Sýnir færslur með efnisorðinu luxembourg. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu luxembourg. Sýna allar færslur

mánudagur, 28. júlí 2014

Skreppitúr til Luxembourg

Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Stefan


Sæl að nýju! Ég vona að þið hafið haft það gott síðustu tvær vikurnar. Í fríinu skruppum við til Luxembourg með stuttu stoppi í London. Þegar við keyrðum inn í London áttaði ég mig á því hvað ég hafði saknað borgarinnar. Við Marble Arch barðist hjartað hraðar og við Hyde Park Corner var ég orðin yfir mig spennt (svæðið er hluti af London-þægindarammanum mínum). Mér fannst stoppið í London alltof stutt en um kvöldið þegar ég stóð á dekki ferjunnar sem flutti okkur yfir til Frakklands, andaði að mér fersku sjávarlofti og dáðist að Hvítu klettunum í Dover, þá var ég heldur betur sátt.


Af hverju London-inngangur að pósti um Luxembourg? Miðað við spennuna sem ég upplifði að koma aftur til London þá komu viðbrögð mín við Luxembourg mér svolítið á óvart. Flestir sem rata inn á þetta blogg mitt vita að við bjuggum í Luxembourg í meira en eitt ár og flutningarnir til Englands í nóvember í fyrra gerðust frekar hratt. Ég náði eiginlega ekki að kveðja borgina. Án þess að vera sérstaklega upptekin af slíkum hugsunum þá velti ég því stundum fyrir mér hvort ég ætti kannski einhverju ólokið í Luxembourg, en þegar ég gekk um stræti borgarinnar að nýju - hefði getað gert svo með bundið fyrir augun og samt ratað - þá uppgötvaði ég að ég átti akkúrat engu ólokið. Ef það var einhver örlagahnútur á milli mín og Luxembourg þá hafði hann verið leystur.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Stefan


Ég vona að tónn minn hljómi ekki neikvæður. Gamla borgin mín er svo sannarlega þess virði að heimsækja og ég mæli sérstaklega með henni fyrir þá sem eru ekki hrifnir af stórum og hávaðasömum borgum og eru frekar í leit að rólegheitum (fyrir þá sem vilja næturlíf er Luxembourg sennilega hundleiðinleg). Borgin er lítil og kyrrlát og í henni eru ekki bara þröng hellulögð stræti heldur stórbrotin náttúra í henni miðri. Það er hægt að ganga niður í Pétrusse-dalinn og á sumum stöðum þarf maður að minna sig á að maður er staddur í borg.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Stefan


Ég fór með syni mínum í göngu um dalinn og við enduðum í gamla hlutanum, Grund, þar sem ég tók þessar myndir áður en við settumst niður utandyra á kaffihúsi. (Sjá fleiri myndir frá Luxembourg.) Fyrir mér er þessi hluti borgarinnar alltaf meira eins og sögusvið ævintýris heldur en staður þar sem fólk býr. Ég hef heyrt að gamli hlutinn sé rándýr og að þar búi aðallega útlendingar, sem mér finnst frekar dapurleg staðreynd. En málið er að í Luxembourg er einn dýrasti húsnæðismarkaður Evrópu. Sumir útlendingar sem vinna þar, og sumir innfæddir líka, kjósa að búa frekar hinum megin við landamærin, í Þýskalandi, Frakklandi eða Belgíu. Við hugsuðum um það á sínum tíma að halda okkur innan Belgíu, að flytja frá Antwerpen til borgar eða bæjar í suðurhlutanum, en ég er ánægð með það að hafa upplifað að búa í Luxembourg.
Skreppitúr til Luxembourg · Lísa Stefan


Grund-hverfið, Luxembourg, júlí 2014

þriðjudagur, 1. október 2013

Haustdagur í Luxembourg II

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


Þá er októbermánuður genginn í garð! Ég lofaði fleiri myndum af Grund-hverfinu í Luxembourg og dagurinn í dag er eðal til þess að standa við það loforð. Ég deildi að vísu þessum sömu myndum á ensku útgáfunni í dag þannig að þetta eru kannski gamlar fréttir fyrir þá sem lesa bæði bloggin. Ég þarf að fara fljótlega aftur í göngutúr með myndavélina og ég skal muna að hlaða batteríið áður.

Haustdagur í Luxembourg II · Lísa Hjalt


mánudagur, 30. september 2013

Haustdagur í Luxembourg

Haustdagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég fór í göngutúr í borginni í dag og ætlaði mér að ná fallegum haustmyndum í gamla hlutanum, sem kallast Grund. Áttaði mig svo á því þegar ég hafði rölt í gegnum Pétrusse-dalinn, eða gilið, og inn í gamla hlutann að ég hafði steingleymt að hlaða batteríið í myndavélinni. Kannski bara lán í óláni því það var kannski full sólríkt fyrir myndatökur um það leyti sem ég var á ferðinni (tók þessa mynd á svipuðum slóðum á laugardaginn þegar ég fór með vinkonur frá Íslandi í göngutúr). Ég náði nú samt nokkrum myndum í dag sem ég deili síðar í vikunni.

Ég smellti af þessari upp á hæðinni þegar ég var að njóta útsýnisins með lattebollann minn. Það er bara rétt aðeins farið að glitta í haustlitina hér í Luxembourg og veðrið leikur enn við okkur.

miðvikudagur, 12. júní 2013

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad

Espresso macchiato & hádegisverður á Konrad · Lísa Hjalt


Á laugardaginn fór ég inn í borg og eyddi deginum með vinkonu minni. Planið var að smakka kaffið og borða hádegisverð á Konrad. Við fengum borð úti í skugganum og byrjuðum á kaffinu. Ég er yfirlýst latte-manneskja en undanfarið hef ég leyft mér að lifa hættulega og fæ mér þá espresso macchiato þegar ég sest niður á kaffihúsum en gríp með mér latte í götumáli ef ég er á ferðinni. Ekkert smá hugrekki!

Ég er ekki kaffisérfræðingur og hef ekki hugmynd um hvernig á að lýsa hinum fullkomna kaffibolla en ég veit að espresso bollinn sem ég fékk á laugardaginn var fullkominn. (Ef þið hafið áhuga á kaffismökkun þá verð ég að benda ykkur á Barista's Log viðbótina sem einn vinur minn þróaði sem er bæði kaffi- og tölvugúrú. Þegar ég sé þessar myndir þá væri ég alveg til í að vita meira um list kaffismökkunar.)
Kaffivélin á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Þegar við vorum búnar að drekka kaffið færðum við okkur inn til að snæða hádegisverð. Karríréttir eru sérgrein þeirra á Konrad en á laugardögum er einfaldleikinn í eldhúsinu allsráðandi og ég fékk mér grænmetisböku með salati. Maturinn bragðaðist mjög vel. Ég lýg ekki, ég er enn að hugsa um þessa böku og stefni á að fá mér hana aftur fljótlega. Ég fékk mér líka glas af lífrænu rósavíni sem fullkomnaði máltíðina.

Bókahillur á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt
Hádegisverður á Konrad, Luxembourg · Lísa Hjalt


Eins og sést á myndunum er Konrad einn af þessum hráu stöðum sem mér finnst alltaf skemmtilegir. Hann er í hjarta borgarinnar og er reyklaus og er auk þess bar sem býður reglulega upp á uppistand. Við borðin má ýmist sjá viðar- eða leðurstóla og upp við barinn eru þeir í iðnaðarstíl. Loftbitarnir eru sýnilegir, veggir hvítir fyrir utan einn sem er veggfóðraður með blómamynstri. Það eru engir matseðlar heldur er allt skrifað á krítartöflur.

Mér leiðist að koma inn á staði þar sem stemningin er einhvern veginn þvinguð; ekki afslöppuð. Mér líkar það best þegar eigendur kaffi- og veitingahúsa leggja meiri áherslu á að skapa gott andrúmsloft heldur en að dæla peningum í glæsilegar innréttingar og skrautmuni. Konrad er einmitt svona afslappur staður sem er laus við alla tilgerð og þar sem viðmót starfsmanna er vingjarnlegt.



Ég tók þessa mynd nýverið sem sýnir stemninguna fyrir utan staðinn. Hún er hluti af færslu á ensku útgáfu bloggsins þar sem ég sagði frá því þegar ég uppgötvaði fyrst götuna Rue du Nord.



fimmtudagur, 21. febrúar 2013

luxembourg: gamli hluti borgarinnar


Hér koma myndirnar sem ég næstum því lofaði á þriðjudaginn, teknar af gamla hluta borgarinnar sem kallast Grund. Ég tók þessar þegar við fórum í langan göngutúr í Pétrusse dalnum í skólafríi krakkanna. Það var kalt á þessum febrúardegi og heldur grátt yfir öllu. Ég bjóst við að myndirnar yrðu kannski dimmar og drungalegar en þær heppnuðust bara ágætlega, eða það finnst mér.

Fyrir þá sem hafa áhuga á sögu borgarinnar þá læt ég fylgja brot úr texta sem er að finna á vef UNESCO World Heritage Centre:

Because of its strategic position, Luxembourg was, from the 16th century until 1867 when its walls were dismantled, one of Europe's greatest fortified sites. It was repeatedly reinforced as it passed from one great European power to another: the Holy Roman Emperors, House of Burgundy, Habsburgs, French and Spanish kings, and finally the Prussians. Until their partial demolition, the fortifications were a fine example of military architecture spanning several centuries.

The City of Luxembourg is located at the crossing point of two major Roman roads. In 963 Sigefroid, a count from the Moselle valley, built a castle on the Rocher du Bock, which he obtained by means of an exchange with the Abbey of St Maximin of Trier. His servants and soldiers settled around the castle and the modern town sprang from the market-place of this settlement, the Vieux Marché.

The lower town of Grund and the Plateau du Rham: archaeological excavations have shown that the Grund and Rham areas were settled for some six centuries before Count Sigefroid took possession of the Bock promontory in 963. The Wenceslas Wall formed part of the third defensive circuit built in the late 14th century. It underwent a number of modifications and strengthenings as artillery improved.

The Grund sluice was built by the Austrians in 1731; it consists of a massive masonry dam with vaulted openings that could be closed to prevent water passing through them. Much of the lock was dismantled in 1878, but its remains are still impressive, and also provide a magnificent panorama of the city. The Hospital Saint-Jean was founded in 1308; in 1543 a Benedictine community was established there, to become known as the Neuminster.

myndir:
Lísa Hjalt
Luxembourg, febrúar 2013

þriðjudagur, 19. febrúar 2013

luxembourg: pétrusse dalurinn + adolphe brúin


Ég verð að byrja á því að segja að ég hreinlega gleymdi að segja í síðasta pósti að ég væri að fara í bloggfrí vegna skólafrís krakkanna. Ef þið kíktuð á ensku útgáfu bloggsins þá hafið þið væntanlega lesið það þar og séð þessar myndir sem ég tók af Pétrusse dalnum og Adolphe brúnni inni í borg. Mig langaði að birta þær hér líka.

Ég birti kannski fleiri myndir síðar í vikunni því við fórum í langan göngutúr í Pétrusse dalnum í fríinu. Það var á heldur gráum og köldum febrúardegi en ég fæ seint nóg af fegurð Luxembourg, sama hvernig veðrið er.

Njótið dagsins!

myndir:
Lísa Hjalt
Luxembourg, febrúar 2013

fimmtudagur, 20. desember 2012

Rólegur dagur í borginni

Rólegur dagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég þurfti aðeins að skreppa inn í borg í gær og smellti af einni mynd á Rue du St. Esprit þar sem það voru svo fáir á ferli. Það er alltaf jafn fallegt að horfa þarna yfir. Það var töluvert af fólki á verslunargötunum en ég varð ekki vör við neitt jólastress. Þetta eru fyrstu jólin okkar hér og mér sýnist Lúxarar vera nokkuð spakir í desember.

mynd:
Lísa Hjalt

mánudagur, 17. desember 2012

luxembourg: jólamarkaður á place d'armes


Ég fór inn í borg á laugardaginn og ætlaði að festa jóladýrðina á filmu en áttaði mig á því að ég hafði gleymt að hlaða batteríið. Ég náði því ekki að taka nema þessar fjórar myndir áður en vélin fór að hætta að vinna eðlilega. En hvað um það, þær fanga stemninguna á Place d'Armes torgi. Það er torgið sem er í kjarna borgarinnar og út frá því liggja hellulagðar götur með verslunum. Kosturinn við borgarkjarnann í Luxembourg er sá að bílaumferð er mjög takmörkuð og engin í helstu verslunargötunum. Fyrstu myndina tók ég fyrir utan blómabúð á Rue Philippe II, sem er rétt hjá torginu. Það eru alltaf svo sætar skreytingar fyrir utan þessa búð og á laugardaginn var einstaklega jólalegt hjá þeim. Þessi tré með gervisnjó heilluðu mig einna helst.

Ef þið eruð að ferðast um Evrópu á þessum árstíma þá mæli ég með að fara til Luxembourg. Borgin er svo fallega skreytt og allt er frekar lítið og kósí í sniðum.

Þetta var annars notaleg helgi. Þarna á laugardeginum fórum við á bókasafnið og svo kippti ég með sushi á leiðinni heim og át á mig gat. Í gær fórum við að sjá The Hobbit: An Unexpected Journey (2012) og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ekkert annað en 3D veisla fyrir augað; Peter Jackson og allir þeir sem komu að þessari mynd eru ekkert annað en helv... bölv... snillingar, eins og bóndinn myndi orða það. Nú er ég ekki mikið fyrir svona ævintýramyndir en við erum miklir aðdáendur Lord of the Rings myndanna og vorum búin að bíða spennt eftir þessari. Núna bíðum við enn þá spenntari eftir framhaldinu.

myndir:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 27. september 2012

augnablikið


Ég var á leið heim eftir ferð á bókasafnið um daginn og smellti af þessari mynd þegar ég gekk yfir Adólfsbrúna. Það er rétt aðeins farið að glitta í haustlitina en veðrið er enn þá milt, aðallega skýjað og smá rigning inn á milli.

mynd:
Lísa Hjalt