Sýnir færslur með efnisorðinu kóríander. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kóríander. Sýna allar færslur

mánudagur, 25. apríl 2016

Linsubaunasúpa | Vegan í húsinu

Linsubaunasúpa (vegan) · Lísa Hjalt


Matarmiklar súpur eru ekki það fyrsta sem mér dettur í hug að setja á vormatseðilinn en hér á miðri vesturströnd Skotlands steig vorið á bremsuna; skyndilega komu kaldari dagar með rigningu. Í síðustu viku lét sólin loksins sjá sig að nýju þannig að nú virðist vorið framundan og brumin kætast. Mig langaði að deila þessari uppskrift að linsubaunasúpu áður en það verður of seint. Þá meina ég úr takt við árstíðina, sérstaklega fyrir þá sem búa sunnar á hnettinum og njóta veðurblíðu og blómstrandi trjáa. Í garðinum okkar er risastórt kirsuberjatré sem er alveg að springa út. Greinar þess teygja sig yfir veröndina og sumar snerta meginþak hússins. Ef ég hefði gluggann í svefnherbergi sonarins opinn myndu þær finna sér leið inn. Mér stæði á sama en líklega ekki honum. Ég bíð spennt eftir því að sjá kirsuberjatréð í allri sinni dýrð.


Aftur að súpunni. Í janúar ákvað yngri dóttirin, 14 ára unglingur, að gerast vegan. Við hjónin ræddum það okkar á milli að þetta væri bara einhver bóla, eitthvað sem hún yrði að fá að kanna. Í sannleika sagt héldum við að hún entist í 1-2 vikur. Fyrir utan hangikjötið á jólunum þá hefur hún verið lítið fyrir kjöt. Sá þáttur yrði henni því auðveldur. En að hætta að borða egg var allt annað og hún gæfist fljótt upp. Eða svo héldum við. Okkar dama elskaði ommilettur og útbjó þær sjálf þegar ég var að gera t.d. fajitas eða eitthvað sem henni fannst ekki gott. Senn líður að maí og okkar kona hefur hvergi beygt af. Er enn þá vegan.

Vegna þessa hef ég að einhverju leyti aðlagað mína eldamennsku - sem dæmi eggjabakstur snarminnkað - og ég hef breytt sumum grænmetisuppskriftunum mínum og gert þær vegan, og þróað nýjar. Það sem gleður mig í þessu ferli er það að hún er að lesa sig heilmikið til um næringarfræði og að fikra sig áfram í eldamennsku. Hún borðar líka orðið sumt grænmeti sem hún vildi ekki borða áður. Mér finnst gaman að sjá hvað hún er að verða örugg í eldhúsinu; hvernig hún útbýr óflókna, næringarríka rétti án aðstoðar. Stundum erum við tvær saman í eldhúsinu að undirbúa máltíð sem þarf að aðlaga fyrir hana. Fyrir móður, sem er matgæðingur, eru þetta gæðastundir. Þegar kaldara var í veðri þá gerði ég gjarnan fyrir mig í hádeginu chillibaunarétt eða aðra baunarétti eða matarmiklar súpur, sem svo biðu á hellunni þegar okkar staðráðna vegankona kom heim úr skólanum. Þessi linsubaunasúpa er einmitt ein þeirra.

[Textíllinn sem sést á súpumyndunum, fyrir utan servíettuna, er hannaður af Lisa Fine: Baroda 1 í indígó (fuglamynstrið), Lahore í aprikósulit (blóma-), og Chiara í himinbláu (mynstrið lengst til hægri). Meira um Lisa Fine Textiles síðar.]
Linsubaunasúpa | vegan · Lísa Hjalt


Hvort sem þið eruð vegan eða ekki þá eru linsubaunir góðar fyrir ykkur (nánar um hollustu þeirra); mér finnst að allir ættu að eiga í kollinum eina góða grunnuppskrift með linsum til að grípa í. Linsubaunir eru ríkar af próteinum, trefjum og járni, og gefa til dæmis B1- og B6-vítamín. Linsubaunir og krydd eru dásamleg blanda því linsurnar draga í sig kryddbragðið. Að mínu mati passa líka jurtir eins og lárviðarlauf og tímían vel með linsum. Gætið þess bara að ofsjóða þær ekki heldur leyfa þeim að halda lögun sinni. Mjúkar linsur, já takk. Mauksoðnar, nei takk. Í grænmetissoðið nota ég lífrænan, vegan grænmetiskraft frá Marigold (inniheldur líka minna salt), en það má að sjálfsögðu nota grænmetisteninga.

LINSUBAUNASÚPA

1 matskeið kókosolía eða létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 gulrætur
1-2 sellerístilkar
3 hvítlauksrif
1 rautt chilli aldin (eða ¼ teskeið chillipipar)
1 bolli (250 ml) grænar linsubaunir
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið mulin kúrkúma / túrmerik
1250 ml lífrænt grænmetissoð (5 bollar)
1 lárviðarlauf
1 teskeið þurrkað tímían eða 1-2 heilar tímíangreinar
má sleppa: 1-2 tómatar
smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar

Skolið linsubaunirnar og látið vatnið renna af þeim (hafið í huga að sumar linsur er gott að sjóða fyrst í 2 mínútur og skola svo). Setjið þær til hliðar á meðan þið útbúið grænmetissoðið. Sjóðið vatn og hellið í hitaþolna mælikönnu ásamt grænmetiskrafti eða -teningum. Fyrir 1250 ml af vatni ættuð þið að þurfa 5 teskeiðar af krafti eða 2¼ teninga (veltur á tegund; lesið merkingar á umbúðum).

Afhýðið laukinn og saxið. Sneiðið gulræturnar og selleríið. Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið (ef notað). Hitið olíuna í meðalstórum potti við meðalhita. Léttsteikið laukinn og grænmetið þar til það fer að mýkjast. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn. Eldið í 1-2 mínútur til viðbótar og hrærið rólega.

Blandið næst linsum og kryddum saman við. Hellið svo grænmetissoðinu í pottinn ásamt lárviðarlaufi og tímían. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og leyfið súpunni að malla í 25-30 mínútur, eða þar til linsubaunirnar eru mjúkar en ekki mauksoðnar. Tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn. Ef þið notið tómata í súpuna fræhreinsið þá fyrst og skerið í bita.

Áður en súpan er borin fram skuluð þið veiða lárviðarlaufið og tímíangreinarnar (ef notaðar) upp úr pottinum. Smakkið til með svörtum pipar og sjávarsalti, ef ykkur finnst þurfa meira salt. Berið súpuna fram með (heimabökuðu) grófu brauði, og kannski einu glasi af góðu rauðvíni . . . bara hugmynd.

Recipe in English



þriðjudagur, 19. janúar 2016

Tómatsúpa með grænmeti og karrí

Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Ég skrifaði þetta í gær þegar við vorum öll saman í stofunni að drekka heitt súkkulaði með eld logandi í arninum. Síðustu daga hefur ekki bara verið kalt úti heldur bilaði miðstöðvarketillinn á sunnudaginn og viðgerðarmaðurinn ekki væntanlegur fyrr en í dag. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir þennan arinn! Í hádeginu í gær urðum við að fá eitthvað til að verma kroppinn og það eina sem við gátum hugsað okkur var skál af kalt-úti súpu. Það er nafnið sem við gáfum minni útgáfu af tómatsúpu Höddu, matarmikilli súpu sem við fundum á CafeSigrun-vefsíðunni fyrir mörgum árum síðan þegar við bjuggum enn á Íslandi. Hún er kjörin á köldum vetrardögum.
Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Við erum öll hrifin af upprunalegu uppskriftinni að tómatsúpunni. Sú inniheldur léttan rjómaost, sem ég kaupi afar sjaldan, en of mikið af rósmaríni fyrir minn smekk. Þess vegna ákvað ég að breyta henni örlítið og ég bætti við baunum til að gera hana enn matarmeiri. Ég ber súpuna fram með brauði, nýbökuðu úr ofninum eða brauðvélinni. Til þess að ná ákveðinni áferð þá þarf töfrasprota eða matvinnsluvél/blandara til að gera súpuna. Ekki örvænta ef þið eigið ekki þessar græjur heldur skerið bara grænmetið fínt; áferðin verður ekki sú sama en bragðið breytist ekki. Þetta er stór skammtur af súpu sem ég ber á borð fyrir fimm manns. Þið getið breytt hlutföllunum ef þið eruð að elda fyrir 1-2, eða geymt restina í kæli og hitað upp daginn eftir.

TÓMATSÚPA MEÐ GRÆNMETI OG KARRÍ

1 matskeið kókosolía
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 gulrætur
2 sellerístilkar
4 kartöflur
2 x 400 g dósir tómatar
500-700 ml vatn
2 lífrænir grænmetisteningar (eða 1 og 1 kjúklingateningur)
2-3 matskeiðar lífræn tómatsósa
- eða 1 matskeið mólassi (blackstrap molasses) eða hrásykur
½ matskeið karrí (sterkt eða milt)
½ matskeið mulinn kóríander
½ matskeið paprika
1 teskeið basilíka
¼ teskeið rósmarín
má sleppa: klípa af saffranþráðum
1 dós (400 g) nýrnabaunir eða svartar baunir
100-125 ml kókosmjólk
fínt sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Afhýðið laukinn og saxið gróft. Hitið kókosolíuna í stórum potti og steikið laukinn á lágum hita þar til hann mýkist. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn.

Flysjið kartöflurnar. Skerið gulrætur, sellerí og kartöflur gróft, setjið í pottinn og steikið áfram á lágum hita í nokkrar mínútur þar til grænmetið mýkist.

Bætið tómötum úr dós, vatni, grænmetisteningum og tómatsósu saman við. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Blandið þá kryddum og kryddjurtum saman við, setjið lok á pottinn og látið malla á lágum eða meðalhita í 15 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni. Maukið súpuna með töfrasprota þannig að áferðin haldist eilítið gróf (maukið lengur ef þið kjósið að hafa súpuna alveg silkimjúka) en farið varlega: Súpan er mjög heit og þið getið brennt ykkur ef hún slettist upp og úr pottinum! Það má láta hana kólna áður en hún er maukuð, en best er að halda töfrasprotanum alveg beinum og ýta bara á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni. Ég kýs að hafa svolítið af grófum bitum í súpunni og mauka því aðallega kartöflurnar og stærstu grænmetisbitana. Það má líka láta súpuna kólna og mauka í skömmtum í matvinnsluvél/blandara.

Setjið baunirnar í sigti og skolið af þeim. Bætið þeim í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Hitið súpuna (ekki láta hana sjóða) í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og svörtum pipar áður en þið berið hana fram.



fimmtudagur, 23. júlí 2015

Kartöflubátar með kryddsalti

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Stefan


Á þessu heimili erum við óð í kartöflur. Ég fer í gegnum tímabil þar sem ég leik mér með uppskriftir, einkum að bökuðum kartöflum því okkur finnst hýðið gott (það gefur trefjar). Sonurinn minnti mig á þessa kartöflubáta, sem ég krydda með heimagerðu kryddsalti, þegar hann bað um þá með kjúklingi á tíu ára afmæli sínu næsta laugardag. Hann vill líka eplaköku með rjóma. Mais bien sûr, monsieur!

Vissuð þið að fyrstir til að rækta kartöflur voru Inkar? Ég hafði ekki hugmynd um það þar til ég las um sögu kartöflunnar í Larousse Culinary Encyclopedia, alfræðibók um mat og matargerð. Það var Francisco Pizarro, spænski landkönnuðurinn sem lagði undir sig Inkaveldið (og stofnaði borgina Líma), sem kynnti kartöflur fyrir Evrópubúum árið 1534. Enski landkönnuðurinn Sir Walter Raleigh gerði sömu uppgötvun í Virginíu fimmtíu árum síðar og kom með kartöfluna til Englands. Það stöðvaði nú ekki kónginn James I frá því að láta fangelsa hann í Lundúnaturninum (Tower of London) fyrir föðurlandssvik og síðar taka af lífi. En það er önnur saga og ég er viss um að hún hefur ekkert með kartöflur að gera.



Myndirnar hér að ofan eru einnig óskyldar kartöflum. Ég tók þær í garðinum okkar í lok maí og langaði að deila þeim á blogginu til að minna mig á þessa fallegu plöntu í blóma. Rætur hennar eru í garði nágrannanna og rétt áður en plantan blómgast læðist hún yfir girðinguna þannig að við fáum að njóta fallegu hvítu blómanna. Ég kalla hana ,sjalið' því hún er eins og sjal í laginu.



Byrjum á kryddsaltinu sem gæti ekki verið auðveldara að útbúa. Í blönduna nota ég bleika Himalaya-saltkristalla, en það má nota fínt sjávarsalt. Hlutföll reyktrar papriku velta bara á skapi hverju sinni en bragð hennar getur verið örlítið yfirgnæfandi þannig að kannski er best að byrja með ¼ teskeið. Hlutföll chillipipars velta á því hvort ég nota milt eða sterkt chilli. Þetta kryddsalt fær engar tungur til að loga, allavega ekki okkar, en það gefur kartöflubátum smá kraft.

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Stefan
STERKT KRYDDSALT

1½ matskeið Himalayasalt
1 teskeið broddkúmen (ground cumin)
½ teskeið mulinn kóríander
½ teskeið þurrkað óreganó
¼-½ teskeið reykt paprika
¼ teskeið rauðar chilliflögur
klípa eða ¼ teskeið chillipipar

Setjið allt í glerkrukku með loki og hristið vel. Munið að merkja krukkuna, og kannski að skrifa niður hlutföllin ef þið viljið breyta þeim síðar.

Kryddsaltið má nota til að ofnbaka grænmeti eða til að húða kjúkling. Það er kjörið í grillaðar samlokur. Saltið má einnig nota til að salta hvers kyns rétti sem verið er að elda, svo lengi sem kryddin fara vel saman með öðrum hráefnum/kryddum.

Kartöflubátar með kryddsalti · Lísa Stefan


Bakaðar kartöflur með timían og rósmarín eru klassík sem getur ekki klikkað, en þegar ég ber fram kartöflur með, til dæmis, borgurum eða kjúklingaleggjum þá kalla bragðlaukarnir helst á eitthvað sterkt. Ef ég nota stórar bökunarkartöflur þá finnst mér best að forsjóða þær í 7-10 mínútur. Ég læt þær svo aðeins kólna í sigti áður en ég sker þær í báta. Hafið í huga að ég útbý bátana sem meðlæti fyrir 5 manns þannig að kannski viljið þið eitthvað breyta magninu.

KARTÖFLUBÁTAR MEÐ STERKU KRYDDSALTI

1 kg bökunarkartöflur
1 matskeið létt ólífuolía eða önnur jurtaolía
1 teskeið sterkt kryddsalt (eða meira/minna - sjá uppskrift hér að ofan)

Þvoið fyrst kartöflurnar. Skerið þær í báta með því að skera þær fyrst til helminga langsum og svo hvern helming í þrennt langsum (hver kartafla ætti að gefa ykkur 6 báta en ef kartöflurnar eru mjög stórar þá er gott að skera bátana þversum í tvennt). Passið að bátarnir séu ekki þunnt skornir því þeir eiga að geta legið á hýðinu í ofninum.

Það eru tvær leiðir til að húða bátana:
1) Setjið innihaldið í góðan frystipoka og lokið vel áður en þið veltið bátunum í pokanum. Dreifið svo úr þeim á bökunarplötu með bökunarpappír og látið hýðið vísa niður.
2) Ef þið viljið húða þá í höndunum þá setjið þið fyrst allt innihald beint í ofnskúffu og dreifið svo úr bátunum þannig að hýðið vísi niður.

Bakið við 220˚C (200˚C á blæstri) í 25-30 mínútur, eða þar til bátarnir eru bakaðir í gegn, gullinbrúnir og stökkir. Við viljum okkar vel bakaða þannig að yfirleitt eftir 25 mínútur lækka ég eilítið hitann og baka þá í aðrar 5-10 mínútur, eða jafnvel lengur.

Berið kartöflubátana fram með gæða majónesi eða sýrðum rjóma. Einnig má útbúa ídýfu með því að setja gríska jógúrt í skál með örlitlu broddkúmeni (ground cumin).




þriðjudagur, 12. maí 2015

Svartbaunaborgarar (vegan)

Svartbaunaborgarar (vegan) · Lísa Stefan


Ást mín á svörtum baunum þekkir engin landamæri og þessir svartbaunaborgarar fengu mig til að skipta alfarið yfir í grænmetisborgara. Ég myndi ekki segja nei við góðum borgara matreiddum úr gæða kjöti en þegar ég fæ löngun í borgara þá geri ég þessa. Þetta snýst ekki bara um bragðið heldur alla þessa dásamlegu ferskvöru á borðinu þegar ég útbý máltíðina.
Kóríander · Lísa Stefan


Ferskan kóríander vil ég helst alltaf eiga. Ég elska bragðið (nefnt „pungent“ í ensku) og upp á síðkastið stend ég mig að því að nota meiri kóríander en uppskriftir segja til um. „Cilantro“ er annað heiti yfir ferskan kóríander sem Bandaríkjamenn nota úr spænsku. Svo eru sumir sem tala um blöðin sem arabíska steinselju („parsley“) og enn aðrir sem kínverska steinselju. Ekki skrýtið að fólk verði stundum ruglað á öllum þessum heitum.

Svartbaunaborgarar (grænmeti) · Lísa Stefan


Á þessum bæ hefur þróast ákveðin svartbaunaborgarahefð. Í hvert sinn sem ég geri borgarana, sem er ansi oft, þá útbý ég sama meðlætið: Ég steiki sveppi í örlítilli léttri ólífuolíu með hvítlauk og smá salti sem notum líka í borgarana.

Talandi um sveppi. Fyrir mörgum árum síðan fór vinur minn á fyrirlestur með búddhamunki sem sagði eitthvað á þá leið að enginn ætti að borða sveppi því þeir vaxa ekki í sól. Allir hafa rétt á sínum skoðunum en þetta hafði ég um málið að segja: Enginn munkur eða heimspeki skyldi koma á milli mín og minna sveppa og frá þeirri stundu strengdi uppreisnarmaðurinn innra með mér það heit að ég skyldi borða enn meira af þeim. Það er bara þannig sem ég rúlla.
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Uppskriftin að svartbaunaborgurunum kemur frá leikkonunni Gwyneth Paltrow, en hana er að finna í bók hennar, Notes From My Kitchen Table. Ég veit að margir þola hana ekki en hún má eiga það að þessi uppskrift er góð (ég gerði bara örlitlar breytingar). Það er auðvelt að matreiða borgarana og eðal að skella í þá ef þið eigið afgang af soðnum brúnum grjónum. (Tekur annars 25-30 mínútur að sjóða þau: 30 g (ca 3 matskeiðar) = 75 g soðin).
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Ég vil borgarana steikta en ég bætti við ofnbakaðri útgáfu fyrir þá sem kjósa það frekar. Ég tvöfaldaði skammtinn af broddkúmeni í uppskriftinni og nota 2 matskeiðar af söxuðum ferskum kóríander. Ég bætti líka chilliflögum og næringargerflögum (nutritional yeast flakes), sem ég merki sem val. Ég ber borgarana fram með steiktum sveppum og hvítlauk, sem ég minntist á hér að ofan, tómötum, avókadó, salatblöðum og gæða majónesi eða heimagerðu. Það er laukur í uppskriftinni og því finnst mér óþarfi að setja hráan lauk eða rauðlauk á borgarann, en þegar ég vil aðeins sterkara bragð þá nota ég jalapeno úr krukku. Með borgaranum fæ ég mér stundum lítið glas af ísköldum bjór með nýkreistum límónusafa.

SVARTBAUNABORGARAR

1½-2 matskeiðar létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
½ teskeið broddkúmen (ground cumin)
klípa rauðar chilliflögur (má sleppa)
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
1 dós (400g) lífrænar svartar baunir
75 g soðin brún hrísgrjón
1-2 matskeiðar ferskur kóríander
1 matskeið næringargerflögur (má sleppa)
1-2 matskeiðar lífrænt mjöl (til steikingar)
2-3 matskeiðar jurtaolía (til steikingar)
4 gróf hamborgarabrauð

Sjóðið 30 g af brúnum hrísgrjónum áður en byrjað er á borgurunum. Setjið svörtu baunirnar í sigti og skolið af þeim. Setjið til hliðar.

Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt. Hitið ólífuolíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, broddkúmen og chilliflögur (ef notaðar) í 5-7 mínútur við lágan-meðalhita.

Bætið salti, pipar, svörtum baunum og grjónum á pönnuna, steikið í 2 mínútur og hrærið á meðan.

Saxið ferskan kóríander smátt og bætið á pönnuna ásamt næringageri (ef notað) og hrærið saman við. Takið pönnuna af hellunni.

Notið kartöflustöppu til að stappa blönduna án þess að mauka hana alveg. Hún má halda smá grófleika. Leyfið henni að kólna þar til auðvelt er að meðhöndla hana og mótið þá 4 borgara (á þessum punkti má líka setja hana í kæli í nokkrar klukkustundir).

• Steiktir borgarar: Stráið báðar hliðar með mjöli. Hitið olíuna á stórri pönnu við meðal-hæsta hita og brúnið borgarana, í um mínútu á hvorri hlið. Berið þá fram í grilluðu hamborgarabrauði með því ferska hráefni sem ykkur þykir best.

• Ofnbakaðir borgarar: Setjið borgarana á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 8-10 mínútur á hvorri hlið.

Örlítið breytt uppskrift úr bókinni Notes From My Kitchen Table eftir Gwyneth Paltrow