miðvikudagur, 28. janúar 2015

Maður með bláan trefil | Klattar

Maður með bláan trefil eftir Martin Gayford · Lísa Hjalt


Á sínum tíma sat ég í kúrsi um sjálfs/ævisögur og skrifaði BA ritgerð um sama efni þannig að ég hef nokkuð sterkar skoðanir á slíkum ritum. Ég hef enga þolinmæði fyrir höfundum ævisagna sem gleyma sér í slúðursögum um viðfangsefnið eða eru í því að skreyta textann með nöfnum þekktra einstaklinga. Að því sögðu þá langar mig að segja aðeins frá bókinni sem ég er að lesa, Man With a Blue Scarf, sem er svo til laus við slíkt. Jarðbrúnir tónar eru einnig ofarlega í huga mér og klattar. Klattar með grjónum.

Þessa dagana nýt ég þess að lesa bók eftir Martin Gayford, Man With a Blue Scarf: On Sitting for a Portrait by Lucian Freud. Hún er ekki ævisaga heldur brot úr dagbók Gayford þann tíma sem hann sat fyrir á mynd. Hann fer með okkur inn í vinnustofu Lucian Freud og við kynnumst listamanninum betur. Lucian Freud (1922-2011) var breskur listamaður, fæddur í Þýskalandi, og var einn af áhrifamestu listamönnum sinnar kynslóðar; maður með sterkan persónuleika (Sigmund Freud var afi hans). Dagbókarfærslur Gayford sýna okkur málarann að störfum og hvernig hann nálgast viðfangsefni sitt.


Bókin er heillandi innsýn í líf listamannsins, sem átti nokkra daga í 81 árs afmælið þegar þessi bútur var skrifaður:
In practice, we alternate between conversation and periods when his concentration is intense. During those he keeps up a constant dance-like movement, stepping sideways, peering at me intently, measuring with the charcoal. He holds it upright, and with a characteristic motion moves it through an arc, then back to the canvas to put in another stroke … he mutters to himself from time to time, little remarks that are sometimes difficult to catch: 'No, that's not it', 'Yes, a little' … Once or twice he steps back and surveys what he has done, with his head on one side. (bls. 10)
Þeir félagar áttu skemmtilegar samræður um aðra listamenn, bókmenntir (Henry James, Gustave Flaubert og Thomas Hardy voru í uppáhaldi hjá Freud) og þeir töluðu jafnvel um matargerð (man einhver eftir Elizabeth David? Freud var hrifinn af bókum hennar). Bókin inniheldur 64 myndir: verk eftir Freud og aðra listamenn og myndir af vinnustofunni. Ég er ekki búin að lesa bókina og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu blaðsíðurnar hægt því ég vil einfaldlega ekki að hún endi. Ég fékk eintakið lánað á safninu en þetta er bók sem ég vil eiga í bókahillunum.

Í desember byrjaði ég að lesa Breakfast with Lucian eftir Geordie Greig. Bókin byrjaði vel og skrautlegar lýsingar á Freud voru ansi skemmtilegar; ég las meira að segja stundum upphátt fyrir eiginmanninn. Svo kom að því að ég hreinlega missti þolinmæðina, en það var þegar höfundurinn, sem var vinur listamannsins, fór að segja fullmargar sögur af elskhugum Freud og ástarþríhyrningum og -flækjum. Honum gekk ekkert illt til og tónninn var gamansamur en allt í einu fannst mér eins og ég væri að lesa slúðurrit (hef engan áhuga á þeim) og ég hafði enga þolinmæði til að halda áfram með bókina og klára hana.

Hvað fleira hef ég enga þolinmæði fyrir? Klisjur í tímaritum ná ofarlega á listann.

Ég hef alltaf sagt að mér líkar litlu hlutirnir í lífinu og kætist til dæmis í hvert sinn þegar tímarit berst inn um lúguna. Í vikunni var það marsútgáfa Elle Decoration. Ég er mjög hrifin af umfjöllun um liti sem er fastur liður í tímaritinu, en hún fyllir eina blaðsíðu og segir sögu litarins og t.d. hvernig listamenn hafa notað hann. Í þessu tölublaði eru það djúpir, brúnir tónar sem verða fyrir valinu og greinin hefst svona: „Startling news to report from the design world: brown is back.“ Er það já? Hvarf brúnn litur af yfirborði jarðar? Og hvað er svona óvenjulegt? Í september var spurt á forsíðunni: „Is black the new white?“ Nei, svo er ekki, svartur er svartur og hvítur er hvítur! Nær þessi tilgangslausi pirringur minn að skína í gegn? Hvað um það, brúna skálin í umfjölluninni er frá Nicola Tassie, borðbúnaðurinn frá Reiko Kaneko og kjóllinn í forgrunni er úr vorlínu Chloé (hönnuður: Clare Waight Keller) árið 2015.

Eigum við ekki bara að fikra okkur yfir í klattana?

Þessa dagana er ég óð í möndlusmjör með chiafræjum og nota það á klattana með bláberjasultu. Þá má bera fram með ýmsu, eins og smjöri, osti og sultu, með lífrænu súkkulaði/hnetusmjöri eða hverju sem er. Krakkarnir borða þá oft með hlynsírópi.
 Klattar með grjónum · Lísa Hjalt


Ef þið eigið afgang af grjónagraut eða soðnum hrísgrjónum í kæli er upplagt að skella í klatta með morgunkaffinu eða eftir skóla fyrir börnin. Upprunalega uppskriftin kemur frá gamalli vinkonu og ég gerði hana síðar glútenlausa þegar einn lítill gutti með óþol kom í heimsókn (ég nota glútenlausa mjölið frá Doves). Í staðinn fyrir glútenlaust mjöl má nota spelti eða lífrænt hveiti og minnka eilítið mjólkina (klattarnir verða mýkri). Það má líka nota örlítið af kanil eða söxuðu súkkulaði með hrásykri. Stundum nota ég fersk bláber í klattana og læt þá 3-4 bláber á yfirborð hvers klatta um leið og deigið er komið á pönnuna. Ef bláberin fara beint í skálina verður deigið bláleitt! Uppskriftin gerir 10-12 klatta.

KLATTAR MEÐ GRJÓNUM

1-2 eggjahvítur eða 1 (hamingju)egg
2 matskeiðar lífrænn hrásykur eða hlyn-/agavesíróp
1 teskeið hreinir vanilludropar
1½-2 matskeiðar góð jurtaolía
1 bolli (2½ dl) grjónagrautur eða soðin (brún) grjón
1 bolli glútenlaust mjöl (ca. 175 g)
má sleppa: ⅛ teskeið xanthangúmmí
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
ca. 175-200 ml möndlumjólk eða önnur mjólk

Hrærið saman eggjahvítum, sykri, vanillu og olíu í skál (ef þið notið 1 egg ætti 1½ msk af olíu að duga). Hrærið grjónagraut/soðnum grjónum saman við.

Blandið saman í minni skál glútenlausu mjöli, salti og xanthangúmmíi (ef notað í glútenlausri útgáfu). Hellið svo út í hina skálina ásamt mjólkinni og hrærið saman. Það er ágætt að byrja með 175 ml af mjólk og bæta við ef þarf. Deigið á að vera nokkuð þykkt í sér.

Hitið pönnu við meðalhita og notið eldhúspappír til að smyrja smá olíu á hana. Hellið deigi á pönnuna með ausu (ég geri yfirleitt 2 klatta í einu) og bakið þar til botninn er gullinbrúnn. Snúið klattanum við með spaða og bakið hina hliðina í eilítið styttri tíma. Setjið á disk og endurtakið.

Recipe in English.

Bak við tjöldin: persneskur köttur treður sér inn í mynd

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.