sunnudagur, 2. júlí 2017

№ 10 bókalisti: Modiano enduruppgötvaður

№ 10 bókalisti: Modiano, skáldsögur, latte · Lisa Hjalt


Sunnudagur, latte, bókahlaðvörp og nýr bókalisti. Þegar úti er alskýjað er tilvalið að eyða deginum með þessum hætti. Það eru níu bækur á listanum, sem sumum finnst kannski mikið, en margar þeirra eru stuttar og ég hef þegar klárað nokkrar, til dæmis aðra bókina eftir Patrick Modiano, In the Café of Lost Youth. Þessi franski rithöfundur hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2014 og er orðinn einn af mínum uppáhalds. [Uppfærsla: Ég breytti titli þessarar færslu þegar ég áttaði mig á því stuttu síðar að ég hafði lesið Modiano áður, fyrir mörgum árum síðan. Það var þessi þýska útgáfa af Villa Triste. Ég man enn eftir að hafa keypt hana í lítilli bókabúð í einni af þröngu hellulögðu götunum í Zurich. Ég þarf að lesa hana aftur; er búin að gleyma söguþræðinum.] Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að einungis ein bók eftir Modiano er til á íslensku, Svo þú villist ekki í hverfinu hérna (þýð. Sigurður Pálsson). Mörg verka hans eru fáanleg á ensku og á bókasafninu hér í bænum er úrvalið sem betur fer gott.

№ 10 bókalisti:
1  The Ballad of the Sad Café  · Carson McCullers
2  Pedigree  · Patrick Modiano
3  In the Café of Lost Youth  · Patrick Modiano
4  Invisible Cities  · Italo Calvino
5  Stoner  · John Williams
6  Point Omega  · Don DeLillo
7  Jigsaw: An Unsentimental Education  · Sybille Bedford
8  The Captain's Daughter  · Alexander Pushkin
9  Dancing in the Dark: My Struggle 4  · Karl Ove Knausgård

Það var kominn tími til að halda áfram með My Struggle bækur Knausgård; ég var farin að sakna raddar hans. Eina bókin sem ég á í bunkanum er Jigsaw eftir Bedford, að hluta til sjálfsævisöguleg skáldsaga. Bókavinur á Instagram mælti með henni og eitthvað segir mér að ég eigi fljótlega eftir að næla mér í eintak æviminninga hennar, Quicksands.

Ég ætlaði að hafa nýjustu skáldsögu Arundhati Roy, The Ministry of Utmost Happiness, á listanum en ég er enn að bíða eftir eintakinu sem ég pantaði á bókasafninu. Hún verður á næsta lista. Í vikunni var hún gestur á bókahlaðvarpi The Guardian. Hún talaði ekki bara um bókina heldur líka um hlutverk sitt sem pólitískur aðgerðasinni í Indlandi, sem mér fannst áhugavert. Dómsmálin sem hafa verið höfðuð gegn henni eru mörg og fáránleg, en hún hefur mikla kímnigáfu og hikar ekki við að gera grín að andstæðingum sínum.

Ég hef þegar lesið allar bækurnar á japanska bókalistanum (№ 9), fyrir utan The Tale of Genji (doðranturinn undir kaffibollanum mínum). Ég sagði ykkur að ég myndi lesa hana rólega og, já, ég nýt lestursins. Ég skulda ykkur gagnrýni á tvær bækur og nokkra punkta úr lestrarkompunni (rétt áður en ég ætlaði að deila færslunni eyddi ég óvart uppkastinu að gagnrýni minni á Pachinko. Ég kunni textann nokkurn veginn utan að þannig að ég þarf bara að pikka hann aftur). Vonandi verður júlí góður lestrarmánuður.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.