mánudagur, 19. ágúst 2013

Eftirminnilegt sumar



Undanfarið virðist ég laðast að bleikum og fjólubláum tónum og hef verið að hugsa um það hvað íslenskan er í raun fátæk þegar kemur að heitum á litum. En hvað um það, þetta byrjaði held ég þegar ég var að skoða vefsíðuna John Robshaw Textiles (ég hef bloggað um fyrirtækið á ensku síðunni) og rakst á handprentaðan púða sem kallast Bindi Brinjal, hvítur með mynstri í fjólumbláum tón sem líkist eggaldini (í ensku heitir liturinn bara „eggplant“ eða „aubergine“ - mjög einfalt). Ég pinnaði púðann í morgun. Á föstudaginn var ég að lesa Style Court bloggið sem er skrifað af Courtney Barnes þar sem hún talaði um „rich eggplant and soft amethyst mixed with blue" (ógerlegt að þýða þetta yfir á íslensku nema að umorða heitin á litunum). Pósturinn hennar leiddi mig á aðrar vefsíður með textíl í fallegum bleikum og fjólubláum tónum sem minntu mig á myndir í möppunum mínum.

Þegar ég var að skoða textíl á vefsíðu Carolina Irving þá mundi ég eftir myndinni hér að neðan af verönd húss í Grosseto í Toscana héraði. Svo opnaði ég blogg ljósmyndarans Georgianna Lane og var þá stödd innan um bleik hús (efsta myndin) á eyjunni Burano rétt utan við Feneyjar. Á þeirri stundu varð þessi bloggfærsla til.


Frá Ítalíu höldum við til bæði Frakklands og Danmerkur til að skoða fleiri dásamlega litatóna. Hversu fallegur er reiturinn fyrir framan þennan gamla glugga í þorpinu Sarlat? Myndin er tekin að vori til en fyrir okkur Íslendinga þá minnir svona litadýrð bara á sumarið. Ég féll alveg fyrir stílnum á þessum danska garðkofa út til hægri. Meira að segja stígvélin eru í stíl við litapalettuna!


Og frá Frakklandi og Danmörku höldum við til Spánar og skoðum handmálaða muni í dökkum bleikum tón. (Í ensku kallast liturinn „fuchsia“ og það er spurning hvort heitið fúksía sé til í íslensku. Ég man ekki eftir að hafa heyrt nokkurn nota það.) Það sem ég er í raun að lýsa hérna er hvernig bloggfærsla verður til, þar sem mynd eða litur leiðir til netflakks; ein ástæða þess að ég elska að blogga.


Síðasta myndin er tekin í glæsilegum enskum garði að vori til. Garðurinn virðist innihalda liti allra árstíðanna. Bleiku tónarnir minna mig á sumarið sem senn er á enda og fjólubláu tónarnir minna mig á komu haustsins, þá aðallega á tískuvörur og fylgihluti. Svo eru þarna sígrænar plöntur sem veturinn bítur ekki á og ljósgrænu tónarnir sem fyrir mig boða komu vorsins.


myndir:
1: Georgianna Lane (Burano, Feneyjar, Ítalía) / 2: Andrea Vierucci fyrir AT Casa / 3: Carolina Irving (Amazon aubergine) / 4: Carolina Irving (Andaluz rose) / 5: Yvan Lemeur (Sarlat, Frakkland) / 6: Anders Schønnemann fyrir Bo Bedre / 7: Frederikke Heiberg fyrir Bo Bedre / 8: Nuevo Estilo / 9: Four Seasons Garden

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.