laugardagur, 1. apríl 2017

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt


Mótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt
Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt
Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Mynstrið Ayesha Paisley er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt
Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum
eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Hjalt


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.