fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Innlit: klassískt og hlýlegt heimili í Las VegasFyrir nokkrum árum ákváðu eldri hjón í Las Vegas að byggja sér nýtt heimili eftir að börnin voru farin að heiman. Þau höfðu ferðast töluvert um Ítalíu og vildu eignast hús sem minnti á ítalska villu en hefði auk þess þann hlýleika sem einkennir sveitasetur í Toscana héraði. Þau sneru sér til arkitektsins William Hablinski sem teiknaði fyrir þau húsið og um innanhússhönnun sáu Alexandra og Michael Misczynski, sem reka saman fyrirtækið Atelier AM (þið munið kannski eftir færslu minni um nýútkomna bók þeirra hjóna). Eins og sjá má á myndunum einkenna fallegir antíkmunir heimilið en það var belgíski antíksalinn Axel Vervoordt sem sá um að útvega þá. Þess má geta að málverkið á myndinni hér að ofan er eftir Willem de Kooning og í öðru herbergi er til dæmis að finna verk eftir Marc Chagall.

Það var árið 2009 þegar húsið var enn óklárað að eiginmaðurinn féll skyndilega frá. Framkvæmdir voru stöðvaðar og óljóst var með framhaldið. Það voru börnin sem síðar hvöttu móður sína til þess að klára húsið. Í fyrra flutti hún inn og Michael Misczynski lýsir því sem tilfinningaþrunginni stund. Þetta hafði jú verið draumahús þeirra hjóna og hann bætir við að andi eiginmannsins svífi yfir vötnum. Til að gera langa sögu stutta þá er konan alsæl með að hafa látið klára verkið. Húsið hefur fært henni mikla gleði og börnin og þeirra fjölskyldur eru tíðir gestir enda nóg pláss.Smellið á tengilinn hér að neðan til þess að sjá fleiri myndir.

myndir:
Pieter Estersohn fyrir Architectural Digest, september 2012

1 ummæli:

  1. Svo ótrúlegt að ímynda sér að húsið sé í Las Vegas!

    SvaraEyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.