þriðjudagur, 24. janúar 2017

Brauðbollur | Tómatsúpa með næpum og steinselju

Brauðbollur með sesamfræjum (vegan) · Lísa Hjalt


Matarmiklar súpur og heimagerðar brauðbollur halda mér gangandi þessa dagana þegar í huganum mig langar eina helst að flýja til annarrar plánetu. Í alvöru, ég held að þetta Trump-hugmyndafræði-tímabil sem við erum stigin inn í sé að hafa neikvæðari áhrif á mig en ég bjóst við. Tilhugsunin um fjögur ár af „öðrum mögulegum staðreyndum“ er allt annað en upplífgandi. Veit ekki hvar ég væri án bóka; í viðleitni minni til að forðast fréttir er ég byrjuð að hlusta á hlaðvörp um bækur frá árinu 2012! Lít á það sem þerapíu. Einnig það að eyða gæðastundum í eldhúsinu. Ljósmynd af brauðbollum sem ég birti á Instagram á sunnudaginn var kveikjan að þessari bloggfærslu. Tvær manneskjur báðu um uppskriftina og ég ákvað að baka þær aftur og deila á blogginu ásamt annarri uppskrift að tómatsúpu með næpum og steinselju.

Uppskriftin að brauðbollunum er í raun brauðuppskrift (án fræja) sem er prentuð á umbúðir af fljótvirku geri frá Doves Farm (e. quick yeast). Það þarf ekki að virkja það heldur er því bara blandað saman við mjölið á undan vökvanum. Sesamfræin eru mín viðbót og oftast strái ég þeim og birkifræjum (e. poppy seeds) yfir bollurnar. Í upprunalegu uppskriftinni er hefðbundið hveiti en þegar ég baka bollurnar kýs ég að skipta út 60 grömmum (¼ bolli) af fínmöluðu fyrir grófmalað spelti, rétt til að auka trefjarnar.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

500 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
1 teskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið Doves Farm fljótvirkt ger
1 matskeið sesamfræ
275-300 ml heitt vatn
1 matskeið kókosolía (eða önnur jurtaolía)
má sleppa: mjólk/sojamjólk til að pensla bollurnar
og sesam- og birkifræ til að strá yfir

Blandið saman mjöli, salti, sykri, fljótvirku geri og sesamfræjum í stórri skál með sleif.

Blandið heitu vatni saman við, byrjið með 275 ml, og bætið olíunni saman við þegar deigið fer að festast saman (ef þið notið kókosolíu látið þá krukkuna standa í heitu vatni fyrir notkun; í upprunalegu uppskriftinni er 1 teskeið af olíu). Bætið 1-2 matskeiðum af vatni saman við ef þörf er á.

Stráið örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 4-5 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið viskustykki yfir. Látið deigið hefast á hlýjum stað í alla vega 35 mínútur.

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið með mjólk/sojamjólk og stráið sesam- og birkifræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.

Recipe in English
Tómatsúpa með næpum og steinselju · Lísa Hjalt


Bragð súpunnar skrifast að hluta á tvö yngstu börnin. Það var á köldum degi sem okkur langaði í súpu með næpum, selleríi og linsubaunum. Við elskum rófur og næpur (þessar hvítu eða gulleitu með fjólubláum blæ); þær gefa trefjar, B6- og C-vítamín til að nefna einhver heilsubætandi áhrif. Við kíktum á netið og fundum uppskrift að rauðri linsubaunasúpu með næpum og steinselju á vefsíðu Martha Stewart, sem við notuðum sem innblástur. Megin munurinn er sá að við notum mun minna af linsum í okkar og við völdum niðursoðna plómutómata í stað hrárra tómata. Þessi hefur oft mallað í pottinum á köldum dögum í janúar.

TÓMATSÚPA MEÐ NÆPUM OG STEINSELJU

1 matskeið létt ólífuolía
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 sellerístilkar
1 næpa
1 dós (400 g) plómutómatar
1250 ml vatn
60 g / 75 ml rauðar linsubaunir
klípa broddkúmen (ground cumin)
klípa reykt paprika
1 lítið lárviðarlauf
½-1 teskeið gróft sjávar/Himalaya salt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk
1 teskeið Modena balsamedik
75 ml fínsöxuð fersk flatblaða steinselja

Byrjið á grænmetinu. Afhýðið og saxið laukinn. Sneiðið selleríið fínt. Afhýðið hvítlauksrifin, sneiðið eitt fínt og pressið hin tvö þegar þau eiga að fara í pottinn. Afhýðið næpuna, skerið í bita og setjið til hliðar.

Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið lauk, sellerí og hvítlauk í 5 mínútur eða þar til mjúkt og hrærið rólega á meðan.

Stillið á hæsta hita og bætið plómutómötum ásamt vökva, rauðum linsum (skolið fyrst), næpubitum og vatni út í. Hitið að suðu, minnkið hitann, bætið ½ teskeið af salti út í og lófafylli af saxaðri steinselju og svörtum pipar. Eldið við vægan hita í 25 mínútur.

Undir lokin skuluð þið hræra út í pottinn balsamedikinu, restinni af steinseljunni og salta örlítið meira ef þarf. Til að gera matarstundina enn notalegri berið þá súpuna fram með heimabökuðu brauði eða brauðbollum.

Recipe in English

Nýleg mynd á Instagram sem var kveikjan að þessari bloggfærsluEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.