Sýnir færslur með efnisorðinu vín. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vín. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 29. júlí 2021

№ 28 bókalisti | Oh, Vienna ...

№ 28 bókalistinn: Bókabunki með Matisse í baksýn · Lísa Stefan


Þá er komið að nýjum bókalista. Mér finnst eitthvað afskaplega hrífandi við þennan bókabunka. Ég vissi ekki hvaða bók ég ætti að byrja á (er að að venja mig af því að lesa margar í einu) en valdi endanlega Max Perkins eftir A. Scott Berg, sem hlaut National Book Award verðlaunin árið 1980. Þetta er ævisaga eins mikilvægasta ritstjóra 20. aldar, bók um bækur og listina að skrifa. Perkins ritstýrði m.a. þeim F. Scott Fitzgerald, Ernest Hemingway, Thomas Wolfe og Marjorie Kinnan Rawlings. Vitandi að The Great Gatsby varð klassík er það allt að því með ólíkindum að lesa bréfin sem Perkins bárust frá Fitzgerald fyrir útgáfu hennar árið 1925, full efasemda, einkum um titilinn. Áhyggjur hans reyndust því miður sannar því bókin seldist illa í samanburði við hans fyrstu, This Side of Paradise (1920). Ef elsku karlinn - old sport - hefði nú bara vitað hver örlög hennar yrðu.

№ 28 bókalisti:

1  Essayism  · Brian Dillon
2  This Little Art  · Kate Briggs
3  Forty-one False Starts: Essays on Artists and Writers  · Janet Malcolm
4  Shuggie Bain  · Douglas Stuart
5  Unquiet  · Linn Ullmann
6  Max Perkins: Editor of Genius  · A. Scott Berg
7  The Lost: A Search for Six of Six Million  · Daniel Mendelsohn

Ensk þýðing: 5) Unquiet: Thilo Reinhard

Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg · Lísa Stefan
Bókabúðin Shakespeare & Company í Vínarborg

Í síðustu bókalistafærslu sagði ég ykkur frá þeim takmörkunum sem við búum við í Austurríki vegna kófsins. Sumarið væri öðruvísi og líklega meira um lestarhopp ef hægt væri að skella sér á kaffihús eða út að borða hvenær sem er. En hvergi er hægt að setjast niður án vottorðs um neikvæða skimun og því þarf að plana allt með fyrirvara. Nýverið kom elsta dóttirin ásamt hollenskum kærasta í heimsókn og við eyddum m.a. degi í Vínarborg. Við fórum á Belvedere-safnið, heilsuðum Napóleon, eða Napí eins og við kölluðum hann, og störðum hvað lengst á Kossinn hans Klimts. Þrömmuðum svo um borgina, nutum hádegisverðar í almenningsgarði og enduðum í gyðingahverfinu þar sem enska bókabúðin Shakespeare & Company er til húsa, nánar tiltekið á Sterngasse. Ég elska þetta hverfi í Vín þannig að ég leyfi félögunum í Ultravox að eiga síðasta orðið, Oh, Vienna ...



fimmtudagur, 26. september 2019

Gæðastundir í Austurríki

Landslag við vatnið Traunsee, Austurríki · Lísa Stefan


Ég hef ég ekki lagt það í vana minn að blogga myndum sem ég deili á Instagram, fyrir utan eina og eina, en síðustu mánuði hefur tíminn til að blogga verið takmarkaður og mikið hefur gerst: Við fluttum nýverið til Austurríkis, báðar dæturnar hófu háskólanám erlendis á þessari haustönn og ég sjálf ákvað að skipta um gír: ég byrjaði í meistaranámi í safnafræði sem Háskóli Íslands býður upp á í fjarnámi. Kennslubækur, fyrirlestrar og verkefni halda mér upptekinni en mér fannst bloggið þurfa á uppfærslu að halda og ákvað að nota myndir úr safninu, af Traunsee-svæðinu og bókabúð í Vín ásamt námstengdum kyrralífsmyndum.

Ég var að koma í fyrsta sinn til Traunsee-svæðisins og gleymi ekki augnablikinu þegar vatnið blasti við mér. Landslagið er svo fallegt að mann verkjar í hjartað. Við keyrðum í gegnum lítil þorp á sólríkum sunnudegi, snæddum hádegisverð við vatnið í Altmünster og þar á eftir fórum við til Gmunden. Eilítið síðar var okkur boðið í garðveislu í Gmunden þar sem við sátum í hlíð undir berum himni með vatnið í augnsýn, og Traunstein-fjallið svo nálægt að það var sem við gætum teygt út höndina og snert það.
Bókin „I Remain in Darkness“ eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo) · Lísa Stefan


Ég elska að finna bækur frá útgefendum í póstkassanum. Starfsfólk Fitzcarraldo Editions var svo elskulegt að senda mér I Remain in Darkness eftir Annie Ernaux sem kom út í Bretlandi í síðustu viku (ensk þýðing úr frönsku eftir Tanya Leslie). Ég lýsti bókinni með þessum hætti á Instagram: „Þetta er frásögn höfundar um þá reynslu að missa móður sína úr Alzheimer. Þessi stutta bók er kröftug, full af hráum, sársaukafullum tilfinningum. Stundum þarf ég að taka mér hlé frá lestrinum til að meðtaka eina setningu, eða aðeins eitt orð.“ Bókin verður á næsta bókalista.
Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan


Eftir að hafa fylgt elstu dótturinni á flugvöllinn í Vín einn morgun nýtti ég restina af deginum í borginni. Það var orðið ansi langt síðan ég kom til Vínar og mitt fyrsta verk var að skella mér í neðanjarðarlestina. Ég fór út á Schwedenplatz og rölti í áttina að Sterngasse í Gyðingahverfinu, þar sem má finna bókabúð sem selur enskar bækur, Shakespeare & Co. (ekki útibú frá þeirri í París). Búðin er gamaldags í útliti og lítil en úrval bóka er merkilega gott.

Bókabúðin Shakespeare & Co., Sterngasse, Vín · Lísa Stefan
Ensk bókabúðin Shakespeare & Co. á Sterngasse í Vín

Ég rölti aðeins um hverfið, síðar eftir götunum Fleischmarkt og Postgasse í austurátt. Allt iðaði af lífi, alls staðar sat fólk úti í sólinni á litlum kaffi- og veitingahúsum. Yndisleg stemning, einkar evrópsk, hvernig svo sem það kann að hljóma. Ég greip sushi og settist á bekk í Stadtpark undir skugga trés og fylgdist með mannlífinu. Ég tók svo stefnuna í suðurátt að Belvedere-höllinni, spókaði mig aðeins um og naut fegurðarinnar. Í þetta sinn fór ég ekki á Belvedere-safnið; ég hef komið þangað áður og hafði lofað eldri dótturinni að fara með henni einn daginn að kíkja á Kossinn eftir Gustav Klimt og fleiri verk.
Námsmannalíf · Lísa Stefan


Þar sem námið mun halda mér upptekinni gefst minni tími fyrir annan lestur og bókamyndatökur. Bráðum ætla ég þó að deila nýjum bókalista. Ég er með nokkrar hugmyndir um hvernig ég get haldið blogginu meira lifandi á meðan ég er í námi og ein er að byrja með nýjan flokk með bókarkápum. Mig langar að gefa sumum kápum varanlegan sess á blogginu, einkum til að hrósa fallegri bókahönnun. Svo eru nokkrar færslur sem mér finnst ég skulda, þá aðallega lestrarkompufærslur. Ef ykkur finnst lítið gerast á blogginu þá getið þið alltaf kíkt á @lisastefanat en þar deili ég aðallega bókamyndum af og til.