miðvikudagur, 10. júlí 2013

Nýjar bækur, bleikar bóndarósir og bloggfrí

Nýjar bækur, bleikar bóndarósir og bloggfrí · Lísa Hjalt


Á morgun á ég afmæli og ákvað í dag að deila með ykkur innihaldi afmælisbókapakkans míns (árleg hefð) og svo er ég farin í bloggfrí. Börnin eru að klára skólann og kominn tími til að njóta sólarinnar sem skín svo glatt á okkur þessa dagana. Kvöldunum kem ég til með að eyða út á svölum með bækur og ef það rignir þá verð ég á legubekknum (nýju bækurnar líta vel út á borðinu í setustofunni).


Í pakkanum voru þrjár innbundnar bækur sem voru efstar á óskalistanum og sóma sér vel á stofuborðum. Ég ljómaði þegar ég tók þær upp úr kassanum og hreinlega faðmaði þær að mér - hverja einustu bók í kassanum.

· Interiors Atelier AM eftir Alexandru & Michael Misczynski - sjá nánar neðar
· Country eftir Jasper Conran - ég sagði ykkur aðeins frá þessari bók í bloggfærslunni ,vorið er komið'. Það er heilmikill texti í bókinni sem ég hlakka til að lesa og svo eru afskaplega fallegar ljósmyndir eftir Andrew Montgomery, sem er einn af mínum uppáhaldsljósmyndurum
· Travels with Myself and Another eftir Mörthu Gellhorn - undirtitill bókarinnar er Five Journeys from Hell en Gellhorn ákvað að deila sínum bestu hryllingsferðasögum. Kannski eru einhverjir sem þekkja hana bara sem eina af eiginkonum Ernest Hemingway en hún var frábær ferðasöguritari. Í ritdómi The Times stendur: „She is incapable of writing a dull sentence.“ Á íslensku: hún er ófær um að skrifa leiðinlega setningu.
· Cheerful Weather for the Wedding eftir Juliu Strachey - ég uppgötvaði þessa nóvellu í gegnum bloggið Style Court sem er skrifað af Courtney Barnes, þegar hún talaði um kvikmyndina sem gerð var eftir sögunni
· Out of Africa eftir Karen Blixen - þarf varla að segja meira um hana, ég minntist á hana í einni 'eftirminnilegt sumar' færslu og ef þið fylgist með ensku útgáfu bloggsins þá hef ég minnst á Blixen og bókina oftar
· Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo - sjá nánar neðar
· Little White Lies (2010) - ég varð að fá eitthvað að horfa á og langaði í þessa frönsku mynd í leikstjórn Guillaume Canet í safnið mitt


Mér finnst eins og mér beri skylda til að segja ykkur örlítið frá bókinni Interiors Atelier AM eftir tvo af mínum uppáhaldshönnuðum, en það eru hjónin Alexandra og Michael Misczynski. Það er ekki mikill texti í bókinni, aðallega myndatextar; François Halard ljósmyndaði fimm heimili. Þetta er stór innbundin bók (248 síður) þar sem „ljóðrænar“ myndir Halard, sem sýna ýmist rými eða smáatriði, virkilega fá að njóta sín. Það er mikið um hráan stíl sem heillar mig en það sem ég hjó sérstaklega eftir var hversu persónuleg þessi fimm heimili eru.

Í formála að bókinni eftir belgíska antíkgripasalann og hönnuðinn Axel Vervoodt - einnig í miklu uppáhaldi hjá mér - stendur (ég er ekkert að þýða þetta yfir á íslensku):
Michael and Alexandra Misczynski have an eye for discovery. Often before anyone else, they see the intrinsic value of certain pieces of furniture and art that I, too, love very much—for their authenticity, humility, and discreet, honest strength. This includes art from all genres, from all parts of the world, and from all sorts of periods, as long as it is honest and real.


Síðar í formálanum skrifar Vervoodt:
A sense of proportion dominates my taste, and that's also what drives Michael and Alexandra. I try as much as possible to avoid the purely decorative, but I do want to achieve an effect of harmony among the architectural environment, the furnishings, and the works of art and antique objects. A house and a collection of art are always a portrait of the owners, and in the end, the people living in the house must be able to find more of themselves.



Ef ykkur langar að skoða fleiri myndir úr bókinni þá hef ég deilt nokkrum á bæði bloggin: útistofa og eldhús á heimili hönnuðanna í Los Angeles og nokkrar myndir úr bókinni. Það má einnig finna myndir á borðum mínum á Pinterest. Opnan að neðan sýnir lestrarherbergi á heimili í Las Vegas (hef póstað innliti á íslenka bloggið) og þessi sófi heillar mig upp úr skónum.


Ég hef þegar sagt ykkur frá bókinni Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo en ég varð að deila þessari opnu. Ég hef sagt það áður að þessi bók er svo falleg. Blómaskreytingarnar eftir Nicolette Owen fanga mann og Ngo festir þær fallega á filmu. Ég fæ ekki nóg af þessari bók; hún er endalaus uppspretta innblásturs.


Ég ætla að segja ykkur síðar frá Country eftir Jasper Conran. Ég vona að sumarið leiki við ykkur. Ég á eftir að pinna með kaffinu en ég verð svo aftur hér á blogginu miðvikudaginn 24. júlí.

À bientôt!

myndir mínar | úr bókunum Interiors Atelier AM eftir François Halard og Bringing Nature Home eftir Ngoc Minh Ngo

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.