miðvikudagur, 6. febrúar 2013

innlit: hlýleiki og hrár stíll í austin, texas


Sem fyrr var ég að leita að myndum á Pinterest síðunni þegar ég rak augun í myndina hér efst til vinstri og það var eitthvað við hana sem fékk mig til að staldra við, sennilega var það samspil arinsins, rauðu mottunnar og dökku húsgagnanna sem höfðaði til mín. Eins og algengt er á þessum vef þá eru margir sem setja inn myndir þar án þess að geta upprunans, sem mér persónulega finnst óþolandi, en ég fann upprunann á endanum og fleiri myndir úr sama húsi.

Húsið er í Tarrytown í Austin, Texas, það stendur við bakka Lake Austin vatnsins. Ég er meira fyrir ljósari rými en féll samt alveg fyrir hráa stílnum og hlýleikanum sem einkennir húsið. Gólfefnin finnst mér virkilega falleg, skemmtileg blanda af flísum og viðarborðum. Það sem heillar mig líka við þetta hús er að það lítur ekki út eins og bæklingur frá húsgagnaverslun, það er greinilegt að þarna býr fólk og heldur fallegt heimili.


Það er ekkert síðra utandyra og þessar snotru svalir eru mér að skapi. Ég væri alveg til í að sitja þarna eitt kvöld að spjalli í góðra vina hóp. Upp við húsið er auk þess stæði fyrir báta.


myndir:
2400 Matthews af síðunni Nicety Deco

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.