Sýnir færslur með efnisorðinu leikrit. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu leikrit. Sýna allar færslur

sunnudagur, 20. júní 2021

№ 27 bókalisti: Erpenbeck, Stepanova og Roth

Á № 27 bókalistanum mínum eru verk eftir Erpenbeck og Stepanova ásamt ævisögu Philips Roth · Lísa Stefan


Í bloggfærslu í apríl lofaði ég nýjum bókalista að loknum lestri á þriðja sjálfsævisögubindi Simone de Beauvoir. Það loforð sveik ég með stæl því stuttu síðar fékk ég óvænt verkefni í hendurnar. Þrátt fyrir annir hef ég haldið uppi góðri lestrarrútínu sem hefst eldsnemma á morgnana með kaffibollanum: er búin með bók Jenny Erpenbeck, vel hálfnuð með bæði Mariu Stepanovu og ævisögu Philips Roth og byrjuð að lesa allar hinar. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég að lesa Jón Kalman í fyrsta sinn. Fyrir tveimur árum setti ég The Years eftir Annie Ernaux í uppáhaldsflokkinn en nýverið gaf ég vinkonu eintak og hreinlega varð að lesa hana aftur.

№ 27 bókalisti:

1  Philip Roth: The Biography  · Blake Bailey
2  In Memory of Memory  · Maria Stepanova
3  Not a Novel: Collected Writings and Reflections  · Jenny Erpenbeck
4  The Radetzky March  · Joseph Roth
5  Heldenplatz  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Himnaríki og helvíti  · Jón Kalman Stefánsson
7  The Years  · Annie Ernaux [endurlestur]

Ensk þýðing: 2) In Memory of Memory: Sasha Dugdale; 3) Not a Novel: Kurt Beals;
4) The Radetzky March: Joachim Neugroschel; 7) The Years: Alison L. Strayer

Ef þið fylgist með bókafréttum þá hafa örlög ævisögunnar um Philip Roth varla farið fram hjá ykkur, bók sem margir biðu spenntir eftir. Í kjölfar ásakana um kynferðislega misnotkun gegn höfundinum Bailey, stöðvaði útgefandinn, W. W Norton & Company, dreifingu bókarinnar og tók hana endanlega af markaði (Bailey, sem hefur ekki verið fundinn sekur fyrir dómstólum, hefur þegar fundið nýjan útgefanda). Ég pantaði bókina fyrirfram, löngu áður en þessar fréttir bárust, og held að ég hefði keypt hana þrátt fyrir allt þar sem ég get alveg aðskilið listina frá listamanninum. Heimildaöflun er viðamikil og bókin vel skrifuð (Roth valdi Bailey sérstaklega til verksins) en ég viðurkenni að stundum kemur upp í hugann Af hverju þarf ég að vita þetta? þegar fjallað er um kynlíf Roths í smáatriðum.

Not a Novel var mín fyrsta bók eftir Erpenbeck, sem er einn af stóru rithöfundunum í Þýskalandi í dag. Þetta er ensk þýðing á óskálduðu efni eftir hana en gallinn er sá að þýðingin inniheldur einungis brot af upprunalega verkinu, Kein Roman, sem er helmingi lengra. Ég naut lestursins en stundum fannst mér efni endurtekið og í lokin upplifði ég eins konar gjá; þessi styttri útgáfa náði ekki að koma heilsteyptu verki til skila. Ég hef ég ekki lesið bókina á frummálinu en bæti úr því þegar þýskan er orðin betri.

Kápan á Philip Roth: The Biography eftir Blake Bailey (W. W. Norton) · Lísa Stefan
Kápa bókarinnar Philip Roth: The Biography eftir hinn núna-alræmda Blake Bailey

Rúm fimm ár eru liðin síðan ég deildi fyrsta bókalistanum og þar sem ég vel bækurnar vandlega þá hafa bara nokkrar valdið vonbrigðum. Á síðasta lista var safn stuttra ritgerða eftir Vivian Gornick sem ég get ekki mælt með: Unfinished Business: Notes of a Chronic Re-reader. Inngangurinn höfðaði vel til mín, og jók líklega væntingar mínar, en þegar ég las áfram þá varð það deginum ljósara að ég og Gornick erum mjög ólíkir lesendur: hún einblínir mjög á persónusköpun og virðist mjög upptekin af misheppnuðum ástarsamböndum í skáldskap. Þessi nálgun reyndi á þolinmæði mína. Í ritgerðunum opinberaðist ákveðin þversögn því Gornick er virkur femínisti og tónn skrifanna gaf mér ekki mynd af sterkri konu. Mér líkaði ein ritgerð um ítölsku skáldkonuna Nataliu Ginzburg, sem er enn á langar-að-lesa listanum mínum. Á þeim lista eru enn nokkur verk eftir Gornick en í sannleika sagt finn ég núna litla löngun til að forgangsraða þeim.

Peoníur og bókabunki á skrifborðinu mínu · Lísa Stefan


Lokunum í Austurríki vegna COVID-19 hefur loksins verið aflétt eftir stöðugar framlenginar frá síðasta hausti. Við erum enn skyldug til að nota FFP2-grímur og búum enn við takmarkanir, t.d. þarf vottorð um neikvæða skimun eða bólusetningu til að fara á kaffihús og veitingastaði. Nýverið fór ég í fyrstu bólusetninguna og fer í þá næstu eftir nokkrar vikur og mun þá loksins geta fengið mér latte hvenær sem er. Ég bið ekki um meira. Þangað til heldur lífið áfram að vera frekar lokunarlegt, eða lockdowny eins og ég kalla það á ensku.



föstudagur, 26. mars 2021

Leikskáldið Thomas Bernhard og hvíta Austurríki

Kápan af „Heldenplatz“ eftir leikskáldið Thomas Bernhard · Lísa Stefan


Þið sem fylgist með bókauppfærslum mínum á Instagram (@lisastefanat) vitið að í flestum tilfellum skrifa ég ekki langan texta, auk þess sem ég hvorki afrita hann né deili á bloggunum. Stundum nota ég sömu myndir og búið. En í gær skrifaði ég smá hugleiðingar um upplifun mína af Austurríki sem mig langar að halda til haga hér. Um leið fáið þið að kíkja á næsta bókalista en á honum verður leikritið Heldenplatz eftir austurríska rithöfundinn Thomas Bernhard, sem ég mun líklega fjalla um í Lestrarkompufærslu síðar meir. (Ég nefni heimsfaraldurinn og til útskýringar vil ég benda á að reglurnar hér hafa verið strangari en á Íslandi. Í langan tíma ríkti hér útgöngubann og varla nokkuð opið nema matvörubúðir og apótek.) Þar sem ég nota ensku á Instagram þá snaraði ég þessu yfir á íslensku og bætti einnig við nokkrum hornklofum og tenglum:

Thomas Bernhard (1931-1989) er austurrískt leikskáld og rithöfundur sem ég hef enn ekki lesið. Ég keypti hjá Suhrkamp leikrit hans Heldenplatz (1988) fyrir næsta bókalista en það skrifaði hann þegar fimmtíu ár voru liðin frá því að Austurríki var innlimað í Þýskaland Hitlers [á þýsku kallað Anschluss og átti sér stað 12. mars 1938]. Meginþema verksins er gyðingahatur.

Ég hef valið að setjast að í Austurríki og er þeirrar skoðunar að bókmenntir séu ein besta leiðin til að læra um sögu og menningu þjóðar. Þá á ég við það sem ekki finnst í sögubókum. Sá tími sem ég hef búið hér hefur einkennst af heimsfaraldri sem takmarkað hefur þann möguleika að vera á ferðinni og innan um fólk.

Þeir Austurríkismenn sem ég hef hitt eru mjög vinalegir [íslenskan á bara þetta karllæga orð yfir þjóðina, þetta á að sjálfsögðu við konur líka]. En það hefur ekki farið fram hjá mér að í tímaritum birtist Hvít þjóð [með stórum staf til áherslu]. Hvort það er með ráðum gert get ég ekki sagt til um. Ég er hvít á hörund og hef enga reynslu af kynþáttafordómum, en hef setið á biðstofum og flett austurrískum tímaritum sem sýna hina fullkomnu mynd af ríkri þjóð, fallegu landslagi og hvítu fólki. Mikið af hvítu fólki. Ég hef leitað og talið: Í einu tímariti fann ég hópmynd með einni asískri konu og litla mynd af svörtum manni í öðru. Ég velti því fyrir mér hvort fólk af austurrískum uppruna taki yfir höfuð eftir þessu.

Hvað um það, leikrit Bernhards, sem margir Austurríkismenn áttu erfitt með að kyngja, er ein leið fyrir mig að æfa þýskuna í heimsfaraldrinum. (Bloomsbury gaf það út í enskri þýðingu eftir Meredith Oakes.)

Til að bæta við hugrenningar gærdagsins þá geri ég mér grein fyrir því að Austurríkismenn að uppruna eru í meirihluta, um 80%, en ég hefði haldið að vitundarvakning hefði átt sér stað í ljósi sögunnar og með aukningu innflytjenda. Nú hef ég búið í nokkrum Evrópulöndum og kannski fór þessi hvíta ímynd fram hjá mér í tímaritum þar. Ég held samt ekki. Ég man ekki til þess að svona hvítur veruleiki hafi blasað við mér. Ég fann annars áhugaverða grein á vefsíðu The Irish Times frá árinu 2018 sem kallast Vienna is ranked world’s ‘most liveable city’, but for whom? (með undirfyrirsögninni: For some of my immigrant friends here, the welcome has been far from warm). Ástandið í Vínarborg er í brennidepli og greinarhöfundur dregur upp allt aðra mynd en hvíta, af fjölþjóðasamfélagi sem tímaritin sem ég hef flett virðast ekki reyna að höfða til.

Vorið er annars komið með sól og sautján gráðum þannig að ekki skal kvarta yfir austurrísku veðurfari.



föstudagur, 10. janúar 2020

Lestrarkompan: Whitehead, Baldwin & Brecht

Kaffi og Brecht; punktar úr lestrarkompunni · Lísa Stefan


Skólinn er byrjaður og ég er rólega að koma mér í gírinn, gef mér enn tíma til að lesa bækurnar á síðasta bókalista áður en vinnuálagið eykst og skiladagar taka yfir. Ég kláraði Year of the Monkey eftir Patti Smith, sem mér fannst aldrei almennilega komast á flug, ef hægt er að lýsa þannig æviminningum sem að hluta til fjalla um missi og hafa því einkenni depurðar. Sam Shepard heitinn birtist á síðunum sem bjargar henni. Ég er aðdáandi Patti, skrifa hennar um ekki neitt, eins og hún útskýrir í bókinni M Train, en hér vantar eitthvað. Bókin hefur fengið góðar viðtökur en lýsingar á draumum og matsölustöðum (e. diners) gerðu lítið fyrir mig. Ég vildi að hún hefði beðið og skrifað um ferð sína til Ástralíu ári síðar (á meðal margra ljósmynda í bókinni er ein sem hún tók af Uluru/Ayers Rock), en þá hefði titill bókarinnar verið annar.

En þá að lestrarkompunni, síðustu færslunni fyrir bókalista ársins 2017. Ég veit, ég veit, við erum búin að ræða þetta.

Lestrarkompan, № 13 bókalisti, 3 af 4:

The Underground Railroad eftir Colson Whitehead
Þessi skáldsaga vann bæði Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir 2017 og National Book Awards árið 2016, og var val Oprah-bókaklúbbsins sama ár. Kannski hefur þetta gert henni smá óleik því lesendur búast líklega við bókmenntalegu meistaraverki. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni, þrælahald, er hún mjög læsileg, og ég stend mig enn að því að hugsa um hana. Að hugsa um söguna sjálfa, ekki sögupersónurnar. Persónusköpunin er að mínu mati ekki sterk. Aðalsöguhetjan, Cora, hafði ekki mikil áhrif á mig en það sem stendur eftir er að saga hennar er saga of margra. Titillinn er vísun í net skipulagðra leiða til hjálpar þrælum á flótta yfir í frelsið. Whitehead notar aftur á móti töfraraunsæi og gefur þessu neti efnislegt form, sem ég hélt að truflaði mig, en gerði það ekki. Ég hef ekki lesið önnur verk eftir hann en ætla mér það svo sannarlega. Hann er góður sögumaður.

Giovanni's Room eftir James Baldwin
Ég var að vonast til að mér líkaði þessi bók meira en ég gerði. Ekki misskilja mig, hún er góð en fer ekki í uppáhaldsflokkinn. Sögupersónan Giovanni fór í taugarnar á mér (undir lokin átti hann þó samúð mína) og mér fannst ekki sannfærandi að maður eins og David félli fyrir manni eins og Giovanni. Þessi sena hefur að vísu fests í huga mér, kvöldið sem þeir hittast á bar í París 6. áratugarins:
And he took his round metal tray and moved out into the crowd. I watched him as he moved. And then I watched their faces, watching him. And then I was afraid. I knew that they were watching, had been watching both of us. They knew that they had witnessed a beginning and now they would not cease to watch until they saw the end.
Þetta var önnur bókin sem ég las eftir Baldwin (hef núna lesið fleiri) en sú fyrsta sem ég las, Another Country, er enn í mestu uppáhaldi.

Der Gute Mensch von Sezuan eftir Bertolt Brecht
Þetta leikrit var fyrsti þýski textinn sem ég las eftir að við fluttum til Þýskalands árið 2017, tilraun til að endurheimta orðaforðann (einu sinni fór ég nokkuð létt með að lesa skáldsögur á þýsku). Ég skildi ekki allt en náði merkingunni og naut lestursins. Leikritið er dæmisaga og sögusviðið er Kína. Þrír guðir koma til jarðar í leit að góðri manneskju. Vændiskonan Shen Te er sú eina sem býður þeim næturgistingu þegar þeir þurfa og í kjölfarið skiptir hún um atvinnugrein og kaupir tóbaksverslun fyrir peninga sem þeir gefa henni. Að vera góð manneskja í spilltum heimi reynist erfitt og hún býr til hliðarsjálf, frænda sinn Shui Ta, til að geta stundað viðskipti. Árið 1933 yfirgaf Brecht Þýskaland nasismans og leikritið er eitt af mörgum sem hann skrifaði í útlegðinni á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Næsta verkið hans á listanum mínum er Mutter Courage und ihre Kinder (Mutter Courage og börnin hennar).



þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London.
House & Garden UK/Greg Funnell



sunnudagur, 24. desember 2017

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð

№ 13 bókalisti | Gleðilega hátíð · Lísa Stefan


Fyrr í vikunni lofaði ég að deila stuttum bókalista - þessi er № 13 - fyrir jólin (myndina tók ég fyrir tveimur dögum þegar ég var að pakka inn gjöfum; það sem hýasinturnar hafa vaxið síðan þá!). Á þessu augnabliki er ég í kaffipásu og fletti nýjasta tölublaði, janúar 2018, The World of Interiors, sem okkar elsta kom með frá Skotlandi. Jólaeftirréttirnir eru tilbúnir og bráðum byrjum við að undirbúa máltíð kvöldsins. Það sem ég hlakka til að setjast til borðs og borða veislumat.

№ 13 bókalisti:
1  The Underground Railroad  eftir Colson Whitehead
2  Giovanni's Room  eftir James Baldwin
3  Der Gute Mensch von Sezuan  eftir Bertolt Brecht
4  Jane Eyre  eftir Charlotte Brontë

Síðasta sumar keypti ég eintak af Giovanni's Room eftir James Baldwin og hef beðið eftir rólegri stund til að hefja lesturinn. Ef síðasta bloggfærsla fór fram hjá ykkur þá er hann nýi uppáhaldshöfundurinn minn. Það er orðinn siður hjá mér á jólunum að endurlesa eitt klassískt verk og í ár valdi ég Jane Eyre. Það eru mörg ár síðan ég las hana og á jólunum í fyrra fékk ég þessa fallegu innbundnu útgáfu frá Penguin. Hún hefur starað á mig í eitt ár og ég sver það ég heyri hana stundum hvísla, Lestu mig!  Hinar tvær bækurnar hafið þið kannski þegar séð á Instagram; Whitehead var hluti af bókagjöf frá kærri vinkonu á Íslandi og leikritið eftir Brecht var fyrsta bókin sem ég keypti á þýsku eftir flutningana (ég veit ekki hvort það hafi verið þýtt á íslenku en hér er ensk útgáfa frá Bloomsbury, The Good Person of Szechwan, í þýðingu John Willett). Ég er þegar byrjuð að lesa hana, en rólega. Mjög rólega. Þetta er mín leið til að endurheimta þýska orðaforðann minn.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðar á komandi ári!



föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Stefan


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

Bókhillumynd á minni mynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam