Sýnir færslur með efnisorðinu bast. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bast. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 22. mars 2017

Nellikur á skrifborðinu mínu



Um daginn vorum ég og sonurinn að borða morgunmat þegar hann spurði mig hver væru uppáhaldsblómin mín. Án umhugsunar svaraði ég nellikur (á borðinu var vasi með gulum). „Af hverju?“ spurði hann. „Af því þær eru svo endingargóðar,“ sagði ég „þær lifa svo lengi.“ Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég svarað hvítir túlipanar eða bóndarósir (sem ég kalla alltaf peóníur). Þegar ég hugsa um það þá get ég varla gert upp á milli þessara þriggja, en nellikur eru blóm sem ég kaupi oftast (Spánverjar vissu hvað þeir sungu þegar þeir völdu rauða nelliku sem þjóðarblóm). Ég tók þessa mynd í morgun þegar ég var að njóta lattebolla með múskati. Nellikur og bókastaflar eru algeng sjón á skrifborðinu mínu. Njótið dagsins!



miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Stefan


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.
[Uppfærsla: Kláraði ekki bókina og get því miður
ekki mælt með henni - sjá lestrarkompu.]


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af @lisastefanat frá því í gær)



fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Náttúrulega bastkistan mín


Þessa náttúruleg efni færslu skrifa ég í samvinnu við Wovenhill, enskt fyrirtæki í Stratford-upon-Avon sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti. Þau sendu mér þessa bastkistu sem ég nota sem hliðarborð í setustofunni.


Ég hafði verið að leita að hliðarborði fyrir setustofuna, einhverju sem væri praktískt og létt og helst einhverju sem væri um leið góð hirsla. Þessi bastkista var akkúrat það sem mig vantaði. Eins og sést á myndinni þá er hún ansi stór. Ég get geymt í henni teppi og aðrar vefnaðarvörur og líka hluti sem við erum ekki að nota dagsdaglega. Ofan á lokinu geymi ég lampa og bækur (ekki með á myndinni er bakki sem ég tylli á lokið þegar ég fæ mér kaffi í setustofunni).

Wovenhill býður upp á fjórar gerðir af bastkistum, Hatton, Marlow, Twyford og Walton, sem eru fáanlegar í þremur stærðum: mið, stór og extra-stór (þau eru með fleiri tegundir af kistum, ekki bara úr basti). Málin á kistunum eru mismunandi eftir hvaða tegund er valin og allar þær upplýsingar er að finna á vefsíðu þeirra. Kisturnar eru líka seldar í settum. Fáanlegir litir eru náttúrulegur, brúnn, mokka og hvítþveginn - fer bara eftir því hvaða tegund er valin.

• höldur í hliðunum og lok sem hægt er að fjarlægja
• beinhvítt bómullaráklæði sem hægt er að fjarlægja
• náttúrulegt efni: bast (rattan)
Ég tók þessa mynd til að sýna ykkur áferðina á bastkistunni.

WOVENHILL
Wovenhill er fyrirtæki með aðsetur í bænum Stratford-upon-Avon (fæðingarstaður William Shakespeare) í Warwickshire, sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti og býður líka upp á gott úrval af hirslum og öðrum vörum sem hjálpa til við skipulag á heimilinu - körfur, einingar og þvottakörfur sem unnar eru úr basti, sægrasi eða vatnahýasintum (water hyacinth).

Wovenhill | Unit 17, Goldicote Business Park, Banbury Road, Stratford upon Avon, Warwickshire, CV37 7NB
Sími: +44 1789 741935 | Netfang: sales@wovenhill.co.uk

myndir:
Lísa Hjalt | í samvinnu við Wovenhill (orð og skoðanir alfarið mín eigin)