mánudagur, 26. ágúst 2013

Eftirminnilegt sumar



Mér finnst svolítið skrýtið að birta þessa síðustu Eftirminnilegt sumar færslu og get ekki sagt að ég hafi verið að flýta mér að deila henni í dag, aðallega því mér líður eins og ég sé að tilkynna lok sumarsins. Það er enn næstum heill mánuður eftir af því en í mínum huga markar byrjun septembermánaðar haustið og þess vegna lýkur þessari seríu í dag.

Myndirnar sem birtast hér endurspegla mína eigin sumarstemningu. Ég fór að vísu ekki í lautarferð eins og þá sem sést á fyrstu myndinni en það tekur okkur bara nokkrar mínútur að hjóla á stað með nákvæmlega sama landslagi. Við byrjuðum sumarið á göngutúr á því svæði og þessi mynd gæti allt að því verið hluti af þeim myndum sem ég tók þá.


Ég held að ég hafi aldrei verið jafn iðin í garðinum eins og þetta sumar, ef ég tel ekki með sumrin sem ég eyddi í garðinum með afa og ömmu sem lítil stelpa. Ef ég var ekki að sinna garðinum þá var ég úti á svölum eða verönd að lesa.


Ef ég ætti að velja plöntu sumarsins þá yrði það lavender; ég var bókstaflega með lavender á heilanum en þið vissuð það svo sem nú þegar.



Við fórum ekki neitt í sumar heldur virkilega nutum þess hér heima við og á svæðunum í kringum okkur en í næstu viku ætlum við í smá ferðalag áður en skólarnir hefjast að nýju. Ég vona að þið hafið notið sumarsins og að þið hafið náð að gera það eftirminnilegt.

myndir:
1: Vero Suh Photography af síðunni Style Me Pretty / 2: Micasa / 3: High vor/sumar 2011 auglýsingaherferð af blogginu Lovingly Simple / 4: Patrick Cline fyrir Lonny, september 2012 bls. 174 / 5: Angus McRitchie fyrir Decormag (franska útg.) af My Scandinavian Home | stílisering: Nicola Marc / 6: Giulia Bellato af Nicole Franzen/Pinterest / 7-8: Adrian Brown + Vivian Yeo fyrir Country Living / 9: Christopher Price (Snowshill Lavender Farm, Gloucestershire, UK)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.