mánudagur, 17. apríl 2017

Fæðingardagur Karen Blixen

Fæðingardagur Karen Blixen · Lísa Hjalt


Gleðilega páska! Í dag er fæðingardagur dönsku skáldkonunnar Karen Blixen (f. 17. april 1885, d. 7. september 1962), sem skrifaði margar sögur undir skáldanafninu Isak Dinesen (Babette's Feast and Other Stories, Shadows on the Grass, Seven Gothic Tales, Winter's Tales og Last Tales). Hún var frábær sögumaður, best þekkt fyrir bók sína Out of Africa (Jörð í Afríku), sem oft er lýst sem ljóðrænni hugleiðingu um líf hennar í Kenýa þar sem hún átti búgarð, kaffiplantekru (í bókinni er engin tímaröð). Flestir þekkja til Blixen vegna kvikmyndar Sydney Pollack: Kvikmyndin kann að gefa ykkur hugmynd að lífi Blixen í stórkostlegu landslagi Afríku, en aðeins með því að lesa bókina kynnist þið hinu sanna andrúmslofti. Fyrir mér er bókin lýsing á Afríku sem ég kem aldrei til með að upplifa. Löngu horfnu tímabili.

Í minnisbók hef ég skrifað tilvísun eftir Blixen. Spurð að því hvernig saga hefst fyrir rithöfund svaraði hún á dönsku:
Det begynder med atmosfære, et landskab, der for mig er vidunderligt skønt, og så – så kommer menneskene pludselig ind i billedet. Med det er de der, de lever, og jeg kan lade dem leve videre i bøgerne.
Það þarf varla að þýða þetta en hún er í raun að segja að fyrst sé það andrúmsloft, landslag, sem henni finnst dásamlegt og svo skyndilega kemur fólk inn í myndina. Þar með er það þar, lifir, og hún getur leyft því að lifa áfram í bókunum. (Ég fann tilvísunina á FB-síðunni Karen Blixen Museet.)

Í febrúar fengu aðdáendur Blixen frábærar fréttir þegar tilkynnt var um gerð sjónvarpsþáttaraðar eftir bók hennar Out of Africa.

mynd mín | myndin af Karen Blixen er úr bókinni Letters from Africa 1914-1931



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.