sunnudagur, 20. janúar 2019

Amerískar pönnukökur með berjum

Amerískar pönnukökur með berjum · Lísa Hjalt


Þó að ég hafi sett þessa uppskrift saman í Danmörku fyrir níu árum síðan, og gert breytingar í millitíðinni, mun hún líklega alltaf minna mig á morgunstund hér í Bremen. Það var á sunnudegi fljótlega eftir flutningana, þegar við vorum enn á pappakassastiginu, að mér fannst eins og þyrfti að þjappa fjölskyldunni saman í byrjun dags. Ég átti hindber í frysti og ákvað að skella í amerískar pönnukökur, eins og við Íslendingar köllum þær þykku (þessar á myndinni eru með bláberjum sem skýrir skellurnar efst í bunkanum). Í minningunni er þetta fyrsti huggulegi helgarmorgunverðurinn á nýjum stað. Ég geri yfirleitt 10 pönnukökur úr deiginu og ber þær fram með hreinu hlynsírópi. Kardamoman er smekksatriði og smá klípa gefur bara örlítinn keim.

AMERÍSKAR PÖNNUKÖKUR

260 g fínt spelti eða lífrænt hveiti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
klípa af möluðum kardamomum
2 stór egg
280 ml mjólk
2½ matskeið gæða jurtaolía
má sleppa: frosin bláber eða hindber

Hrærið þurrefnunum saman í stórri skál með pískara. Aðskilið eggin. Þeytið eggjahvíturnar ásamt örlitlu salti uns áferðin er vel froðukennd (ekki stífþeyta). Hrærið eggjarauðunum saman við þurrefnablönduna ásamt mjólk og olíu þar til deigið er kekklaust. Hrærið svo þeyttu hvítunum rólega saman við. Geymið berin í sér skál.

Berið olíu á pönnukökupönnu og hitið á meðalhita. Ausið deigi á pönnuna og dreifið úr því með ausunni. Raðið því næst nokkrum berjum ofan á. Bakið í 2-3 mínútur þar til pönnukakan er gullinbrún, snúið við með spaða og bakið hina hliðina.

(Hitastillingin veltur líklega á pönnunni sjálfri. Margir stilla fyrst á háan hita og lækka svo en ef mín ofhitnar þá verður hún einstaklega leiðinleg. Með gashellum má auðveldlega stjórna hitanum en núna á ég keramikborð og því finnst mér best að lyfta pönnunni upp þegar ég helli deiginu á hana. Inn á milli pensla ég pönnuna með örlítilli olíu.)

Berið pönnukökurnar fram með hreinu hlynsírópi eða smjöri. Ef ekki eru notuð frosin ber er kjörið að borða þær með ferskum berjum líka.

Recipe in English



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.