fimmtudagur, 17. nóvember 2016

Að skapa hið fullkomna „julehygge“



Klementínur og kertaljós hafa yfirtekið heimilishaldið. Ég kvarta svo sannarlega ekki. Elska þennan árstíma þegar aðventan nálgast og við vörpum fram hugmyndum um hvernig megi skapa hið fullkomna „julehygge“, eins og frændur okkar Danir orða það (ef þið viljið kynna ykkur hygge betur getið þið kíkt á færsluna mína um The Little Book of Hygge). Á skrifborðinu er bunki af desembertölublöðum sem ég blaða í gegnum yfir kaffibollanum, aðallega til að fá hugmyndir að skreytingum fyrir jólaborðið. Það eru norrænu tímaritin sem ná að kalla fram hinn eina sanna jólaanda; vildi að ég gæti keypt þau í búðum hér í Bretlandi (árið 2012 deildi ég á ensku útgáfu bloggsins dönsku innliti sem mér finnst alltaf svo fallegt; það birtist í Bo Bedre). Hvað skreytingar snertir erum við mínimalísk og við viljum hafa þær sem náttúrulegastar: kerti, sígrænar greinar og furukönglar. Jólaborðið er það eina sem tekur breytingum ár frá ári, þá aðallega litapalettan sem ræðst af því hvaða servíettur og borðrenninga við veljum. Myndin hér að ofan sýnir jólaskreytta borðstofu í Mílan sem birtist í nýjasta Elle Decoration UK. Í fyrstu var ég svo heilluð af glerkrukkunum með klementínunum að ég sá ekki teljósin á diskunum. Frábær hugmynd!

Áður en fyrsti sunnudagur í aðventu gengur í garð, 27. nóvember í ár, verður heimilið þegar komið í hátíðarbúning því þá er fyrsti aðventubrönsjinn okkar. Ég ber fram heitt súkkulaði með þeyttum rjóma, sænskt fléttubrauð með kardamomu (sjá mína uppskrift) og gjarnan heimagert konfekt. Núna hyggst ég gera mitt eigið núggat og marsipan. Í minnisbókina hef ég nótað hjá mér hugmyndir að uppskriftum og ég þarf bara að prófa þær deginum áður. Ef þær misheppnast þá baka dæturnar bara piparkökur. Síðar, áður en við setjumst niður til að borða kvöldverð, ber ég fram fyrsta jólaglögg hátíðarinnar, bæði áfengt og óáfengt. Í ár er ég að hugsa um að aðlaga þessa uppskrift frá Jamie Oliver. [Ef þið eruð að leita að hugmyndum að mínimalískum jólaskreytingum þá getið þið kíkt á jólaflokkinn minn á Pinterest.]

Eru ákveðnar aðventuhefðir á ykkar bæ?

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, desember 2016, bls. 86 · Fabrizio Cicconi



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.