Sýnir færslur með efnisorðinu engifer. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu engifer. Sýna allar færslur

sunnudagur, 25. nóvember 2018

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar

Gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar · Lísa Stefan


Þessi ljúffenga gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar er bragðgóð og rjómakennd. Líkaminn bókstaflega öskrar á hana á haustin þegar ný gulrótauppskera kemur í verslanir. Sigrún vinkona á uppskriftina sem birtist í bók hennar, Café Sigrún: Hollustan hefst heima (við skemmtum okkur vel þegar ég var að aðstoða hana með handritið). Sigrún hefur ferðast mikið um Austur-Afríku og súpan er innblásin af undursamlegum dögum á eyjunni Zanzibar: Þar sem hún sat og gæddi sér á gulrótasúpu naut hún útsýnis yfir Indlandshafið og í loftinu var ilmurinn sem barst frá matarbásunum á Forodhani-markaðnum, í hinni sögulegu borg Stone Town. Súpan er vegan, auðvelt er að matreiða hana (þið þurfið töfrasprota eða matvinnsluvél) og hún gefur ykkur nauðsynleg vítamín og trefjar. Þetta er ein vinsælasta uppskriftin á CafeSigrun-vefsíðunni: Ég hef engar breytingar gert á innihaldinu, bara örlitlar á aðferðinni.

GULRÓTA- OG KÓKOSSÚPA FRÁ ZANZIBAR

2 matskeiðar kókosolía
1 stór laukur
4 hvítlauksrif
lítill bútur ferskt engifer
300 g lífrænar gulrætur
150 g sætar kartöflur
1 teskeið karrí
2 lífrænir grænmetisteningar
750 ml vatn
150 ml kókosmjólk
½-1 teskeið sjávar/Himalayasalt
má sleppa: pipar eftir smekk
má sleppa: 7-10 saffranþræðir

Skolið gulræturnar (burstið ef þarf) og afhýðið annað grænmeti. Saxið allt gróft. (Afhýðið eða skafið gulræturnar ef þið notið ekki lífrænar.)

Hitið kókosolíuna í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið hvítlauk og engifer út í, steikið áfram í nokkrar mínútur og hrærið svo karrí saman við (ég nota kraftmikið karrí).

Bætið gulrótum og sætum kartöflum út í og veltið upp úr karríblöndunni. Hellið vatninu í pottinn ásamt grænmetisteningunum, aukið hitann og hrærið vel. Hitið upp að suðu, hrærið ½ teskeið af salti saman við, setjið svo lok á pottinn og leyfið súpunni að malla við vægan hita í 25-30 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni og blandið kókosmjólkinni ásamt saffranþráðunum saman við. Maukið súpuna með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Farið varlega því súpan er sjóðandi heit: Haldið töfrasprotanum alveg beinum og ýtið á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni (ef maukuð í matvinnsluvél/blandara er betra að leyfa súpunni að kólna aðeins áður hún er maukuð í smá skömmtum).

Hitið súpuna upp og smakkið til með salti og pipar án þess að láta hana sjóða. Berið súpuna fram með nýbökuðu brauði eða bollum.




mánudagur, 26. október 2015

Kryddbrauð

Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Stefan


Kannski ætti ég ekki að viðurkenna það en jólaskapið kom snemma í ár. Ég skrifa það á börnin. Nýverið við kvöldverðarborðið byrjuðu þau að tala um jólahefðirnar okkar, um matinn sem við berum fram, og ég hef ekki jafnað mig. Ég er alvarlega að hugsa um að þykjast vera amerísk og halda upp á Þakkargjörðardaginn í ár bara til þess að fá kalkún og graskersböku í nóvember. Aftur að jólaskapinu mínu, sem er svo alvarlegt að ég bakaði kryddbrauð tvo daga í röð í síðustu viku, aðallega til þess að finna jólakryddilminn úr ofninum. Og í gær byrjaði ég að gera tilraunir fyrir jólabrönsj (afsakið slettuna en brönsj er bara svo gott orð) sem einhverjir hafa kannski þegar séð á Instagram.
Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Stefan


Ég hef verið frekar upptekin þennan októbermánuð en einn af hápunktunum var án efa að fá bókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu í póstinum (það glittir í hana á tveimur myndum). Þið hafið kannski tekið eftir því að bókin kom út í byrjun október og er stútfull af uppskriftum með myndum af þeim öllum. Þetta er bókin sem ég hjálpaði henni með eins og ég sagði ykkur í þessari færslu. Ég hélt að hjartað myndi springa þegar ég opnaði umslagið. Það var ansi furðuleg tilfinning að halda á bókinni og fletta síðunum: þarna voru á prenti öll skjölin sem höfðu verið á tölvuskjánum mánuðum saman! Ég ætla að deila nokkrum uppskriftum síðar og leyfa ykkur að kíkja í bókina en hana getið þið keypt á netinu og í bókaverslunum.


Uppskriftin að kryddbrauðinu, sem inniheldur kanil, engifer, múskat, negul og kakó, er ein af þessum sem ég deildi á gamla matarblogginu. Þetta er eilítið breytt útgáfa af uppskriftinni hennar (Cafe)Sigrúnar, en hún setti sína saman eftir ferð um kryddskógana á Zanzibar. Hún hefur ferðast um Afríku og verið fararstjóri og maðurinn hennar á það til að „trítla“ með fólk upp á Kilimanjaro. Sigrún notar meira magn af kryddum í sína uppskrift og eina útgáfu af hennar er einmitt að finna í bókinni góðu. Ég hef bakað kryddbrauðið í mörg ár og það er okkar þægindamatur. Stundum þegar kalt er í veðri, og bara ég og börnin erum heima, þá borðum við það í kvöldmat ásamt heitu súkkulaði. Brauðið er eitt af því fáa sem ég borða með smjöri en mér finnst það líka gott án þess. Ég baka það með spelti og blanda fín- og grófmöluðu saman. Ef það er afgangur af brauðinu þá frysti ég það í sneiðum og svo fer það bara beint í brauðristina.

KRYDDBRAUÐ

3½ dl spelti (175 g)
2½ dl haframjöl (100 g)
1¼ dl lífrænn hrásykur (110 g)
2-3 matskeiðar kakó
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið kanill
½ teskeið engifer
¼ teskeið múskat
¼ teskeið negull
250 ml mjólk/sojamjólk
2 matskeiðar hreint hlynsíróp

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál.

Hellið mjólkinni og hlynsírópinu út í og blandið rólega saman þar til ekkert þurrt mjöl er eftir á botninum. Bætið 1-3 matskeiðum af mjólk ef þið þurfið.

Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í.

Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 35-40 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjóni í miðjuna til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt. Sigrún segir að það megi alveg vera pínu blautt og klesst og mín börn eru alveg sammála henni. Ég baka því brauðið aldrei lengur en í 35 mínútur í mínum ofni.



miðvikudagur, 7. október 2015

Rabarbaramulningur með berjum

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Aulabrandarar eru held ég eitthvað sem flestar fjölskyldur eiga í settum til að nota við ákveðin tilefni. Hjá okkur er eiginmaðurinn höfundur þeirra flestra og hann hefur meira að segja samið einn um mulning (crumble í ensku). Í hvert sinn sem ég útbý mulning - með rabarbara og berjum er okkar uppáhald - þá má heyra hann eða eitthvert barnanna syngja línu úr Bond-laginu hennar Adele í Skyfall með smá breytingum. Í stað when it crumbles syngja þau let it crumble. Aulahúmor, ég veit, en samt brosi ég í hvert sinn. Ég veit ekki hvað það er með mulning sem er bakast í ofninum, en það virðist sem allir í fjölskyldunni séu byrjaðir að bíða í eldhúsinu góðum tíu mínútum áður en hann er tilbúinn. Það má sjá þau labba í kringum borðið mitt góða og kíkja af og til á ofninn. Sennilega er það dásamlegur ilmurinn. Það er líka eitthvað notalegt við mulning, sérstaklega að hausti þegar laufin eru byrjuð að skipta litum.

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Við erum mjög hrifin af rabarbaramulningi með annaðhvort jarðarberjum eða bláberjum, helst með bæði, en svo er líka ljúffengt að nota ferskar plómur eða apríkósur. Í stað þess að nota mikinn sykur í grunninn þá nota ég saxaðar döðlur (ég kaupi hálf-þurrkaðar sem eru með steinum) og bara tvær matskeiðar af sykri. Döðlur eru ríkar af náttúrulegum sykri og þær eru líka trefjaríkar.


Flest ykkar eru líklega vön því að nota slatta af smjöri í mulninginn en það er ekkert smjör í þessum. Ég hvorki baka né elda með smjöri. Ég nudda mjúkri kókosolíu saman við speltið og bæti svo yfirleitt möluðum möndlum, eða fínt hökkuðum, til að fá réttu áferðina, sem er svona örlítið brakandi, eins og kex. Valhnetur og heslihnetur eru líka kjörnar í mulning.
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Þegar ég var að alast upp þá eyddi ég miklum tíma hjá afa og ömmu (í föðurættina) í Vogahverfinu í Reykjavík. Rabarbarabeðið í garðinum þeirra var stórt og við borðuðum stilkana eins og sælgæti. Að sjálfsögðu var gerð sulta úr rabarbörunum og svo gerði mamma oft rabarbaragraut sem eftirrétt. Hér í Bretlandi er það sem kallast rabarabaragrautur meira eins og kaka, sem er ekkert skylt grautnum sem mamma gerði. Ætli þessir grautar sem við Íslendingar þekkjum séu ekki norræn hefð; silkimjúkir eins og þykk súpa eða þeytingur, og bornir fram með rjóma - bragðið sætt og dásamlegt!

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Stefan


Ég hafði þegar deilt uppskrift að rabarbaramulningi með jarðarberjum á ensku útgáfu gamla matarbloggsins. Í raun er þetta sama uppskriftin nema að grunnurinn er matarmeiri og ég nota líka bláber. Það má skipta bláberjunum út fyrir meira af jarðarberjum eða nota önnur ber í staðinn. Við bjuggum í Luxembourg þegar ég setti þessa uppskrift saman og við vorum svo heppin að vera með rabarbara í garðinum. Ég var innblásin af mulningsuppskrift frá (Cafe)Sigrúnu vinkonu sem ég hafði prófað og var svo hrifin af. Muniði eftir færslunni með sýnishorni af uppskriftabókinni hennar? Nú er bókin komin út og kallast Café Sigrún: Hollustan hefst heima. Ég var einmitt að hlusta á útvarpsviðtal við hana í morgun á vefsíðu RÚV þar sem hún var að kynna bókina. Meira um bókina síðar. Ef þið eigið von á gestum og viljið bjóða upp á mulninginn í eftirrétt þá getið þið útbúið hann áður en bíðið bara með að setja toppinn ofan á. Gerið það bara rétt áður en þið setjið hann í ofninn svo að áferð mulningsins verði rétt.

RABARBARAMULNINGUR MEÐ BERJUM

grunnur
400-450 g rabarbari
300 g jarðarber
150 g bláber
100 g döðlur
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
1 teskeið engifer
¼ teskeið múskat

mulningur/toppur
50 g möndlur, malaðar
100 g fínmalað spelti
3 matskeiðar hrásykur
2 matskeiðar kókosolía, mjúk
1 matskeið nýkreistur appelsínusafi eða vatn

Grunnurinn: Þvoið rabarbarann og skerið blöðin af. Skerið stilkana í bita sem eru 2-2.5 cm og setjið í stóra skál. Hafið bitana þynnri ef stilkarnir eru mjög sverir. Skolið jarðarberin og snyrtið. Skerið þau í tvennt eða fernt, eftir hversu stór þau eru, og bætið í skálina. Fjarlægið steinana úr döðlunum, saxið þær og bætið í skálina. Að lokum skuluð þið setja sykur, engifer og múskat út í og blanda þessu rólega saman með sleikju. Setjið svo skálina til hliðar á meðan þið útbúð toppinn.

Mulningurinn: Ef þið eigið ekki malaðar möndlur (e. ground almonds) þá skuluð þið setja heilar möndlur í matvinnsluvélina. Setjið þær svo til hliðar. Blandið saman spelti og sykri í skál. Bætið mjúkri kókosolíu saman við og nuddið saman með fingurgómunum (ef kókosolían er í fljótandi formi þá getið þið sett hana í kæli fyrir notkun). Bætið möluðu möndlunum saman við ásamt appelsínusafa og nuddið saman aðeins lengur.

Hellið grunninum úr stóru skálinni í eldfastan bökudisk og dreifið jafnt úr (minn er 25 x 5 cm og hliðarnar halla ekki mikið). Dreifið mulningnum yfir og bakið við 200°C (180° C á blæstri) í 30 mínútur þar til hann er gullinbrúnn. Ef ykkur finnst mulningurinn farinn að vera helst til brúnn þá er ágætt að setja bökunar- eða álpappír yfir bökudiskinn þegar um tíu mínútur eru eftir af baksturstímanum.

Leyfið mulningnum að kólna í nokkrar mínútur og berið svo fram með þeyttum rjóma, heimagerðum vanilluís eða grískri jógúrt.




mánudagur, 13. apríl 2015

Indverskt te (chai latte) og textílhönnun

Uppskrift: Indverskt te (chai latte) · Lísa Stefan


Í morgun fann ég fyrir slappleika og það var bara eitt sem líkaminn kallaði á: indverskt te eða chai latte. Ég smellti mynd af skálinni minni en ég naut tesins með bunka af The World of Interiors mér við hlið.

Fyrir þá sem hafa áhuga á textílhönnun: Á myndinni hér að ofan hvílir skálin mín á síðu í októberhefti ársins 2014 með umfjöllun um vatnslitamáluð mynstur eftir textílhönnuðinn William Kilburn (1745–1818). Þessi verk hans eru fáanleg í bók sem kallast Mr. Kilburn's Calicos: William Kilburn's Fabric Printing Patterns from the Year 1800 eftir Gabriel Sempill og Simon Lawrence. Bókin er dýr en örugglega hverrar krónu virði.

The World of Interiors, okt. 2014, bls. 112-113

Uppkriftinni að indverska teinu hafði ég þegar deilt á gamla matarblogginu en það er ætlun mín að smám saman endurbirta þær uppskriftir hér til halda öllu á einum stað. Ég hef gert þetta te í mörg ár og þessi hlutföll af kryddum eru alls ekki heilög heldur ætlað að vera leiðbeinandi; þið getið aukið hlutföll krydds eða sleppt því ef þið viljið. Passið bara að nota ekki of mikinn sykur því það eru miklu skemmtilegra að leyfa kryddbragðinu að njóta sín.

INDVERSKT TE (CHAI LATTE)

500 ml vatn
500 ml mjólk
4 pokar lífrænt svart te
2-2½ matskeið lífrænn hrásykur
1-3 kanilstangir eða 1 teskeið kanill
½ teskeið negulnaglar
¼ teskeið anísfræ eða 1 anísstjarna
nokkur svört piparkorn eða nýmalaður svartur pipar
örlítið engifer
örlítið múskat
örlítil kardamoma (má líka notar heilar kardamomur)

Setjið öll hráefnin í pott og sjóðið á meðal-hæsta hita. Fjarlægið pottinn af hellunni um leið og suðan kemur upp.

Berið teið fram í bollum eða skálum og njótið.

Önnur aðferð: Ef þið hafið tíma þá má byrja á því að sjóða vatnið með kryddunum eingöngu til að fá sterkara kryddbragð (ein kanilstöng ætti að vera nóg) og bæta svo hinum hráefnunum út í síðar. Það má líka flóa mjólkina sér og gera froðu til þess að láta þetta líta út eins og alvöru latte.




mánudagur, 23. mars 2015

Kort og kjúklingaleggir

Kort og latte · Lísa Hjalt


Ég hélt að á þessum tímapunkti gæti ég sýnt ykkur vorið í allri sinni dýrð en sú myndataka verður aðeins að bíða því þetta vor virðist vera með smá hiksta. Það vantar ekki páskaliljur og krókusa í blóma en ég er að bíða eftir að ákveðið magnólíutré í bænum taki að blómstra. Þegar sá dagur kemur að ég labba fyrir hornið og sé tréð í fullum blóma þá verður vorið komið hjá mér. Og hvað hefur þetta að gera með kort og kjúklingaleggi? Nákvæmlega ekkert.
Kort úr bókunum The Food of France, myndskreyting eftir Russell Bryant,
og The Food of India, eftir Rosanna Vecchio

Nýverið var sonurinn að vinna að verkefni í skólanum sem snerist um mat, sem leiddi til enn meiri matarumræðu en gengur og gerist á heimilinu. Þar sem pizza er uppáhaldsmaturinn hans rataði Ítalía í verkefnið og þá kom nú kortið mitt að góðum notum. Síðan þá hefur kortið legið hérna á borðinu mínu og stuðlað að þó nokkru korta-oflæti (mér finnst myndskreytt kort líka svo flott) og ferðahugmyndum: Einn vill fara til Japans, annar til Fiji eða Hawaii og svo fékk ég líka spurninguna, Mamma, hvernig er í Norður-Kóreu?, sem varð til þess að ég fór að hugsa um hvort þar væri hægt að fá latte. Ég get nú ekki sagt að latte-drykkja í Norður-Kóreu hafi ratað á listann minn góða en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?



Ég veit ekki hvar ég væri án Google-kortanna en ég verð að segja að það jafnast nú ekkert á við að dreifa úr stóru landakorti á borð og gera ferðaplön eða bara að láta sig dreyma.

Þar sem páskarnir eru á næsta leiti er ég aðeins farin að huga að því hvað ég eigi að bralla í eldhúsinu. Allar páskaminningar úr barnæsku snúast um páskaegg, veisluborð og fermingar. Ég veit ekki með ykkur en hjá okkur eru engar páskaveislur og við höfum þetta eins einfalt og hugsast getur. Hérna megin við Atlantshafið er líka veðrið yfirleitt orðið það gott að ég nenni ekki að vera inni að stússast í eldhúsinu þegar ég get verið úti í sólinni. Ég fór því að hugsa um kjúklingaleggi.
Kjúklingaleggir, maríneraðir · Lísa Hjalt


Mér líkar einfaldleikinn sem fylgir því að elda og bera fram maríneraða kjúklingaleggi. Maríneraður kjúklingur finnst mér mjög góður en ég vil ekki að maríneringin steli of miklu bragði frá kjúklingakjötinu. Kannski má segja að sú heimspeki eigi við alla mína matargerð því ég er lítið hrifin af því þegar eitthvað eitt tiltekið bragð verður einkennandi. Ég mæli með því að marínera leggina yfir nótt. Þegar ég ber þá fram með grjónum þá rista ég yfirleitt sesamfræ á pönnu og strái yfir grjónin áður en ég ber þau fram.

MARÍNERAÐIR KJÚKLINGALEGGIR

9-10 kjúklingaleggir (helst velferðar-/free-range)
1 matskeið jurtaolía
1 matskeið tamarisósa
1 matskeið appelsínusafi, nýkreistur
1 rautt chilli aldin
lítill bútur ferskt engifer
má sleppa: nokkrir dropar Tabasco-sósa

Fræhreinsið og fínsaxið chilli aldinið. Afhýðið og fínsaxið engiferið.

Setjið kjúklingaleggina ásamt öðru hráefni í góðan frystipoka. Lokið pokanum vel og veltið leggjunum í pokanum til að dreifa vel úr maríneringunni. Setjið pokann í skál og látið leggina marínerast í alla vega 2-4 klukkustundir í kæliskáp, helst yfir nótt og snúið þá pokanum nokkrum sinnum.

Þegar kjúklingaleggirnir hafa marínerast skuluð þið dreifa þeim í ofnskúffu með grind. Eldið við 200°C (180° ef blástursofn) í 35 mínútur (þar til safinn er orðinn glær).

Berið fram með, til dæmis, hvítum eða brúnum basmati hrísgrjónum og tamarisósu, og jafnvel með sneiðum af avókadó og rauðri papriku.

Recipe in English
Kjúklingaleggir · Lísa Hjalt