni og hráan stíl, steypu og stein í bland við viðarbita. Mér finnst hvítu gluggarnir, hurðirnar og loftin skapa skemmtilegt mótvægi og gefa húsinu léttleika. Eins og sjá má á myndunum sem birtust í Est Magazine er aðstaðan utandyra öll hin glæsilegasta í einfaldleika sínum.


Ég veit ekki með ykkur en ég væri nú alveg til í að eyða eins og einni viku eða svo á þessum stað.


myndir:
Robbert Koene af síðunni Est Magazine

þriðjudagur, 25. febrúar 2014

miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Rýmið 52



Ég vildi að ég gæti sagt ykkur nánar frá þessu baðherbergi en því miður veit ég ekkert um það nema það litla sem birtist í myndatextanum. Mig langar í þessa þykku eikarplötu!

mynd:
Elle Decor Italia, apríl 2011 af Tumblr

mánudagur, 6. janúar 2014

Innlit: norskur fjallakofi í Geilo



Þessi póstur er tileinkaður þolinmóða eiginmanninum sem uppbót fyrir þær stundir sem ég er upptekin að sækja mér innblástur á netinu og veiti honum litla athygli. Norskir fjallakofar höfða sterkt til hans og þegar við bjuggum á Íslandi þá keypti hann oft eitthvað norskt fjallakofatímarit. Timbrið og handverkið heillaði hann. Þessi tiltekni kofi er í Geilo, sem er þekkt úitvistarsvæði í Noregi með skíðavæðum (liggur svo til mitt á milli Osló og Bergen ef maður lítur aðeins norðar á kortið), og eins og sést er búið að taka hann allan í gegn. Án þess að vilja hljóma neikvæð þá er ég persónulega ekki hrifin af skrautmáluðum við en norskara gerist það varla. Mér finnst annars antíkgræni liturinn í leskróknum afskaplega fallegur og hlýlegur.


myndir:
Anette Nordstrøm fyrir Interiør Magasinet