föstudagur, 6. janúar 2017

Bækur og kaffi | Gleðilegt ár

Bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði síðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég hef ekki klárað verkin á síðasta bókalista en fór lesandi Louisu May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilin fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.