Sýnir færslur með efnisorðinu landslagsarkitektúr. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu landslagsarkitektúr. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 16. október 2014

Innlit: fyrrum textílverksmiðja í Como



Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta innlit. Ítalski arkitektinn og listamaðurinn Marco Vido endurgerði þetta ris í Como á Ítalíu en á 3. áratugnum var húsið textílverksmiðja. Ég er í einhvers konar haltu mér-slepptu mér sambandi við iðnaðarstíl því stundum finnst mér hann of kaldur og fráhrindandi. Hérna finnst mér hafa vel tekist til því það er nóg af hlýjum viði sem skapar jafnvægi. Auk þess finnst mér svörtu gluggarnir svakalega flottir.


myndir:
Nathalie Krag fyrir Interior Design, ágúst 2014

miðvikudagur, 2. apríl 2014

Innlit: Í glæstum garði ítalskrar villu



Þetta er eitt af þessum innlitum þar sem ég dvel aðallega utandyra enda garðurinn glæsilegur og auk þess eru fáar innanhússmyndir í umfjölluninni um húsið. Þessi landareign er í Piedmont á Ítalíu (í nágrenni Turin) og það var arkitektinn Paolo Pejrone, sem sérhæfir sig í landslagsarkitektúr, sem hannaði húsið og er einnig eigandi less. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessar myndir; þær segja allt sem segja þarf en mig langar að benda á að steinarnir sem mynda gangstíginn sem sést á fyrstu tveimur myndunum koma úr ánni Ticino.
Í megin forstofunni er textíll áberandi rauður: stólarnir eru bólstraðir með rauðri
og fjólublárri indverskri bómull, gluggatjöld (utandyra) eru rauð og á gólfinu
er rauð tyrknesk Smyrna-motta breidd yfir terracotta-flísar
Pejrone ræktar plöntur sínar án nokkurra óæskilegra efna eða skordýraeiturs
sem kannski útskýrir heilbrigt útlit þeirra



myndir:
Oberto Gili fyrir House & Garden af AD DesignFile

miðvikudagur, 23. október 2013

Innlit: enskt sveitasetur



Ég veit ekki í hvaða tímariti þessi umfjöllun um sveitasetrið hans John Roger birtist, en þar sem Carol Prisant skrifar greinina var það líklega World of Interiors eða House Beautiful. Roger stjórnar antíkmunadeild Sibyl Colefax & John Fowler, sem er enskt hönnunarfyrirtæki stofnað upp úr 1930. Það fyndna er að hann starfaði sem lögmaður þegar hann einn daginn gekk inn í sýningarsal þeirra í leit að skrifborði og starfsferill hann breyttist snarlega. Þið sjáið hluta af skrifborðinu hér fyrir neðan og svo getið þið séð það í horninu á myndinni úr stofunni. Mér finnst þetta sveitasetur hans heimilislegt en um leið smekklegt - ég er lítið fyrir ofhlaðinn sveitastíl. Garðhönnunin finnst mér ákaflega falleg og ekki of formleg. Ég vildi geta sagt ykkur eitthvað meira um húsið en ég fann þessar skönnuðu myndir á netinu án viðtalsins við Roger.

Á persónulegum nótum, vegna anna á næstu vikum þá verð ég í fríi frá bloggskrifum og veit ekki alveg hvenær ég sný aftur, kannski undir lok nóvember. Ég lofa smá fréttum þegar ég kem til baka. (Ef þið notið Pinterest þá er ég þar og kem til með að pinna í kaffipásum.) À bientôt!


Elizabeth Zeschin (skannaðar) af blogginu Kitchens I Have Loved

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég hafði ekki deilt á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við höfðum verið að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.
París: fyrir ári síðan við Palais Royal · Lísa Hjalt


miðvikudagur, 18. september 2013

Innlit: glæsivilla í Montecito



Þetta innlit er eilítið frábrugðið því innbúið á myndunum tilheyrir fyrrverandi eigendum hússins en nýir eigendur eru þær Ellen DeGeneres og Portia De Rossi, sem flestir ættu að þekkja. Það var arkitektinn John Saladino sem hannaði húsið sem er í Montecito í Kaliforníu og eins og sjá má þá er stíllinn eilítið hrár en samt hlýlegur.

Ég hlustaði nýverið á viðtal við De Rossi þar sem hún var spurð út í flutningana og hún svaraði að þær stöllur hefðu haft augastað á þessu húsi í mörg ár og voru því fljótar að grípa tækifærið þegar það var auglýst til sölu. Ég er viss um að fljótlega eigum við eftir að sjá innlit til þeirra í einhverju tímariti, þegar þær eru búnar að koma sér vel fyrir og gera húsið að sínu.




Susan Burns fasteignamiðlun

fimmtudagur, 25. júlí 2013

Garðhönnun: Old South-sjarmi í Charleston



Sumarið flýgur áfram og mig langar að reyna að deila öllum görðunum sem ég hef safnað í summarmöppuna mína. Í dag varð þessi Old South-sjarmi í borginni Charleston fyrir valinu, einn af þeim mörgu glæsilegu görðum sem hafa birst á síðum Traditional Home. Ég kaus að byrja færsluna á formlega garðinum, einkum vegna gamla múrsteinshússins í bakgrunni og hvítu klifurrósanna - þetta er svo fallegt. Upp við múrsteinshúsið er lítið garðhús sem sést á næstu mynd.

Húsið er í eigu Ben og Cindy Lenhardt; uppgert hús frá 1743 sem er í sögulega hverfinu í Charleston. Ben, sem er kominn á eftirlaun, var bara tíu ára gamall þegar hann plantaði fyrstu fræjunum af morgunfrú og síðan þá hefur garðyrkja verið ástríða. Hann er stjórnarformaður Garden Conservancy en hlutverk stofnunarinnar er að varðveita framúrskarandi garða. Þeir skipuleggja einnig daga þar sem almenningi gefst færi á að skoða garða í einkaeigu.


Þegar Ben hannaði garðinn var hann undir áhrifum Loutrel Briggs, frægs landslagsarkitekts í Charleston og þar í kring, sem byrjaði ferilinn í kringum 1930. Hans hugmynd var að skipta görðum niður í svæði þannig að þeir virtust stærri.

Ben er hógvær og sækist ekki eftir hrósi fyrir garðinn, en í greininni talar hann af eldmóði um garða sem lifandi list:
It’s the most difficult art form because it changes. It takes an appreciation of balance, color, and different kinds of plant materials with strong -architectural components—all of which must be coordinated with the changing seasons to create a symphony of color, beauty, and -tranquility.
Það þarf varla að snara þessu yfir á íslensku en hann er í raun að segja að þetta erfiðasta listformið því plöntur taka stöðugum breytingum og eru háðar árstíðum.


Í þessum hluta garðsins má finna vasa með blómum eins og tóbakshornum, geraníum, fjólum og rósum, sem gefa garðinum smá lit því aðallega eru hvít blóm í honum. Þarna má einnig sjá garðbekk í Lutyens-stíl.


Girðing fremri formlega garðsins er í nýlendustíl og þarna er að finna gróður eins og bergfléttu, lim (boxwood) og eitthvað sem á ensku kallast ,dwarf mondo grass' sem ég veit ekki hvað er á íslensku.

Sjáið þið steinsúluna þarna handan innkeyrslunnar? Hún fannst þegar húsið var endurgert. Á einhverjum tímapunkti stóð húsið upp við læk sem rann saman við Cooper-ána og súlan var notuð til þess að festa árabáta.

Svo sannarlega sögulegt!


Brie Williams fyrir Traditional Home

þriðjudagur, 23. október 2012

París: Place des Vosges torgið



Ég lofaði Parísarstemningu á blogginu næstu daga og ætla að byrja á Place des Vosges torgi. Ég deili svo huggulegu te- og kaffihúsi í sér færslu á eftir en það stendur rétt við torgið. Place des Vosges liggur við línuna sem skiptir 3. og 4. hverfi. Svæðið í kring kallast Le Marais eða Mýrin og það er afskaplega skemmtilegt að rölta um og skoða byggingar og mannlíf og alls kyns sætar handverksbúðir. Við röltum frá Saint Paul metróstöðinni við Rue de Rivoli götuna (líka hægt að koma frá Bastille stöðinni) þar sem borgin iðaði af lífi og héldum í austurátt. Þetta er bara smá spölur og með hverju skrefi varð allt hljóðlegra. Þegar við gengum inn í Rue de Birague þá var það næstum því eins og að stíga inn í annan heim því kyrrðin var svo notaleg. Við enda götunnar lágu bogagöngin inn á torgið en þau sjást á myndinni hér að ofan.



Ég hafði lesið mig til um torgið áður en ég fór til Parísar og saga þess, sem verður ekki sögð hér, er ansi skemmtileg. Þetta er elsta skipulagða torg Parísar og margir tala um að þarna megi upplifa hina „gömlu“ París. Hvað er til í því hef ég enga hugmynd um en torgið var blessunarlega laust við ágang ferðamanna, alla vega á þessum árstíma. Hönnun torgsins og húsanna sem umlykja það er symmetrísk þannig að það er svo til eins í hvaða átt sem litið er. Það sem mér fannst einna dásamlegast var kyrrðin.


Margir vilja meina að tíminn hafi staðið í stað á torginu og kannski er það rétt. Ég myndi kannski frekar orða það þannig að umhverfið er hreinlega laust við ys og þys. Það virðist enginn vera að stressa sig og fólk greinilega kemur þarna til þess að njóta kyrrðar. Victor karlinn Hugo bjó þarna um tíma og þar er núna safn sem við slepptum að skoða í þessari ferð.

För okkar var næst heitið í skemmtilega búð í 3. hverfi sem heitir Merci, en hún er það sem kallast 'concept store' á ensku og hvað slíkt er best að kalla á íslensku hreinlega veit ég ekki. Við fórum út af torginu við bogagöngin í hinum endanum og inn í götuna Rue du Beárn í 3. hverfi. Þar fundum við Le café chinois.

myndir:
Lísa Hjalt