Sýnir færslur með efnisorðinu julian barnes. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu julian barnes. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 7. mars 2017

Ár af lestri - 2. hluti

Lestrarkompan: ár af lestri - 2. hluti · Lísa Stefan


Eigum við að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í færslunni Ár af lestri - 1. hluti, þar sem ég setti niður hugsanir mínar um verk sem voru á bókalistunum mínum í fyrra? Eins og ég tók fram þar þá minnist ég ekki á bækur sem ég hef þegar fjallað um og þær sem ég endurlas. Bókalistarnir fara bara eftir skapi hverju sinni og þær bækur sem enda á þeim hafa verið í lengri eða skemmri tíma á langar-að-lesa listanum mínum (sem verður sífellt lengri og lengri!). Nokkrar bækur ollu mér vonbrigðum en það mátti svo sem búast við því. Hér á eftir er álit mitt á nokkrum sem voru á № 4, 5 og 6 bókalistunum:

№ 4 bókalisti, 4 af 10:

Siddhartha eftir Hermann Hesse
Þetta klassíska rit er líklega áhugaverðara fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin á andlegri braut eða þekkja ekki til búddisma og austrænnar heimspeki. Lesturinn gerði lítið fyrir mig og ég kláraði bara bókina til þess að geta hakað við hana á listanum mínum. (Fyrir þá sem vilja fræðast um búddisma mæli ég frekar með almennu riti eftir kennara í fræðunum. Til að gefa ykkur hugmyndir þá eru hérna nokkrir sem ég las á ákveðnu tímabili í lífinu: Thich Nhat Hanh, Joseph Goldstein, Jack Kornfield, Sharon Salzberg og Pema Chödrön.)

The Summer Book og A Winter Book eftir Tove Jansson
Þegar ég deildi listanum hafði ég lesið tvær sögur í þeirri síðari en var komin langt inn í þá fyrri, sem mér fannst yndisleg. Sögusafnið í The Summer Book er sterkara og sögurnar tengjast betur saman, einkum vegna sömu eftirminnilegu persónanna.

In Other Rooms, Other Wonders eftir Daniyal Mueenuddin
Leið eins og ég væri með fjársjóð í höndunum þegar ég hóf lesturinn en svo varð sögufléttan í þessum lauslega tengdu smásögum fyrirsjáanleg. Það er svo mikil spilling og óréttlæti á síðunum að ég var farin að þrá að lesa eitthvað meira upplífgandi. Ég var að vonast til að þessi bók kenndi mér meira um pakistanska menningu, og vegna allra jákvæðu dómanna sem bókin fékk bjóst ég við einhverju ríkara.

[Önnur af listanum: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking (sjá sér bloggfærslu).]
Lestrarkompan: ár af lestri - 2. hluti · Lísa Stefan


№ 5 bókalisti, 4 af 7:

A Time for Everything eftir Karl Ove Knausgård
Ekkert að skrifunum en ég ákvað að klára ekki bókina einfaldlega vegna þess að ég var ekki í skapi fyrir hana. Þetta er bók um engla og hann breytir sjónarsviði biblíusagna; fer með okkur úr eyðimörkinni í norskt landslag. Einn daginn held ég kannski lestrinum áfram en fyrst myndi ég vilja lesa að nýju upprunalegu sögurnar.

White Teeth eftir Zadie Smith
Bókin sem mig langaði svo að þykja góð og mæla með. Ég hef ekki enn klárað hana. Mér líkar ritstíllinn en persónurnar vekja ekki áhuga minn. Stundum tek ég hana upp - með semingi, verður að viðurkennast - og eftir nokkrar síður gefst ég upp. Mér fannst perónusköpun hennar í bókinni NW miklu áhugaverðari. Í þeirri bók gerir Smith tilraunir með skáldsöguformið sem er kannski ekki öllum að skapi. Ég átti svolítið erfitt með fyrsta hlutann af NW en þegar ég kom í annan hlutann þá gat ég varla lagt hana frá mér.

Purple Hibiscus eftir Chimamanda Ngozi Adichie
Yndislegur frásagnarstíll og persónusköpun í þessu fjölskyldudrama sem stundum sjokkeraði mig - faðirinn er trúarofstækismaður sem beitir heimilisofbeldi. Fyrir viðkæma lesendur langar mig að bæta við að þarna er líka fegurð og von. Adichie hefur þann hæfileika að geta lýst skelfilegum atburði en í kjölfarið virðast fallegar setningar hennar bæði róa og græða. Þessi bók hefur ekki farið úr huga mér síðan ég kláraði hana. Adichie er auk þess í miklu uppáhaldi.

[Önnur af listanum: Avid Reader eftir Robert Gottlieb (sjá sér bloggfærslu).]

№ 6 bókalisti, 4 af 8:

The Noise of Time eftir Julian Barnes
Mér fannst fyrstu tveir hlutarnir góðir en held að þetta sé ein af þessum bókum sem ég mun gleyma. Barnes ímyndar sér líf tónskáldsins Dmitri Shostakovich á tímum Stalíns. Bókin gerði lítið fyrir mig og að lestri loknum tók ég bara upp þá næstu.

All We Shall Know eftir Donal Ryan
Ég minntist á í færslunni að mér líkaði ritstíll hans. Hlutar þessarar bókar eru svolítið myrkir; ég held að ég hafi stundum haldið niðri í mér andanum. Mér fannst persónan Mary stela senunni; hún var miklu áhugaverðari en aðalpersónan Melody. Galli bókarinnar er endirinn. Allt er mögulegt í skáldskap en sögulokin hér gengu ekki upp (get ekki sagt meira án þess að gefa þau upp). En Ryan er höfundur sem er kominn á listann minn og mig langar að lesa fyrri verk hans.

Boyhood Island: My Struggle 3 eftir Karl Ove Knausgård
Af þeim þremur My Struggle-bókum sem ég hef lesið finnst mér þessi vera hans sísta. Styrkleikar hennar eru sú mynd sem hann málar af föðurnum sem hann hataði (skiljanlega) og samskiptum fjölskyldunnar. Veikleikarnir eru alltof margar endurteknar lýsingar á leikjum við krakka í nágrenninu og skólafélaga. Þessi bók hefði getað verið 100 síðum styttri og betri.

The Return eftir Hisham Matar
Ein af þessum bókum sem ég hlakkaði til að lesa en fyrir utan fyrstu fimm kaflanna varð ég fyrir vonbrigðum. Ritstíll þessara fyrstu fimm kafla, sem er ólíkur hinum, var mér að skapi og það var ekki fyrr en eftir lesturinn að ég vissi að þeir birtust að hluta til í grein í tímaritinu The New Yorker, sem kallast „The Return“, en hana skrifaði Matar árið 2013, fyrir útgáfu bókarinnar. Svo ég leyfi mér að vera alveg hreinskilin, lesið bara greinina.

[Önnur af listanum: The Makioka Sisters eftir Jun'ichirō Tanizaki (sjá sér bloggfærslu).]

Þá er þetta komið, það sem ég hef að segja um bækurnar á bókalistum ársins 2016. Í ár ætla ég að hafa annað fyrirkomulag á þessu og deila hugsunum mínum fyrr, en ég ætla samt að láta einhvern tíma líða á milli þess sem ég birti bókalista og áliti mínu á bókunum á honum.



föstudagur, 9. desember 2016

№ 6 bókalisti | Bókmenntaleg póstkort

№ 6 bókalisti:  James Wood, Jun'ichirō Tanizaki, Karl Ove Knausgård ... · Lísa Stefan


Þegar finna má um þúsund bækur á óska- og langar-að-lesa-listanum þá er ekki auðvelt að forgangsraða þeim, en ég er alveg viss um að fyrstu tvær á listanum verði undir trénu þessi jól. Mig langaði að þakka einum bókabloggara fyrir að hafa mælt með bókinni eftir Carrión en glataði hlekknum þegar harði diskurinn minn hrundi fyrir nokkrum vikum síðan. Bókin er löng ritgerð um hvers vegna bókabúðir skipta máli og hann fer með lesandann á ferðalag um heiminn og heimsækir ýmsar bókabúðir, eins og Shakespeare & Company í París, Strand í NY og Librairie des Colonnes í Tangier, til að nefna nokkrar. James Wood er fastur penni og bókagagnrýnandi hjá The New Yorker og bókin hans er blanda æviminninga og gagnrýni. Hér er síðasti bókalistinn 2016:

1  Bookshops  · Jorge Carrión
2  The Nearest Thing to Life  · James Wood
3  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki
4  The Noise of Time  · Julian Barnes
5  All We Shall Know  · Donal Ryan
6  A Man in Love: My Struggle 2  · Karl Ove Knausgård
7  Boyhood Island: My Struggle 3  · Karl Ove Knausgård
8  The Return: Fathers, Sons and the Land in Between  · Hisham Matar


Í minnisbókina var ég byrjuð að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum bókalista til að deila síðar. Mig hefur lengi langað til að lesa bók Tanizaki og gat ekki beðið lengur þegar ég áttaði mig á því að ég gat pantað eintak á bókasafninu. Ég hef ekki lokið lestri á bókum Zadie Smith á síðasta bókalista en er þegar byrjuð að lesa Barnes og Ryan. Sá síðarnefndi er írskur höfundur sem ég uppgötvaði bara nýlega og mér líkar ritstíll hans. Ég er ansi spennt að halda áfram að lesa sjálfsævisögulegu skáldsögurnar hans Karl Ove Knausgård. Þegar ég kláraði fyrstu My Struggle bókina langaði mig að fara beint á bókasafnið að sækja þá næstu. Allt það jákvæða sem hefur verið sagt og skrifað um hana reyndist satt og ég held að næstu tvær standi undir væntingum mínum. Ég hlakka til að lesa The Return, æviminningar líbíska skáldsins Hisham Matar. Hann var bara nítján ára þegar föður hans var rænt í Líbíu, sem var þá undir stjórn Gaddafi, og það er líklegt að hann hafi dáið í fangelsi í Trípólí. Fyrir mörgum árum síðan las ég fyrstu skáldsögu Matar, In the Country of Men (Í landi karlmanna í ísl. þýð.). Ég man ekki lengur smáatriðin en man að hún hróflaði við mér.


„Give me books, fruit, French wine, fine weather and a little music.“ Þessar línur frá John Keats eru á póstkorti hérna á borðinu. Það er hannað af Obvious State, stúdíói í New York sem hannar pappírsvörur og aðra muni fyrir hina bókmenntahneigðu. Ertu að leita að jólagjöf fyrir bókaunnandann? Leitinni lýkur í vefverslun þeirra þar sem má finna minnisbækur, bókamerki, taupoka og fleira. Þau gefa núna sérstakan hátíðarafslátt. Ég fékk send fjögur póstkort sem voru óvænt gjöf, þakklætisvottur fyrir það að hafa bætt #osfall myllumerkinu þeirra við eina bókamynd á @lisastefanat.
Leskrókurinn í borðstofunni · Lísa Stefan


Mér finnst gaman að tengjast lesendum bloggsins og það er skemmtilegt að fá tölvupóst frá ókunnugu fólki sem hefur kannski verið hrifið af bók sem ég deildi. Síðan ég fór að birta bókalistana hef ég fengið nokkra tölvupósta með spurningum eins og: Líkaði þér þessi bók? Ætlarðu að fjalla um þessa? Í svörum mínum bendi ég á þetta: Bókalistarnir er aðallega á blogginu vegna þess að ég er mikil bókakona og er bara að gefa fólki hugmyndir að lesefni. Það stendur ekki til að skrifa ritdóm um hverja bók á bókalistunum. Greinilega eru sumir lesendur forvitnir eða hafa áhuga á að vita hvað mér finnst þannig að héðan í frá er hugmyndin sú að skrifa kannski nokkrar línur í athugasemdakerfi hverrar bókalistafærslu, eftir að hafa klárað allt á listanum. Ég ætla að hugsa þetta aðeins.

Ég hef notið þess að lesa bækurnar á listum þessa árs með örfáum undantekningum. Kannski mun ég koma þeim hugsunum í orð í sér færslu. Leyfið mér að hugsa það líka.

Einn lesandi spurði mig hvaða leskrókur væri í uppáhaldi. Ég á nokkra en þessa dagana hef ég aðallega verið að lesa í borðstofunni á meðan ég nýt langs hádegisverðar. Ég smellti mynd af algengri sýn: Á þeim degi var það pasta, í dag var það hummus og pítubrauð.