Sýnir færslur með efnisorðinu skrif. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skrif. Sýna allar færslur

laugardagur, 6. maí 2023

The Writing School · Miranda France

Bókarkápan af The Writing School. Höfundur: Miranda France (Corsair)


Í gær hlustaði ég á nýjasta þátt TLS hlaðvarpsins og meðal gesta var Miranda France að tala um nýjustu bók sína, The Writing School, sem kom út í vikunni hjá Corsair. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hana en var forvitin og bætti bókinni á óskalistann eftir að hafa lesið þessar línur í samantekt forlagsins: „Dásamleg og óvenjuleg blanda frásagnarlistar og endurminninga, ... The Writing School er áhrifamikil og oft mjög fyndin bók um hvers vegna fólk skrifar, auk þess að vera einstaklega rausnarlegt meistaranámskeið í ritlist.“

The Writing School
Höf. Miranda France
Innbundin, 224 blaðsíður
ISBN: 9781472157348
Corsair



fimmtudagur, 2. ágúst 2018

№ 15 bókalisti | #WITMonth

№ 15 bókalisti: Eisenberg, McPhee, McEwan · Lísa Stefan


Hitabylgja mætti á svæðið. Ég vona að hún fari að láta sig hverfa því ég get ekki lesið í þessum kæfandi hita, get ekki einbeitt mér. Hitabylgjur eru ekki fyrir fólk sem er fætt í nálægð við heimskautsbauginn. Þessa dagana eru það ís og sjónvarpsþættir sem hjálpa okkur að höndla ástandið. Bókalistinn, sem ég ætlaði að deila fyrr, hefur gengið í gegnum breytingar: Ég hef til dæmis fjarlægt tvær bækur sem ég endurlas og bókina The Human Stain eftir Philip Roth, sem nú er látinn. Roth verður að bíða því bókasafnið átti ekki eintak.

№ 15 bókalisti:
1  Enduring Love  · Ian McEwan
2  Draft No. 4  · John McPhee
3  Under the 82nd Airborne  · Deborah Eisenberg *
4  The Hare with Amber Eyes  · Edmund de Waal
5  Cheerful Weather for the Wedding  · Julia Strachey **
6  Comet in Moominland  · Tove Jansson **

* Eintakið mitt er ófáanlegt.
sömu smásögurnar.  ** Endurlestur

Ég keypti bókina eftir John McPhee í vor. Þó að vikur séu liðnar frá því ég las hana þá vildi ég hafa hana á listanum; mæla með henni fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum. Hún er ekki hefðbundin ritstílsbók með dæmum og áherslulistum heldur safn ritgerða. Prófessor McPhee notar persónulegar dæmisögur til að deila innsýn sinni í það sem hann kallar skapandi óskálduð skrif (e. creative nonfiction). Á listanum er rit eftir listamanninn Edmund de Waal sem skrifaði sögu fjölskyldu sinnar. Það var textílhönnuðurinn Lisa Fine sem mælti með bókinni hér á blogginu og það er kominn tími til að lesa eintakið sem ég keypti í Skotlandi síðasta sumar.


Ágúst er Women in Translation Month, eða mánuður tileinkaður þýddum bókum eftir konur. Á samfélagsmiðlunum gengur hann undir merkinu #WITMonth. Það var Meytal Radzinski, sem heldur úti blogginu Bibliobio, sem sýndi frumkvæði árið 2014 og kynnti hann til sögunnar. Ég hef aldrei tekið þátt, sennilega vegna þess að ég, eins og aðrir Íslendingar, hef lesið þýddar bækur eftir konur (og karla) frá því ég man eftir mér. Að lesa þýdd verk telst eðlilegt meðal lesanda sem fæðast í löndum þar sem enska er ekki móðurmálið. Ég ákvað samt að lýsa stuðningi við #WITMonth í ár með því að bæta einni bók um Múmínálfana á bókalistann: Comet in Moominland eftir finnsku skáldkonuna Tove Jansson, í enskri þýðingu eftir Elizabeth Portch. Á íslensku kallast bókin Halastjarnan og það var Steinunn S. Briem heitin sem þýddi. Steinunn var ötull þýðandi.



fimmtudagur, 1. október 2015

Virginia Woolf: Dagbækur - bindi 1

Virginia Woolf: Dagbækur - bindi 1 · Lísa Stefan


„Eitthvað áhugavert gerist á hverjum degi“ (something interesting happens every day) eru orð sem Virginia Woolf mælti, sem ég og sonurinn höfum tileinkað okkur og breytt í spurningu sem við leitumst við að svara á hverjum degi. Þetta byrjaði í sumar þegar ég las The Diary of Virginia Woolf - Volume 1: 1915-19 - hluti af Woolf- og Bloomsbury-hóps tímabilinu sem ég er að fara í gegnum. Þau má heyra undir lok stuttrar heimildarmyndar, The Mind and Times of Virginia Woolf (á 24. mínútu), í aukaefni sem er að finna á mynddisknum The Hours (2002). Einn viðmælandi er Nigel Nicolson heitinn, sonur Vitu Sackville-West, bestu vinkonu Woolf. Hann minnist Woolf í uppvexti sínum, hvernig hún átti það til að spyrja endalausra spurninga um allt sem hann hafði brallað tiltekinn dag, og þá ríku áherslu sem hún lagði á það að halda dagbók vegna þess að „eitthvað áhugavert gerist á hverjum degi.“

Fyrir þá sem nærast á spennunni sem fylgir góðri fléttu í skáldsögum hljómar það kannski ekki áhugavert að lesa dagbókarskrif með veðurlýsingum og slíku. Ég held að það krefjist töluverðs áhuga á æviskrifum almennt til að njóta slíkra rita. Í tilfelli dagbóka Woolf þá hjálpar það að vera aðdáandi verka hennar. Hugmynd mín var að enda kvöldlesturinn á því að lesa eina til tvær færslur í Bindi 1 en ég endaði alltaf á því að lesa meira. Það sem mér fannst hvað mest heillandi var hverju hún tók eftir í fari fólks og í umhverfi sínu. Þessar hárnákvæmu lýsingar eru stundum eins og ljóð, jafnvel þegar hún er bara að lýsa veðrinu eða árstíðabreytingum. Svo er það lífið á dögum Fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Happily the weather is turned cloudy; spring blotted out, but one must sacrifice spring to the war. (bls. 128 - 15. mars 1918)


Dagbók Woolf var gefin út í fimm bindum. Ritstjóri var Anne Olivier Bell (eiginkona Quentins, systursonar Woolf) sem bætti við neðanmálsgreinum með upplýsingum um fólkið og atburðina sem Woolf skrifar um. Fyrsta bindið nær yfir tímabilið 1915-1919.
My writing now delights me solely because I love writing & dont [sic], honestly, care a hang what anyone says. What seas of horror one dives through in order to pick up these pearls—however they are worth it. (bls. 20 - 16. janúar 1915)
Í febrúar 1915, eftir 6 vikna færsluskrif, endar dagbókin skyndilega þegar geðsjúkdómur Woolf gerir vart við sig að nýju, rétt fyrir útgáfu fyrstu bókar hennar, The Voyage Out, í mars 1915. Tveimur árum áður hafði hún reynt að fyrirfara sér. Vegna andlegra veikinda er þögn til ársins 1917 þegar hún byrjar aftur að skrifa stuttar færslur. Um haustið verða þær lengri en það er ekki fyrr en árið 1918 sem dagbókin fer á flug og þessi skrif verða mikilvægur hluti í lífi Woolf. Í janúar 1919 skrifar hún:
I note however that this diary writing does not count as writing, since I have just reread my years diary & am much struck by the rapid haphazard gallop at which it swings along, sometimes indeed jerking almost intolerably over the cobbles. Still if it were not written rather faster than the fastest typewriting, if I stopped & took thought, it would never be written at all; & the advantage of the method is that it sweeps up accidentally several stray matters which I should exclude if I hesitated, but which are the diamonds of the dustheap. (bls. 233-34)

Á baksíðu: Eldhúsinngangur Monk's-hússins, heimili Woolf-hjónanna í Rodmell

Í apríl 1919 skrifar Woolf langa færslu þar sem hún leiðir hugann að dagbókarskrifum sínum:
I got out this diary, & read as one always does read one's own writing, with a kind of guilty intensity. I confess that the rough & random style of it, often so ungrammatical, & crying for a word altered, afflicted me somewhat. ... But what is more to the point is my belief that the habit of writing thus for my own eye only is good practise. It loosens the ligaments. Never mind the misses & the stumbles. ... What sort of diary should I like mine to be? Something loose knit, & yet not slovenly, so elastic that it will embrace any thing, solemn, slight or beautiful that comes into my mind. I should like it to resemble some deep old desk, or capacious hold-all, in which one flings a mass of odds & ends without looking them through. (bls. 266)
Þessa stundina er ég að bíða eftir að Bindi 2: 1920-24 berist með póstinum og hlakka til að halda áfram þar sem frá var horfið. Fyrir ykkur sem hafið ekki áhuga á dagbókum, en langar að vita meira um líf Woolf, þá er fáanleg ævisagan Virginia Woolf eftir Hermione Lee, sem ég ætla að lesa þegar ég hef lesið öll fimm bindin. Lee er einn af viðmælendum fyrrnefndrar heimildarmyndar.