þriðjudagur, 18. mars 2014

Hattar í safnið



Ég ætlaði að fjalla um hausttískuna í dag og kíkja á tískupallana í Mílanó og París, en hugsanir um sumarhatta létu mig ekki í friði þannig að ég læt það bíða. Ég var að skoða hatta á netinu um helgina og ég veit ekki hversu mörgum ég bætti á óskalistann. Auðvitað kaupi ég þá ekki alla en mér finnst alveg tilvalið að bæta einum og einum í safnið. Ég veit að hatturinn á myndinni hér að neðan er ekki sumarhattur en mér finnst hann smart og myndin er líka flott þannig að hann fær að fljóta með.


Það er hægt að fá fína hatta í verslunum eins og H&M og ZARA sem kosta ekki mikið. Í ár er ég einkum að spá í Panamahatti þar sem mig hefur lengi langað að eignast einn slíkan. Ég hef aðallega verið að skoða þá í herrafataverslunum hér í Englandi en hef ekki fundið hinn eina rétta. Ég veit ekki hvernig úrvalið er á Íslandi en ég fann einn flottan Panamahatt frá Bugatti á vefsíðu Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar. Það er orðið ansi langt síðan ég steig fæti inn í þá verslun. Ég byrjaði að versla þar sem unglingur. Við vinkonurnar fengum ekki nóg af afabolunum eins og við kölluðum langerma JBS bolina og þurftum helst að eiga þá í öllum litum. Ég man enn eftir að hafa keypt tvo í vikunni eftir fermingu, held að það hafi verið hvítur og ljósblár frekar en svartur. Yndisleg búð.


myndir:
1: Patrick Demarchelier fyrir ZARA TRF, vor/sumar 2014 auglýsingaherferð af ZARA/Pinterest / 2: The Sartorialist / 3: Bugatti hattur af vefsíðu Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar / 4: Kurt Markus fyrir Latina, janúar 1999 | fyrirsæta: Christy Turlington í ,Return to Cuscatlan' af blogginu Classiq / 5: Alasdair McLellan fyrir Margaret Howell, vor/sumar 2011 auglýsingaherferð | fyrirsæta: Dree Hemingway | stílisering: Kate Phelan

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.