Sýnir færslur með efnisorðinu katherine mansfield. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu katherine mansfield. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London.
House & Garden UK/Greg Funnell



föstudagur, 26. apríl 2019

№ 20 bókalisti | Lee Krasner sýning í London

№ 20 bókalisti | Sýningin Lee Krasner: Living Colour · Lísa Stefan


Ég sit undir markísu á veröndinni og anda að mér vorinu, ilmi fjólublárra og hvítra sýrena úr horni garðsins. Bókahlaðvörp spilast eitt af öðru í tölvunni. Eigum við að kíkja á verkin á bókalistanum? Í fyrra kom út í nýrri þýðingu, eftir ljóðskáldið Michael Hofmann, klassíkin Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döblin, gefin út af New York Review Books. Ég er hrifin af bókahönnun þeirra og margir titlar hafa ratað á óskalistann. Ég las aldrei gömlu þýðinguna þannig að ég hef engan samanburð. Undirheimar Berlínar eru sögusviðið, Weimar-lýðveldið upp úr 1920, og í upphafi bókar er hinn skrautlegi Franz Biberkopf að koma úr fangelsi, staðráðinn í að snúa blaðinu við. Hin bókin sem ég keypti til að setja á listann er The Years eftir Annie Ernaux, sem ég minntist á síðustu færslu. Aðrar koma úr hillum bókasafnsins.

№ 20 bókalisti:
1  The Years  · Annie Ernaux
2  Berlin Alexanderplatz  · Alfred Döblin
3  The Wife  · Meg Wolitzer
4  The Mexican Night  · Lawrence Ferlinghetti
5  The Garden Party  · Katherine Mansfield
6  It All Adds Up  · Saul Bellow
7  The Diary of Anaïs Nin 1931-1934 

Enskar þýðingar: 1) The Years: Alison L. Strayer; 2) Berlin Alexanderplatz:
Michael Hofmann

Það eru ár síðan ég las bindi af dagbókum Anaïs Nin og mér fannst eitthvað notalegt við að grípa ofan í það sem er á listanum, sem byrjar árið 1931. Ég hef lengi ætlað mér að lesa sögur eftir Katherine Mansfield en henni kynntist ég í gegnum dagbækur og bréfaskrif Virginiu Woolf. Smásögusafnið The Garden Party byrjar vel og mér líkar strax ritstíllinn. Mansfield var ekki nema 34 ára þegar hún lést og maður getur rétt ímyndað sér hverju hún hefði getað áorkað sem rithöfundur.

Listaverk: Lee Krasner, Desert Moon, 1955. LACMA. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Desert Moon, 1955

Mig langar í menningarferð til London í sumar, til að sjá sýninguna Lee Krasner: Living Colour í listagalleríi Barbican Centre, sem opnar 30. maí. Lee Krasner (1908–1984) var amerísk listakona, fædd í Brooklyn, og var brautryðjandi abstrakt expressjónisma. Í kynningarskrá segir að í „kraftmiklum verkum hennar endurspeglist andi tækifæranna í New York eftirstríðsáranna“ og að sýningin „segi sögu stórkostlegs listamanns, hvers mikilvægi hefur of oft fallið í skugga hjónabands hennar og Jackson Pollock.“

Þetta er fyrsta stórsýningin á verkum Lee Krasner í Evrópu í meira en 50 ár, skipulögð af Barbican Centre í samvinnu við listasöfnin Schirn Kunsthalle Frankfurt, Zentrum Paul Klee í Bern og Guggenheim Bilbao. Samhliða sýningunni kemur út bókin Lee Krasner: Living Colour eftir Eleanor Nairne, í útgáfu Thames & Hudson.

Í október verður hægt að njóta verka Lee Krasner hér í Þýskalandi, á safninu Schirn Kunsthalle Frankfurt.

Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni. Kasmin Gallery, NY. © 2017 The Pollock-Krasner Foundation
Listakonan Lee Krasner í vinnustofu sinni

Listaverk: Lee Krasner, Palingenesis, 1971. Kasmin Gallery, NY. © The Pollock-Krasner Foundation
Lee Krasner, Palingenesis, 1971

efsta mynd mín | Lee Krasner listaverk af vefsíðu Barbican Centre: 1) LACMA (Los Angeles County Museum of Art) 2) Kasmin Gallery, NY | Krasner í vinnustofu sinni: Kasmin Gallery af síðunni Artsy. © The Pollock-Krasner Foundation