þriðjudagur, 29. janúar 2013

listakonan sujean rim


Ég rakst á verk listakonunnar Sujean Rim um daginn og hafði samband við hana til að fá að birta nokkur á blogginu, sem hún að sjálfsögðu samþykkti.

Sujean Rim var alin upp í New York, horfði á Kalla kanínu og fylgdist með Smáfólkinu hans Charles Schulz í blöðunum. Hún var sífellt að teikna, staðráðin í að verða listamaður. Í framhaldsskóla fékk hún áhuga á tísku.

Hún útskrifaðist sem tískuhönnuður frá hinum virta skóla Parsons School of Design og hóf feril sinn á að hanna skó og aukahluti. Hún hélt samt alltaf áfram að teikna. Hún geymdi teikningarnar í bók og notaði hvert tækifæri til að sýna þær öllum listrænum stjórnendum sem á annað borð höfðu áhuga á að skoða þær.

Það var árið 1995 sem fyrsta tækifærið kom þegar Barneys New York réð hana í verkefni. Eftir það vann hún fyrir Tiffany & Co., Target, DailyCandy og fleiri fyrirtæki.

Árið 2007 rættist æskudraumur hennar þegar forlagið Little, Brown and Company hafði samband við hana og bauð henni samning. Tveimur árum síðar kom út hennar fyrsta bók, Birdie's Big-Girl Shoes, með teikningum fyrir börn. Í kjölfarið voru gefnar út bækurnar Birdie's Big-Girl Dress og Birdie Plays Dress-Up.

Á vefsíðu Sujean Rim, undir flokkunum peeps, peewees, pleasures og places, má skoða meira af verkum hennar.


myndir:
Sujean Rim
(birt með leyfi)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.