Sýnir færslur með efnisorðinu susan sontag. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu susan sontag. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 12. desember 2019

Lestrarkompan: Didion, Sontag, Hitchens ...

Punktar úr lestrarkompunni: Didion, Sontag, Hitchens ... · Lísa Stefan


Lestrarkompa 2017 ... já, þið lásuð rétt. Satt best að segja veit ég ekki út af hverju ég hef dregið það svona lengi að birta athugasemdir við nokkrar bækur á bókalista sem ég birti í október 2017. Að vísu læt ég alltaf líða nokkuð langan tíma á milli birtingu lista og lestrarkompufærslu sem tengist honum, en líklega sló ég eitthvað met núna í frestunaráráttu. Þessa dagana nýt ég þess annars að lesa alls kyns bækur og hlusta á bókahlaðvörp. Í bunkanum eru engar íslenskar en ég hef fylgst með Kiljunni og veit að jólabókaflóðið í ár er ansi stórt.

Lestrarkompan, № 12 bókalisti, 4 af 9:

South and West: From a Notebook eftir Joan Didion
Lykilorðið hér er minnisbók. Ég hljóp út í bókabúð til að kaupa eintak af þessari þegar nóg hefði verið að rölta. Þetta er þunnt bindi, um 130 síður með stóru letri, og sennilega beint að hörðustu aðdáendunum. Hún byrjar í New Orleans árið 1970, á ferðalagi um bandaríska suðrið, sem fær mestan sess. Didion er eftirtektarsöm og það sem sló mig var hvernig sumar athugasemdir hennar áttu enn við árið 2017.
The isolation of these people from the currents of American life in 1970 was startling and bewildering to behold. All their information was fifth-hand, and mythicized in the handing down.
Ég mæli ekki með þessari fyrir þá sem hafa aldrei lesið neitt eftir Didion. Til að fá rétta mynd af ritsmíðum hennar, veljið frekar The White Album, Slouching Towards Bethlehem eða The Year of Magical Thinking. Sem aðdáandi Didion kremur það næstum hjartað að segja að mér finnst sem útgáfan hafi verið leið til að græða á frægð hennar, að nýja bók hafi vantað sama ár og heimildarmyndin var sýnd, Joan Didion: The Center Will Not Hold (2017). Myndin er eftir leikarann Griffin Dunne sem er bróðursonur Johns Gregory Dunne heitins, eiginmanns Didion. Rithöfundar þurfa lifibrauð eins og aðrir en ég held að margir sem keyptu bókina hafi búist við einhverju efnismeira.

Autumn eftir Ali Smith
Hér höfum við fallegan prósa. Þetta er ein af þessum hugleiðandi skáldsögum án sérstakrar fléttu. Hún fjallar um tengslin á milli Elisabethar og Daniels, vináttu sem byrjar þegar hún sem lítil stelpa tekur viðtal við hann, þá eldri mann og nágranna, vegna skólaverkefnis. Því miður hefur þessi skáldsaga verið tengd við Brexit; vísað er í hana sem fyrstu eftir-Brexit skáldsöguna og fólk virðist halda að hún sé pólitísk. Það er hún ekki. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er í bakgrunni en rekur söguna á engan hátt áfram, sem er full af lífi og list.

Hitch-22: A Memoir eftir Christopher Hitchens
Með fullri virðingu fyrir minningu Hitchens þá verð ég að segja að þessi bók gerði mig afhuga öllum skrifum hans. Ég man að ég stóð með safn af gömlum greinum eftir hann í höndunum í Waterstones þegar ég spottaði ævisöguna, sem hafði alveg farið fram hjá mér, og var svo viss um að þetta yrði góður lestur. Það eina sem stóð upp úr var saga móður hans - hann kallar hana Yvonne, ekki mömmu - sem leyndi því að hún væri Gyðingur (hann var á fimmtugsaldri þegar hann heyrði sannleikann). Það er varla nokkuð í bókinni um konu hans og börn, sem myndar gjá í frásögnina og virkar sjálfhverft. Augljóslega er bókin stútfull af pólitík, og sögum af fólki sem kannski fáir hafa heyrt um en fær svo mikið pláss. Stundum þegar Hitchens æsti sig yfir fólki sem hann var ósammála þá allt að því ranghvolfdi ég augunum. Hann var greinilega ekki Bill Clinton aðdáandi og þegar lesandanum er það fullkomlega ljóst hversu mikið honum er í nöp við hann þá notar Hitchens hvert tækifæri til að koma því að, sem virkar barnalegt. Í sannleika sagt hugsaði ég oft um að hætta lestrinum en las áfram til að geta allavega sagt skoðun mína. Þegar hann lýsti því að gerast bandarískur ríkisborgari og lýsti yfir stuðningi við stjórn Bush og Íraksstríðið þá hafði hann alveg tapað mér. Hitchens lifði greinilega merkilegu lífi sem leiddi hann víða um heim en að mínu mati var hann bara ekki rétti maðurinn til að skrifa þá sögu. Og í ljósi stöðu hans þá grunar mig að annað hvort hafi enginn ritstýrt bókinni eða ekki haft þor til að benda á galla hennar fyrir útgáfu. Hvernig þessi bók náði 5. sæti á listanum „50 bestu æviminningar síðustu 50 ára“ sem gagnrýnendur NYT settu saman er mér óskiljanlegt. (Ef þið hafið áhuga á ritdómi sem snýst um pólitíkina þá mæli ég með þeim sem David Runciman skrifaði fyrir London Review of Books).

Against Interpretation and Other Essays eftir Susan Sontag
Ég var ekki viss hvort ég ætti að segja eitthvað um þessa klassík, en þar sem hún bauð upp á tilvísun í lokin sem á vel við lét ég vaða. Þessar ritgerðir voru skrifaðar á sjöunda áratugnum, á milli 1961 og 1965, og margar þeirra eru úr takt við okkar tíma. Ég get ekki sagt að ég mæli með þessari bók nema þá kannski fyrir stúdenta og aðdáendur Sontag. Ég hef einungis lesið fyrsta hlutann aftur, fyrstu 36 síðurnar sem samanstanda af ritgerðunum „Against Interpretation“ og „On Style“. Í þeirri fyrri bendir hún á: „Það sem er mikilvægt núna er að endurheimta skynfæri okkar. Við þurfum að læra að sjá meira, heyra meira og finna meira.“

[Sjá sér færslur fyrir tvær bækur á listanum: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo;
Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson.]



mánudagur, 30. október 2017

№ 12 bókalisti ... frá Landi hugmyndanna

№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Stefan


Ég er mánuði seinna á ferðinni með № 12 bókalistann - þessi bókastafli lítur vel út, ekki satt? - því skyndilega varð ég upptekin við pökkun. Þá meina ég eins og að flytja, til Þýskalands. Ich bin ein Bremer! Þessi yfirlýsing mín vegur ekki alveg jafn þungt og sú frá Kennedy, Ich bin ein Berliner ... nema fyrir okkur fjölskylduna. Við erum að koma okkur fyrir á nýju heimili og að kanna umhverfið okkar. Mitt fyrsta verk var að ganga frá bókunum og útbúa notalegan lestrarkrók, og svo, til að finnast ég virkilega vera komin heim, að setja upp eldhús og gera fyrstu föstudagspizzurnar. Í Bremen er fjöldinn allur af kaffi- og veitingahúsum og þangað sem ég hef komið hefur mér líkað stemningin, afslöppuð og tilgerðarlaus. Ég hef þegar kíkt í tvær bókabúðir í miðbænum en á eftir að fara á bókasafn. Vegna flutninganna hefur tími til lesturs verið af skornum skammti en ég er búin með fyrstu tvö verkin á listanum og komin vel áleiðis með nokkur önnur. Þrír útgefendur útveguðu bækur fyrir listann og fyrir það ber að þakka: Canongate [1]  , Eland Books [2] og Fox, Finch & Tepper [3]. Ég kem til með að gagnrýna þessar þrjár á blogginu síðar meir.

№ 12 reading list:
1  South and West: From a Notebook  · Joan Didion
2  Stay with Me  · Ayobami Adebayo [1]
3  Travels in a Dervish Cloak  · Isambard Wilkinson [2]
4  What's Eating Gilbert Grape  · Peter Hedges [3]
5  The Unwomanly Face of War  · Svetlana Alexievich
6  Autumn  · Ali Smith
7  Hitch-22: A Memoir  · Christopher Hitchens
8  How Fiction Works  · James Wood
9  Against Interpretation and Other Essays  · Susan Sontag


Yfirleitt eru nokkrar bókasafnsbækur á listunum mínum en í þetta sinn eru bækurnar mínar eigin. Íslensk vinkona mín var svo sniðug að gefa mér í afmælisgjöf veglegt gjafakort í Waterstones, sem ég notaði til að kaupa verkin eftir Didion, Sontag, Wood og Alexievich (ef þið fylgist með á Instagram hafið þið kannski tekið eftir því). Síðar var ég að skoða verk eftir Christopher Hitchens heitinn í bókabúð þegar ég rak augun í æviminningar hans, sem höfðu farið fram hjá mér - svo glöð að ég keypti bókina. Að lesa Autumn eftir Smith þetta haust var upplagt og eitthvað segir mér að ég eigi eftir að lesa hennar nýjustu, Winter, á komandi vetri. Ég hef einnig augastað á nokkrum íslenskum titlum sem ég væri til í að fjalla um á blogginu. Og ekki má gleyma nýrri útgáfu þetta haust sem ég er mjög spennt fyrir: nýjustu bók Patti Smith, Devotion. Skrif hennar eru yndisleg.
№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Stefan


Þessi þrjú verk kem ég til með að gagnrýna síðar:

Bókaútgáfan Canongate sendi frá sér Stay with Me, fyrstu skáldsögu Ayobami Adebayo, sem er ungur rithöfundur frá Nígeríu. Ég ætla rétt að vona að hún sé nú þegar að skrifa aðra bók. Án þess að gefa upp fléttuna langar mig að deila sögulýsingunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn eignist aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“

Fox, Finch & Tepper er bókaútgáfa sem sérhæfir sig í útgáfu skáldverka sem þegar hafa fest sig í sessi og eiga það skilið að vera gefin út að nýju. What's Eating Gilbert Grape eftir Peter Hedges er fullkomið dæmi. Ég hafði bara séð kvikmyndina, sem skartar þeim Johnny Depp, Leonardo DiCaprio og Juliette Lewis, og mér finnst bókin frábær. Ritstíll Hedges er dásamlegur.

Frá útgáfunni Eland Books, sem sérhæfir sig í útgáfu ferðarita, kom nýverið bókin Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson. Hann var á unglingsaldri þegar hann kom fyrst til Pakistan og á meðan Stríðið gegn hryðjuverkum (the War on Terror) stóð yfir starfaði hann þar sem fréttaritari. Ég byrjaði ekki á bókinni fyrr en almennilegt netsamband var komið í nýja húsið því ég vildi geta flett upp stöðum og ýmsum atriðum. Góð ferðaskrif stuðla einmitt að slíku. Ég held að Wilkinson eigi eftir að kenna mér heilmikið um Pakistan og menningu landsins.

Bis bald!