Sýnir færslur með efnisorðinu verönd | sólpallar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu verönd | sólpallar. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 5. júní 2014

Innlit: Hamptons strandkofi í skandinavískum stíl



Það er nú ekki oft sem maður rekst á innlit frá Hamptons-svæðinu sem er jafn hlýlegt og þetta því yfirleitt er verið að sýna glæsivillur ríka fólksins þar sem íburður virðist vera kjörorðið. Félagarnir sem reka hönnunarfyrirtækið Heiberg Cummings Design eru eigendur þessa strandkofa sem þeir hafa innréttað af smekkvísi í skandinavískum stíl. Hlutlausir tónar eru brotnir upp hér og þar með mildum litum, eins og sjá má í eldhúsinu þar sem stendur grænmáluð gamaldags eyja. Svæðið allt um kring er dásamlega fallegt og ekki amalegt að sitja úti á verönd og fylgjast með bátsferðum. Það er nokkuð ljóst að heir félagar eiga ekki í vandræðum með að hlaða batteríin á þessum stað þegar borgarlífið í New York verður aðeins of stressandi.


myndir:
Anastassios Mentis + Elisabeth Sperre Alnes fyrir Interiør Magasinet

mánudagur, 3. mars 2014

Innlit: brúnsteinshús endurhannað af John B. Murray



Ég er alltaf svolítið veik fyrir fallegum brúnsteinshúsum. Þetta var byggt upp úr 1890 og var endurhannað af arkitektinum John B. Murray. Það kemur hvergi fram á vefsíðunni hvar húsið er en mig grunar að þetta sé í New York. Það var einkum verönd hússins sem heillaði mig upp úr skónum.


Ég get ekki sagt að húsgögnin séu minn stíll en flygill á heimilum skapar alltaf vissa stemningu. Eins og sést þá er ekki mjög vítt til veggja, stofurnar virðast litlar og eldhúsið virkar svolítið þröngt (veröndin bætir upp fyrir það).

Stíllinn á húsgögnunum er ekki í höndum arkitektsins en ég vildi að eigendurnir hefðu valið önnur húsgögn fyrir setustofuna hér að neðan. Ég er ekki hrifin af þeim stíl þegar áklæði á sófum og stólum ná niður á gólf, eru með pilsi eins og það kallast á ensku. Fyrir mér eru slík húsgögn tabú í litlum rýmum. Þarna hefði ég valið að láta sjást undir sófann og stólinn til að láta rýmið virka stærra og ég hefði valið ljósari áklæði. En til að segja eitthvað jákvætt þá finnst mér mynsturmottan flott, hún bara nýtur sín ekki með þessum húsgögnum.



miðvikudagur, 19. júní 2013

Garðhönnun: frönsk áhrif í garði í Alabama


Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá þennan franska glugga með útsýni út í garðinn á vefsíðu Traditional Home. Ég hugsaði um þessa mynd og þennan garð í allan dag á meðan ég var að vinna í mínum eigin, sem er heldur tilþrifaminni og ekki eins litríkur (kemur allt rólega, núna eru rósirnar fyrir framan hús loksins byrjaðar að blómstra!).


Í hinu sögulega hverfi Redmont í Birmingham, Alabama stendur hús frá árinu 1926 sem er í eigu innanhússhönnuðarins Mary Finch og eiginmanns hennar. Þau keyptu húsið árið 2004 og leituðu til garðyrkjumeistarans Norman Kent Johnson til að fá aðstoð við að hanna garðinn upp á nýtt. Hann var berangurslegur og í honum var aðallega gamalt og ofvaxið bláregni sem sárlega þurfti að klippa til og snyrta. Áður en þau keyptu húsið þá hafði Mary ekki verið mikil garðyrkjukona en eins og segir í greininni „stóðst hún ekki mátið að vinna með ómálaðan striga.“ Franskir garðar voru henni innblástur eftir að hafa skoðað vínekrur í Frakklandi og ferðast um Provence-hérað. Hún er einlæg þegar hún segir hlæjandi: „Sennilega er það franskasta við þennan garð allt það magn af frönsku víni sem hér hefur verið deilt.“


Að ofan sjáið þið fjólubláa salvíu og glæsilegar svalir þar sem þau njóta þess að drekka kaffið sitt á morgnana á meðan þau dást að garðinum og útsýninu. Í dag hljómar Mary eins og sannur garðunnandi þegar hún segir: „Það eru alltaf einhverjar breytingar ... Það er spennandi að sjá nýtt lauf myndast, blöð breytast eða blóm sem er við það að blómstra.“


Plantan hér að ofan er rauð verbena, sem ég hef aldrei séð áður. Hún gengur einnig undir nafninu ,Voodoo Star' eða 'Vúdú-stjarna' og laðar að sér fiðrildi, fulga og býflugur. Rauða blómið fyrir ofan hana kallast Schizanthus.

Hér fyrir neðan má sjá plöntu sem kallast ,Purple Flame' eða ,Fjólublár logi' (Cyclamen hederifolium) og englastyttur í miðju formlega garðsins (enska: parterre).


Útsýnið baka til er stórkostlegt, en frá svölunum má njóta formlega garðsins og hinum megin við dalinn blasir við Appalachian-fjallgarðurinn. Það voru Mary og garðyrkjumeistarinn Norman Kent Johnson sem bættu formlega garðinum við, svona til að halda franskri hönnun á lofti. Horn hans mynda fjórir stórir vasar sem um leið afmarka garðinn.


Í garðinum er opin verönd sem þau nota gjarnan þegar gesti ber að garði því í húsinu sjálfu er ekki formleg borðstofa. Á frístandandi vegg hanga luktir sem gefa frá sér milda birtu þegar sólin sest.


Ég notaði ekki allar myndirnar úr greininni í þessa færslu en ég lýk þessu með steinlögðum stíg og gömlu járnhliði sem hefur yfir sér franskan blæ.


myndir:
Jean Allsopp fyrir Traditional Home