föstudagur, 26. mars 2021

Leikskáldið Thomas Bernhard og hvíta Austurríki

Kápan af „Heldenplatz“ eftir leikskáldið Thomas Bernhard · Lísa Hjalt


Þið sem fylgist með bókauppfærslum mínum á Instagram vitið að í flestum tilfellum skrifa ég ekki langan texta, auk þess sem ég hvorki afrita hann né deili á bloggunum. Stundum nota ég sömu myndir og búið. En í gær skrifaði ég smá hugleiðingar um upplifun mína af Austurríki sem mig langar að halda til haga hér. Um leið fáið þið að kíkja á næsta bókalista en á honum verður leikritið Heldenplatz eftir austurríska rithöfundinn Thomas Bernhard, sem ég mun líklega fjalla um í Lestrarkompufærslu síðar meir. (Ég nefni heimsfaraldurinn og til útskýringar vil ég benda á að reglurnar hér hafa verið strangari en á Íslandi. Í langan tíma ríkti hér útgöngubann og varla nokkuð opið nema matvörubúðir og apótek.) Þar sem ég nota ensku á Instagram þá snaraði ég þessu yfir á íslensku og bætti einnig við nokkrum hornklofum og tenglum:

Thomas Bernhard (1931-1989) er austurrískt leikskáld og rithöfundur sem ég hef enn ekki lesið. Ég keypti leikrit hans Heldenplatz (1988), eintak frá Suhrkamp, fyrir næsta bókalista en það skrifaði hann þegar fimmtíu ár voru liðin frá því að Austurríki var innlimað í Þýskaland Hitlers [á þýsku kallað Anschluss og átti sér stað 12. mars 1938]. Meginþema verksins er gyðingahatur.

Ég hef valið að setjast að í Austurríki og er þeirrar skoðunar að bókmenntir séu ein besta leiðin til að læra um sögu og menningu þjóðar. Þá á ég við það sem ekki finnst í sögubókum. Sá tími sem ég hef búið í Austurríki hefur einkennst af heimsfaraldri sem takmarkað hefur þann möguleika að vera á ferðinni og innan um fólk.

Þeir Austurríkismenn sem ég hef hitt eru mjög vinalegir [íslenskan á bara þetta karllæga orð yfir þjóðina, þetta á að sjálfsögðu við konur líka]. En það sem hefur ekki farið fram hjá mér er að í tímaritum birtist Hvít þjóð [með stórum staf til áherslu]. Hvort það er með ráðum gert get ég ekki sagt til um. Ég er hvít á hörund og hef enga reynslu af kynþáttafordómum, en hef setið á biðstofum og flett austurrískum tímaritum sem sýna hina fullkomnu mynd af ríkri þjóð, fallegu landslagi og hvítu fólki. Mikið af hvítu fólki. Ég hef leitað og talið: Í einu tímariti fann ég hópmynd með einni asískri konu og litla mynd af svörtum manni í öðru. Ég velti því fyrir mér hvort fólk af austurrískum uppruna taki yfir höfuð eftir þessu.

Hvað um það, leikrit Bernhards, sem margir Austurríkismenn áttu erfitt með að kyngja, er ein leið fyrir mig að æfa þýskuna í heimsfaraldrinum. (Bloomsbury gaf það út í enskri þýðingu eftir Meredith Oakes.)

Til að bæta við hugrenningar gærdagsins þá geri ég mér grein fyrir því að Austurríkismenn eru í meirihluta, um 80%, en ég hefði haldið að vitundarvakning hefði átt sér stað í ljósi sögunnar og með aukningu innflytjenda. Nú hef ég búið í nokkrum Evrópulöndum og kannski fór þessi hvíta ímynd fram hjá mér í tímaritum þar. Ég held samt ekki. Ég man ekki til þess að svona hvítur veruleiki hafi blasað við mér. Ég fann annars áhugaverða grein á vefsíðu The Irish Times frá árinu 2018 sem kallast Vienna is ranked world’s ‘most liveable city’, but for whom? (með undirfyrirsögninni: For some of my immigrant friends here, the welcome has been far from warm). Ástandið í Vínarborg er í brennidepli og greinarhöfundur dregur upp allt aðra mynd en hvíta, af fjölþjóðasamfélagi sem tímaritin sem ég hef flett virðast ekki reyna að höfða til.

Vorið er annars komið með sól og sautján gráðum þannig að ekki skal kvarta yfir austurrísku veðurfari.

mynd mín, birtist á Instagram 25/03/21



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.