Sýnir færslur með efnisorðinu uppskriftabækur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu uppskriftabækur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 22. ágúst 2021

Sicilia: A love letter to the food of Sicily · Ben Tish

Kápa bókarinnar Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish (Bloomsbury)


Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish kom út hjá Bloomsbury Publishing í júní. Bókin er stútfull af uppskriftum og ljósmyndum sem tengjast matargerð og menningu Sikileyjar. Um kápu bókarinnar þarf ekki að segja mörg orð, hún endurspeglar birtu og liti sumarsins í allri sinni dýrð. Þess má geta að fyrir tveimur árum sendi Tish frá sér bókina Moorish: Vibrant recipes from the Mediterranean, sem fjallar um menningaráhrif Norður-Afríku og Arabaheimsins á matargerð Miðjarðarhafssvæðisins.

Sicilia: A love letter to the food of Sicily
Höf. Ben Tish
Innbundin, myndskreytt, 304 blaðsíður
ISBN: 9781472982759
Bloomsbury Publishing



mánudagur, 6. júní 2016

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum (óbökuð) · Lísa Stefan


Það var heitt sumar árið 2010 og við vorum nýflutt til Antwerpen þar sem við bjuggum í tvö ár. Sonurinn átti bráðum afmæli og bað mig um að gera þessa mjúku valhnetusúkkulaðiköku með hindberjum sem ekki þarf að baka. Hann sá hana í bókinni Ani's Raw Food Desserts eftir Ani Phyo og gerði strax upp hug sinn. Mjúk kaka og Playmo og sá fimm ára var hamingjusamur. Upprunalega uppskriftin (raspberry ganache fudge cake, bls. 49) var tveggja laga með kremi og hindberjum á milli. Ég gerði hana, okkur fannst hún svakalega góð, en eftir einungis eina sneið vorum við pakksödd. Fyrir okkur var þetta of mikið magn. Ég minnkaði stærð kökunnar og mín útgáfa er einfaldur botn með kremi og berjum ofan á. Það dásamlega við gerð kökunnar er einfaldleikinn: Það þarf ekki leggja hnetur og döðlur í bleyti; öllu er blandað saman í matvinnsluvél. Kakan er svo mótuð og borin fram. Frábært á góðum sumardögum þegar mann langar í súkkulaðiköku en það er of hlýtt fyrir ofnbakstur.

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Stefan


Ein ástæða þess að ég elska þessa köku er að í henni er að finna tvennt sem er í miklu uppáhaldi: valhnetur og hindber. Valhnetur eru ríkar af ómega-3 fitusýrum (úr plöntum). Þær eru taldar vera góðar fyrir hjartað og hafa bólgueyðandi eiginleika. Ég las í matarbiblíunni Larousse Culinary Encyclopedia að forn-Grikkir og -Rómverjar hafi trúað því að valhnetur læknuðu hausverk vegna lögunar kjarnans, sem lítur út eins og tvö heilahvel (bls. 1143). Í henni las ég líka um „gyðjuna Ídu sem stakk sig á fingri þegar hún var að tína ber fyrir hinn unga Júpíter og þannig urðu hindberin rauð, sem hingað til höfðu verið hvít“ (bls. 861). Við skulum segja skilið við goðafræðina og skella í köku.
Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Stefan


Uppskriftin að þessari mjúku valhnetusúkkulaðiköku er aðlöguð úr fyrrnefndri bók eftir Ani Phyo, sem er stútfull af kræsingum sem ekki þarf að ofnbaka. Ég minnkaði bara stærð kökunnar. Uppskrift Phyo kallar á þurrkaðar valhnetur (fyrst lagðar í bleyti, svo þurrkaðar í sól eða þurrkofni) en ég nota bara valhnetur án þess gera nokkuð við þær áður. Sumir geta verið viðkvæmir fyrir koffeini og í þeim tilfellum er ágætt að nota malað karob í botninn í staðinn fyrir kakó. Upprunalega uppskriftin kallar á Medjool-döðlur, sem eru seldar mjúkar (steinlausar). Að sjálfsögðu má nota þurrkaðar döðlur í staðinn en þá þarf að leggja þær í bleyti fyrst. Upprunalega uppskriftin að kreminu inniheldur agavesíróp en ég nota hreint hlynsíróp í mitt. Kökuna má geyma í kæli í 3 daga.

MJÚK VALHNETUSÚKKULAÐIKAKA MEÐ HINDBERJUM

botn
220 g valhnetur
50 g kakó
tæp ¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
175 g Medjool-döðlur (steinlausar)

krem
60 g Medjool-döðlur (steinlausar)
40 ml hreint hlynsíróp
70 g þroskað avókadó
30 g kakó

70-100 g hindber

Botninn: Setjið valhnetur, kakó og salt í matvinnsluvél og haldið pulse-hnappnum niðri uns þetta er gróflega maukað. Passið að ofmauka ekki á þessu stigi. Bætið Medjool-döðlunum saman við og notið pulse-hnappinn þar til allt hefur blandast vel saman. Finnið áferð blöndunnar með fingurgómunum og ef hún virkar þurr aukið þá Medjool-döðlurnar um eina eða tvær. Notið hendurnar til að móta kökubotn á diski (ég kýs að hafa minn 18-19 cm).

Kremið: Setjið Medjool-döðlur og hlynsíróp í matvinnsluvél og vinnið vel þar til blandan er eins mjúk og hún getur orðið. Skerið þroskað avókadó í tvennt, fjarlægið steininn og skafið innan úr því magnið sem þarf, setjið því næst í vélina og vinnið vel þar til blandan er mjúk. Að lokum bætið þið kakóinu út í og vinnið vel uns kremið er silkimjúkt.

Dreifið kökukreminu jafnt yfir kökubotninn og skreytið með hindberjum áður en þið berið kökuna fram.

Ef notaðar eru steinlausar þurrkaðar döðlur í stað Medjool-daðla: Saxið þær fyrst og leggið í bleyti í a.m.k. 30 mínútur. Ekki hella döðluvatninu í vaskinn því þið gætuð þurft örlítið af vatninu til að ná fram réttri áferð, bæði fyrir kökubotninn og kremið (veltur á gæðum matvinnsluvélarinnar). Í stað þess að nota eingöngu valhnetur í botninn má nota helminginn af þeim og nota svo blöndu af pekanhnetum, möndlum og cashewhnetum á móti.



mánudagur, 26. október 2015

Kryddbrauð

Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Stefan


Kannski ætti ég ekki að viðurkenna það en jólaskapið kom snemma í ár. Ég skrifa það á börnin. Nýverið við kvöldverðarborðið byrjuðu þau að tala um jólahefðirnar okkar, um matinn sem við berum fram, og ég hef ekki jafnað mig. Ég er alvarlega að hugsa um að þykjast vera amerísk og halda upp á Þakkargjörðardaginn í ár bara til þess að fá kalkún og graskersböku í nóvember. Aftur að jólaskapinu mínu, sem er svo alvarlegt að ég bakaði kryddbrauð tvo daga í röð í síðustu viku, aðallega til þess að finna jólakryddilminn úr ofninum. Og í gær byrjaði ég að gera tilraunir fyrir jólabrönsj (afsakið slettuna en brönsj er bara svo gott orð) sem einhverjir hafa kannski þegar séð á Instagram.
Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Stefan


Ég hef verið frekar upptekin þennan októbermánuð en einn af hápunktunum var án efa að fá bókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu í póstinum (það glittir í hana á tveimur myndum). Þið hafið kannski tekið eftir því að bókin kom út í byrjun október og er stútfull af uppskriftum með myndum af þeim öllum. Þetta er bókin sem ég hjálpaði henni með eins og ég sagði ykkur í þessari færslu. Ég hélt að hjartað myndi springa þegar ég opnaði umslagið. Það var ansi furðuleg tilfinning að halda á bókinni og fletta síðunum: þarna voru á prenti öll skjölin sem höfðu verið á tölvuskjánum mánuðum saman! Ég ætla að deila nokkrum uppskriftum síðar og leyfa ykkur að kíkja í bókina en hana getið þið keypt á netinu og í bókaverslunum.


Uppskriftin að kryddbrauðinu, sem inniheldur kanil, engifer, múskat, negul og kakó, er ein af þessum sem ég deildi á gamla matarblogginu. Þetta er eilítið breytt útgáfa af uppskriftinni hennar (Cafe)Sigrúnar, en hún setti sína saman eftir ferð um kryddskógana á Zanzibar. Hún hefur ferðast um Afríku og verið fararstjóri og maðurinn hennar á það til að „trítla“ með fólk upp á Kilimanjaro. Sigrún notar meira magn af kryddum í sína uppskrift og eina útgáfu af hennar er einmitt að finna í bókinni góðu. Ég hef bakað kryddbrauðið í mörg ár og það er okkar þægindamatur. Stundum þegar kalt er í veðri, og bara ég og börnin erum heima, þá borðum við það í kvöldmat ásamt heitu súkkulaði. Brauðið er eitt af því fáa sem ég borða með smjöri en mér finnst það líka gott án þess. Ég baka það með spelti og blanda fín- og grófmöluðu saman. Ef það er afgangur af brauðinu þá frysti ég það í sneiðum og svo fer það bara beint í brauðristina.

KRYDDBRAUÐ

3½ dl spelti (175 g)
2½ dl haframjöl (100 g)
1¼ dl lífrænn hrásykur (110 g)
2-3 matskeiðar kakó
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið kanill
½ teskeið engifer
¼ teskeið múskat
¼ teskeið negull
250 ml mjólk/sojamjólk
2 matskeiðar hreint hlynsíróp

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál.

Hellið mjólkinni og hlynsírópinu út í og blandið rólega saman þar til ekkert þurrt mjöl er eftir á botninum. Bætið 1-3 matskeiðum af mjólk ef þið þurfið.

Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í.

Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 35-40 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjóni í miðjuna til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt. Sigrún segir að það megi alveg vera pínu blautt og klesst og mín börn eru alveg sammála henni. Ég baka því brauðið aldrei lengur en í 35 mínútur í mínum ofni.



fimmtudagur, 2. júlí 2015

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow

Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Í gær skelltum við okkur til Glasgow í Skotlandi og ég varð bálskotin í West End-hverfinu. Einhvers staðar í hjarta þessa fallega og afslappaða hverfis, þar sem má finna kaffihús og veitingastaði á svo til hverju horni, leit ég á eiginmanninn og spurði: Hvar hefur þessi borg eiginlega verið allt mitt líf? Á Byres Road númer 134 fundum við Kember & Jones delí og kaffihús og þegar ég opnaði hurðina var ég komin heim. Við fengum borð uppi með útsýni yfir aðalhæðina þar sem við heldur betur gátum notið góðs anda staðarins.

Á blogginu skrifa ég aldrei svona 'vikan mín á Instagram'-færslur (afsakið en mér finnst slíkar færslur tilgangslausar með öllu) en þegar ég tók myndavélina upp úr töskunni og ætlaði að taka myndir af West End-hverfinu til að deila á blogginu þá áttaði ég mig á því að batteríið varð eftir í hleðslutækinu heima ... ég er ekki í lagi! Sem betur fer var eiginmaðurinn með símann á sér þannig að ég tók þessar á Kember & Jones og deildi þeim á Instagram. En þetta þýðir að ég þarf að fara aftur til Glasgow.
Kember & Jones delí og kaffihús í Glasgow · Lísa Hjalt


Aftur að kaffihúsinu. Persónulega þá þoli ég ekki þegar ég panta latte og það er borið fram í stóru glasi. Ég var svo heilluð af hráum stíl og hönnun Kember & Jones í gær að ég hreinlega gleymdi að spyrja hvernig þau bæru það fram. Kaffið kom í meðalstóru, svolítið gamaldags glasi, sem fór ekkert í taugarnar á minni latte-sál. Aðalatriðið var að kaffið var gott! Ég pantaði samloku á matseðlinum þeirra með grilluðu grænmeti, hummus, spínati og harissa chilli-dressingu, með baunum og salati til hliðar, sem var gómsæt. Þegar ég hélt að þetta kaffihús gæti ekki heillað mig meira þá fann ég á borði á aðalhæðinni svo til allar uppskriftabækurnar á óskalistanum mínum (Sunday Suppers eftir Karen Mordechai og A Kitchen in France: A Year of Cooking in My Farmhouse eftir Mimi Thorisson (íslenskur eiginmaður hennar, Oddur Þórisson, tekur myndirnar), bara til að nefna einhverjar, og ég bætti á listann The River Cafe Classic Italian Cookbook eftir Rose Gray and Ruth Rogers). Þetta kaffihús er einfaldlega draumur.

Að lokum verð ég að segja að ef þið ferðist einhvern tíma til Glasgow eða millilendið þar, ekki gera þau mistök að dvelja bara í einn dag. Ég gæti eytt nokkrum dögum bara í West End-hverfinu. Í raun þá gæti ég eytt nokkrum dögum í að njóta kaffi- og veitingahúsanna og andrúmsloftsins á Byres Road eingöngu.

þriðjudagur, 12. maí 2015

Svartbaunaborgarar (vegan)

Svartbaunaborgarar (vegan) · Lísa Stefan


Ást mín á svörtum baunum þekkir engin landamæri og þessir svartbaunaborgarar fengu mig til að skipta alfarið yfir í grænmetisborgara. Ég myndi ekki segja nei við góðum borgara matreiddum úr gæða kjöti en þegar ég fæ löngun í borgara þá geri ég þessa. Þetta snýst ekki bara um bragðið heldur alla þessa dásamlegu ferskvöru á borðinu þegar ég útbý máltíðina.
Kóríander · Lísa Stefan


Ferskan kóríander vil ég helst alltaf eiga. Ég elska bragðið (nefnt „pungent“ í ensku) og upp á síðkastið stend ég mig að því að nota meiri kóríander en uppskriftir segja til um. „Cilantro“ er annað heiti yfir ferskan kóríander sem Bandaríkjamenn nota úr spænsku. Svo eru sumir sem tala um blöðin sem arabíska steinselju („parsley“) og enn aðrir sem kínverska steinselju. Ekki skrýtið að fólk verði stundum ruglað á öllum þessum heitum.

Svartbaunaborgarar (grænmeti) · Lísa Stefan


Á þessum bæ hefur þróast ákveðin svartbaunaborgarahefð. Í hvert sinn sem ég geri borgarana, sem er ansi oft, þá útbý ég sama meðlætið: Ég steiki sveppi í örlítilli léttri ólífuolíu með hvítlauk og smá salti sem notum líka í borgarana.

Talandi um sveppi. Fyrir mörgum árum síðan fór vinur minn á fyrirlestur með búddhamunki sem sagði eitthvað á þá leið að enginn ætti að borða sveppi því þeir vaxa ekki í sól. Allir hafa rétt á sínum skoðunum en þetta hafði ég um málið að segja: Enginn munkur eða heimspeki skyldi koma á milli mín og minna sveppa og frá þeirri stundu strengdi uppreisnarmaðurinn innra með mér það heit að ég skyldi borða enn meira af þeim. Það er bara þannig sem ég rúlla.
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Uppskriftin að svartbaunaborgurunum kemur frá leikkonunni Gwyneth Paltrow, en hana er að finna í bók hennar, Notes From My Kitchen Table. Ég veit að margir þola hana ekki en hún má eiga það að þessi uppskrift er góð (ég gerði bara örlitlar breytingar). Það er auðvelt að matreiða borgarana og eðal að skella í þá ef þið eigið afgang af soðnum brúnum grjónum. (Tekur annars 25-30 mínútur að sjóða þau: 30 g (ca 3 matskeiðar) = 75 g soðin).
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Ég vil borgarana steikta en ég bætti við ofnbakaðri útgáfu fyrir þá sem kjósa það frekar. Ég tvöfaldaði skammtinn af broddkúmeni í uppskriftinni og nota 2 matskeiðar af söxuðum ferskum kóríander. Ég bætti líka chilliflögum og næringargerflögum (nutritional yeast flakes), sem ég merki sem val. Ég ber borgarana fram með steiktum sveppum og hvítlauk, sem ég minntist á hér að ofan, tómötum, avókadó, salatblöðum og gæða majónesi eða heimagerðu. Það er laukur í uppskriftinni og því finnst mér óþarfi að setja hráan lauk eða rauðlauk á borgarann, en þegar ég vil aðeins sterkara bragð þá nota ég jalapeno úr krukku. Með borgaranum fæ ég mér stundum lítið glas af ísköldum bjór með nýkreistum límónusafa.

SVARTBAUNABORGARAR

1½-2 matskeiðar létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
½ teskeið broddkúmen (ground cumin)
klípa rauðar chilliflögur (má sleppa)
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
1 dós (400g) lífrænar svartar baunir
75 g soðin brún hrísgrjón
1-2 matskeiðar ferskur kóríander
1 matskeið næringargerflögur (má sleppa)
1-2 matskeiðar lífrænt mjöl (til steikingar)
2-3 matskeiðar jurtaolía (til steikingar)
4 gróf hamborgarabrauð

Sjóðið 30 g af brúnum hrísgrjónum áður en byrjað er á borgurunum. Setjið svörtu baunirnar í sigti og skolið af þeim. Setjið til hliðar.

Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt. Hitið ólífuolíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, broddkúmen og chilliflögur (ef notaðar) í 5-7 mínútur við lágan-meðalhita.

Bætið salti, pipar, svörtum baunum og grjónum á pönnuna, steikið í 2 mínútur og hrærið á meðan.

Saxið ferskan kóríander smátt og bætið á pönnuna ásamt næringageri (ef notað) og hrærið saman við. Takið pönnuna af hellunni.

Notið kartöflustöppu til að stappa blönduna án þess að mauka hana alveg. Hún má halda smá grófleika. Leyfið henni að kólna þar til auðvelt er að meðhöndla hana og mótið þá 4 borgara (á þessum punkti má líka setja hana í kæli í nokkrar klukkustundir).

• Steiktir borgarar: Stráið báðar hliðar með mjöli. Hitið olíuna á stórri pönnu við meðal-hæsta hita og brúnið borgarana, í um mínútu á hvorri hlið. Berið þá fram í grilluðu hamborgarabrauði með því ferska hráefni sem ykkur þykir best.

• Ofnbakaðir borgarar: Setjið borgarana á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 8-10 mínútur á hvorri hlið.

Örlítið breytt uppskrift úr bókinni Notes From My Kitchen Table eftir Gwyneth Paltrow



mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt


þriðjudagur, 17. febrúar 2015

Skýjaður dagur í Suður-Jórvíkurskíri | Brauðbollur



Í dag er pönnukökudagurinn í Bretlandi og fleiri löndum. Sólin skín, fuglarnir syngja og við erum búin að borða pönnsur með sultu og rjóma. Í gær var aftur á móti skýjað. Ég skellti í brauðbollur og lét deigið hefast á meðan ég og sonurinn fórum í göngutúr. Það var ákaflega notalegt að koma svo inn í hlýjuna og taka eilítið síðar nýbakaðar brauðbollur með sesamfræjum úr ofninum. Það er ekkert lag sem heitir Cloudy Day in South Yorkshire (mér finnst þýðingin Suður-Jórvíkurskíri alltaf jafn fyndin) en í gær hljómaði lagið Rainy Night in Georgia stanslaust í kollinum á mér og ég fór eitthvað að rýna í textann:

I feel like it's rainin' all over the world,
How many times I wondered, It still comes out the same
No matter how you look at it or think of it,
It's life and you just got to play the game…

~ • ~
Þetta er lífið og þú þarft bara að leika leikinn ... góð þessi síðasta lína.


Íslenski bolludagurinn fór ekki fram hjá okkur í gær. Ég man enn þá eftir sunnudögunum í eldhúsinu þegar mamma var að baka vatnsdeigsbollur. Ég man meira að segja eftir skálinni sem hún notaði undir glassúrið, og ég man svo sannarlega eftir augnablikinu þegar ég opnaði nestisboxið með bollunum í skólanum.

Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Hjalt
Ég get ekki sagt að ég hafi haldið í bolludagshefðina. Ég held svei mér þá að ég hafi síðast bakað rjómabollur í Danmörku árið 2010! En ég get alveg sagt að ég hafi bakað bollur í gær, það voru bara brauðbollur.

Þessi vika er annars sú þriðja í grasekkjustandi. Eiginmaðurinn er á námskeiði í Þýskalandi og við finnum alveg fyrir fjarveru hans, sennilega vegna þess að enginn úr fjölskyldunni býr nálægt. Á þessum bæ sjáum við bæði um eldamennskuna, ákveðna rétti sér hann alfarið um og ég ákveðna, og svo eldum við nokkra saman. Það er engin regla á þessu hjá okkur. Sá sem er í stuði fyrir að elda sér um eldamennskuna. Þegar hann er í burtu þá geri ég grófan matseðil fyrir vikuna því ég læt senda vörurnar heim. Ég reyni að forðast að elda alltaf sömu réttina og nota tækifærið til að útbúa eitthvað sem ég hef ekki gert áður eða ekki gert í langan tíma. Ég baka afar sjaldan með geri og því finnst mér athyglisvert hvað ég er búin að gera þessar brauðbollur oft núna síðustu tvær vikur. Það er eitthvað róandi við það að hnoða deig í höndunum. Svo hef ég lengi átt í ástarsambandi við sesamfræ.

Talandi um sesamfræ, ég sá að það er að koma ný uppskriftabók á markaðinn sem kallast Sesame & Spice: Baking from the East End to the Middle East eftir Anne Shooter. Orðin sesame og baking fönguðu athygli mína. Ég hef enga hugmynd um hvernig uppskriftir eru í bókinni, hvort þær eru mjög sykraðar eða ekki, en kápan lofar góðu. Og þá að brauðbollunum.
Brauðbollur með sesamfræjum · Lísa Stefan


Þið sem hafið fylgst með blogginu í einhvern tíma hafið væntanlega tekið eftir því að ég nota yfirleitt spelti í bakstur. Þegar ég baka brauð/bollur þá blanda ég gjarnan fínu og grófu spelti saman. Undanfarið hefur verið erfitt að fá fínt spelti í búðum í nágrenninu. Grófa speltið sem ég keypti um daginn reyndist aðeins of gróft og hentar illa í brauðbakstur. Ég baka því þessar bollur með lífrænu hveiti eða brauðhveiti. Gerið sem ég nota er fast-active þannig að það blandast bara með þurrefnunum. Í stað þess að hita mjólkina, eins og oft er gert í gerbakstri, þá sýð ég vatnið og blanda því saman við mjólkina og hunangið. Sesamfræ eru auðug af kalki, magnesíum og járni og að mínu mati ætti að neyta þeirra á hverjum degi. Bollurnar berum við fram með harðsoðnum eggjum og agúrku eða heimagerðu pestó.

BRAUÐBOLLUR MEÐ SESAMFRÆJUM

450 g lífrænt hveiti
2 teskeiðar „fast-active“ þurrger
1 teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar sesamfræ
125 ml mjólk
100 ml soðið vatn
½ matskeið lífrænt hunang
1 matskeið jurtaolía
1 eggjahvíta eða mjólk til að pensla bollurnar
sesamfræ til að strá yfir

Blandið þurrefnum saman í stórri skál og hrærið sesamfræjum saman við.

Blandið mjólk, soðnu vatni og hunangi saman í lítilli skál og hrærið rólega til að leysa upp hunangið. Látið standa í skálinni í 1-2 mínútur áður en þið blandið olíu saman við. Hellið blöndunni hægt út í stóru skálina með þurrefnunum og hrærið rólega með sleif.

Notið fyrst sleif til að blanda hráefnunum vel saman, stráið svo örlitlu mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-10 mínútur. Setjið deigið svo aftur í skálina og breiðið rökum klút yfir. Látið deigið hefast í 1½-2 klukkustundir (helst fjarri kulda).

Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið úr því kúlur. Setjið kúlurnar á ofnplötu með bökunarpappír og fletjið hverja út með því að þrýsta rétt aðeins ofan á þær með lófanum. Penslið þær svo með eggjahvítu eða mjólk og stráið sesamfræjum yfir. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 12-14 mínútur.

Brauðbollur með sesamfræjum á leið í ofninn