Sýnir færslur með efnisorðinu döðlur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu döðlur. Sýna allar færslur

mánudagur, 6. júní 2016

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum (óbökuð) · Lísa Stefan


Það var heitt sumar árið 2010 og við vorum nýflutt til Antwerpen þar sem við bjuggum í tvö ár. Sonurinn átti bráðum afmæli og bað mig um að gera þessa mjúku valhnetusúkkulaðiköku með hindberjum sem ekki þarf að baka. Hann sá hana í bókinni Ani's Raw Food Desserts eftir Ani Phyo og gerði strax upp hug sinn. Mjúk kaka og Playmo og sá fimm ára var hamingjusamur. Upprunalega uppskriftin (raspberry ganache fudge cake, bls. 49) var tveggja laga með kremi og hindberjum á milli. Ég gerði hana, okkur fannst hún svakalega góð, en eftir einungis eina sneið vorum við pakksödd. Fyrir okkur var þetta of mikið magn. Ég minnkaði stærð kökunnar og mín útgáfa er einfaldur botn með kremi og berjum ofan á. Það dásamlega við gerð kökunnar er einfaldleikinn: Það þarf ekki leggja hnetur og döðlur í bleyti; öllu er blandað saman í matvinnsluvél. Kakan er svo mótuð og borin fram. Frábært á góðum sumardögum þegar mann langar í súkkulaðiköku en það er of hlýtt fyrir ofnbakstur.

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Stefan


Ein ástæða þess að ég elska þessa köku er að í henni er að finna tvennt sem er í miklu uppáhaldi: valhnetur og hindber. Valhnetur eru ríkar af ómega-3 fitusýrum (úr plöntum). Þær eru taldar vera góðar fyrir hjartað og hafa bólgueyðandi eiginleika. Ég las í matarbiblíunni Larousse Culinary Encyclopedia að forn-Grikkir og -Rómverjar hafi trúað því að valhnetur læknuðu hausverk vegna lögunar kjarnans, sem lítur út eins og tvö heilahvel (bls. 1143). Í henni las ég líka um „gyðjuna Ídu sem stakk sig á fingri þegar hún var að tína ber fyrir hinn unga Júpíter og þannig urðu hindberin rauð, sem hingað til höfðu verið hvít“ (bls. 861). Við skulum segja skilið við goðafræðina og skella í köku.
Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Stefan


Uppskriftin að þessari mjúku valhnetusúkkulaðiköku er aðlöguð úr fyrrnefndri bók eftir Ani Phyo, sem er stútfull af kræsingum sem ekki þarf að ofnbaka. Ég minnkaði bara stærð kökunnar. Uppskrift Phyo kallar á þurrkaðar valhnetur (fyrst lagðar í bleyti, svo þurrkaðar í sól eða þurrkofni) en ég nota bara valhnetur án þess gera nokkuð við þær áður. Sumir geta verið viðkvæmir fyrir koffeini og í þeim tilfellum er ágætt að nota malað karob í botninn í staðinn fyrir kakó. Upprunalega uppskriftin kallar á Medjool-döðlur, sem eru seldar mjúkar (steinlausar). Að sjálfsögðu má nota þurrkaðar döðlur í staðinn en þá þarf að leggja þær í bleyti fyrst. Upprunalega uppskriftin að kreminu inniheldur agavesíróp en ég nota hreint hlynsíróp í mitt. Kökuna má geyma í kæli í 3 daga.

MJÚK VALHNETUSÚKKULAÐIKAKA MEÐ HINDBERJUM

botn
220 g valhnetur
50 g kakó
tæp ¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
175 g Medjool-döðlur (steinlausar)

krem
60 g Medjool-döðlur (steinlausar)
40 ml hreint hlynsíróp
70 g þroskað avókadó
30 g kakó

70-100 g hindber

Botninn: Setjið valhnetur, kakó og salt í matvinnsluvél og haldið pulse-hnappnum niðri uns þetta er gróflega maukað. Passið að ofmauka ekki á þessu stigi. Bætið Medjool-döðlunum saman við og notið pulse-hnappinn þar til allt hefur blandast vel saman. Finnið áferð blöndunnar með fingurgómunum og ef hún virkar þurr aukið þá Medjool-döðlurnar um eina eða tvær. Notið hendurnar til að móta kökubotn á diski (ég kýs að hafa minn 18-19 cm).

Kremið: Setjið Medjool-döðlur og hlynsíróp í matvinnsluvél og vinnið vel þar til blandan er eins mjúk og hún getur orðið. Skerið þroskað avókadó í tvennt, fjarlægið steininn og skafið innan úr því magnið sem þarf, setjið því næst í vélina og vinnið vel þar til blandan er mjúk. Að lokum bætið þið kakóinu út í og vinnið vel uns kremið er silkimjúkt.

Dreifið kökukreminu jafnt yfir kökubotninn og skreytið með hindberjum áður en þið berið kökuna fram.

Ef notaðar eru steinlausar þurrkaðar döðlur í stað Medjool-daðla: Saxið þær fyrst og leggið í bleyti í a.m.k. 30 mínútur. Ekki hella döðluvatninu í vaskinn því þið gætuð þurft örlítið af vatninu til að ná fram réttri áferð, bæði fyrir kökubotninn og kremið (veltur á gæðum matvinnsluvélarinnar). Í stað þess að nota eingöngu valhnetur í botninn má nota helminginn af þeim og nota svo blöndu af pekanhnetum, möndlum og cashewhnetum á móti.



miðvikudagur, 7. október 2015

Rabarbaramulningur með berjum

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Aulabrandarar eru held ég eitthvað sem flestar fjölskyldur eiga í settum til að nota við ákveðin tilefni. Hjá okkur er eiginmaðurinn höfundur þeirra flestra og hann hefur meira að segja samið einn um mulning (crumble í ensku). Í hvert sinn sem ég útbý mulning - með rabarbara og berjum er okkar uppáhald - þá má heyra hann eða eitthvert barnanna syngja línu úr Bond-laginu hennar Adele í Skyfall með smá breytingum. Í stað when it crumbles syngja þau let it crumble. Aulahúmor, ég veit, en samt brosi ég í hvert sinn. Ég veit ekki hvað það er með mulning sem er bakast í ofninum, en það virðist sem allir í fjölskyldunni séu byrjaðir að bíða í eldhúsinu góðum tíu mínútum áður en hann er tilbúinn. Það má sjá þau labba í kringum borðið mitt góða og kíkja af og til á ofninn. Sennilega er það dásamlegur ilmurinn. Það er líka eitthvað notalegt við mulning, sérstaklega að hausti þegar laufin eru byrjuð að skipta litum.

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Við erum mjög hrifin af rabarbaramulningi með annaðhvort jarðarberjum eða bláberjum, helst með bæði, en svo er líka ljúffengt að nota ferskar plómur eða apríkósur. Í stað þess að nota mikinn sykur í grunninn þá nota ég saxaðar döðlur (ég kaupi hálf-þurrkaðar sem eru með steinum) og bara tvær matskeiðar af sykri. Döðlur eru ríkar af náttúrulegum sykri og þær eru líka trefjaríkar.


Flest ykkar eru líklega vön því að nota slatta af smjöri í mulninginn en það er ekkert smjör í þessum. Ég hvorki baka né elda með smjöri. Ég nudda mjúkri kókosolíu saman við speltið og bæti svo yfirleitt möluðum möndlum, eða fínt hökkuðum, til að fá réttu áferðina, sem er svona örlítið brakandi, eins og kex. Valhnetur og heslihnetur eru líka kjörnar í mulning.
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Þegar ég var að alast upp þá eyddi ég miklum tíma hjá afa og ömmu (í föðurættina) í Vogahverfinu í Reykjavík. Rabarbarabeðið í garðinum þeirra var stórt og við borðuðum stilkana eins og sælgæti. Að sjálfsögðu var gerð sulta úr rabarbörunum og svo gerði mamma oft rabarbaragraut sem eftirrétt. Hér í Bretlandi er það sem kallast rabarabaragrautur meira eins og kaka, sem er ekkert skylt grautnum sem mamma gerði. Ætli þessir grautar sem við Íslendingar þekkjum séu ekki norræn hefð; silkimjúkir eins og þykk súpa eða þeytingur, og bornir fram með rjóma - bragðið sætt og dásamlegt!

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Ég hafði þegar deilt uppskrift að rabarbaramulningi með jarðarberjum á ensku útgáfu gamla matarbloggsins. Í raun er þetta sama uppskriftin nema að grunnurinn er matarmeiri og ég nota líka bláber. Það má skipta bláberjunum út fyrir meira af jarðarberjum eða nota önnur ber í staðinn. Við bjuggum í Luxembourg þegar ég setti þessa uppskrift saman og við vorum svo heppin að vera með rabarbara í garðinum. Ég var innblásin af mulningsuppskrift frá (Cafe)Sigrúnu vinkonu sem ég hafði prófað og var svo hrifin af. Muniði eftir færslunni með sýnishorni af uppskriftabókinni hennar? Nú er bókin komin út og kallast Café Sigrún: Hollustan hefst heima. Ég var einmitt að hlusta á útvarpsviðtal við hana í morgun á vefsíðu RÚV þar sem hún var að kynna bókina. Meira um bókina síðar. Ef þið eigið von á gestum og viljið bjóða upp á mulninginn í eftirrétt þá getið þið útbúið hann áður en bíðið bara með að setja toppinn ofan á. Gerið það bara rétt áður en þið setjið hann í ofninn svo að áferð mulningsins verði rétt.

RABARBARAMULNINGUR MEÐ BERJUM

grunnur
400-450 g rabarbari
300 g jarðarber
150 g bláber
100 g döðlur
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
1 teskeið engifer
¼ teskeið múskat

mulningur/toppur
50 g möndlur, malaðar
100 g fínmalað spelti
3 matskeiðar hrásykur
2 matskeiðar kókosolía, mjúk
1 matskeið nýkreistur appelsínusafi eða vatn

Grunnurinn: Þvoið rabarbarann og skerið blöðin af. Skerið stilkana í bita sem eru 2-2.5 cm og setjið í stóra skál. Hafið bitana þynnri ef stilkarnir eru mjög sverir. Skolið jarðarberin og snyrtið. Skerið þau í tvennt eða fernt, eftir hversu stór þau eru, og bætið í skálina. Fjarlægið steinana úr döðlunum, saxið þær og bætið í skálina. Að lokum skuluð þið setja sykur, engifer og múskat út í og blanda þessu rólega saman með sleikju. Setjið svo skálina til hliðar á meðan þið útbúð toppinn.

Mulningurinn: Ef þið eigið ekki malaðar möndlur (e. ground almonds) þá skuluð þið setja heilar möndlur í matvinnsluvélina. Setjið þær svo til hliðar. Blandið saman spelti og sykri í skál. Bætið mjúkri kókosolíu saman við og nuddið saman með fingurgómunum (ef kókosolían er í fljótandi formi þá getið þið sett hana í kæli fyrir notkun). Bætið möluðu möndlunum saman við ásamt appelsínusafa og nuddið saman aðeins lengur.

Hellið grunninum úr stóru skálinni í eldfastan bökudisk og dreifið jafnt úr (minn er 25 x 5 cm og hliðarnar halla ekki mikið). Dreifið mulningnum yfir og bakið við 200°C (180° C á blæstri) í 30 mínútur þar til hann er gullinbrúnn. Ef ykkur finnst mulningurinn farinn að vera helst til brúnn þá er ágætt að setja bökunar- eða álpappír yfir bökudiskinn þegar um tíu mínútur eru eftir af baksturstímanum.

Leyfið mulningnum að kólna í nokkrar mínútur og berið svo fram með þeyttum rjóma, heimagerðum vanilluís eða grískri jógúrt.