Sýnir færslur með efnisorðinu írskar bókmenntir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu írskar bókmenntir. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 20. ágúst 2020

Strange Flowers · Donal Ryan

Kápumynd: Strange Flowers e. Donal Ryan (Doubleday)


Ég hef beðið í rúma tvo mánuði eftir því að deila þessari bókarkápu með ykkur sem mér finnst einstaklega falleg og haustleg, en það gera litatónarnir. Strange Flowers er nýjasta skáldsaga írska rithöfundarins Donal Ryans. Enginn bannaði mér að deila kápunni fyrr; það var bara ég sem vildi bíða eftir útgáfudeginum. Sagan byrjar árið 1973 þegar hin tvítuga Moll Gladney tekur strætó að morgni dags og hverfur. Eftir fimm ár snýr hún til baka, ekki einsömul, sem breytir lífi fjölskyldu hennar að eilífu. Ég hef einungis lesið eina bók eftir Ryan og ætla að bæta úr því í framtíðinni. Mér líkar ritstíll hans. Ég hef minnst á það áður að ég er hrifin af írskum rithöfundum.
Kápumynd: Owen Gent

Strange Flowers
Höf. Donal Ryan
Innbundin, 240 blaðsíður
ISBN: 9781784163044
Doubleday



fimmtudagur, 11. júní 2020

James & Nora · Edna O'Brien

Bókarkápa: James & Nora: A Portrait of a Marriage, höf. Edna O'Brien (W&N)


Bókin James & Nora: A Portrait of a Marriage eftir írsku skáldkonuna Ednu O‘Brien kemur út í dag hjá forlaginu W&N. Bókin er endurútgáfa á stuttri sögu, sem kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1981, þar sem O‘Brien færir hjónaband írska rithöfundarins James Joyce og Noru Barnacle í skáldsögulegan búning. Tímasetning útgáfunnar er engin tilviljun, rétt fyrir Blooms-daginn þann 16. júní, sem margir aðdáendur Joyce fagna og er kenndur við sögupersónuna Leopold Bloom í verki hans Ulysses, sem gerist á þeim degi árið 1904.

Kápumynd: Nora Barnacle and James Joyce eftir listamanninn John Nolan

Edna O‘Brien hlaut hin virtu David Cohen verðlaun árið 2019, sem veitt eru breskum eða írskum rithöfundum fyrir æviframlag sitt á bókmenntasviðinu. Hennar fyrsta skáldsaga, The Country Girls, kom út árið 1960. Bókin olli hneykslan á Írlandi og var bæði bönnuð og brennd. O‘Brien hefur skrifað fjölmargar skáldsögur, smásögur, leikrit, ljóð, almenn rit og æviminningarnar sínar, Country Girl. Það kom mér á óvart að lesa að einungis tvær bækur eftir hana hafa komið út í íslenskri þýðingu: fyrsta skáldsagan, Sveitastúlkurnar, og ein barnabók.

James & Nora: A Portrait of a Marriage
Höf. Edna O'Brien
Kiljubrot, 80 blaðsíður
ISBN: 9781474616812
Weidenfeld & Nicolson