fimmtudagur, 28. maí 2015

Pizzasósa

Pizzasósa · Lísa Hjalt


Um daginn áttaði ég mig á því að uppskriftin að pizzasósunni á gamla matarblogginu er orðin gömul og ég geri sósuna öðruvísi í dag. Árið 2010 bjuggum við í Danmörku og þar skapaðist sú hefð að hafa alltaf heimagerðar pizzur í matinn á föstudagskvöldum. Þegar maður gerir pizzur svona oft þá smám saman gerir maður breytingar og er sósan engin undantekning. Ég er líka búin að breyta pizzabotnunum (gerlaust deig) en þeirri uppskrift ætla ég að deila síðar.

Á föstudögum, á svo til alltaf sama tíma, set ég á mig svuntuna í eldhúsinu og byrja á því að útbúa pizzasósuna. Ég nota plómutómata úr dós, en ég elda þá ekki heldur kreisti vökvann úr þeim í gegnum sigti. Sósuna blanda ég með töfrasprota en ef þið eigið ekki slíkan þá má nota matvinnsluvél.

PIZZASÓSA

1 dós (400 g) plómutómatar
1 dós (140 g) tómatmauk
2 matskeiðar jómfrúarólífuolía
1 matskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið balsamedik (Modena)
1-2 hvítlauksrif, pressuð
1 teskeið þurrkað óreganó
1 teskeið fersk basilíka, fínsöxuð (eða ½ teskeið þurrkuð)
¼-½ teskeið sjávar/Himalayasalt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Hellið úr plómutómatadósinni í sigti í vaskinum og kreistið tómatana með hendinni til að losna við sem mest af vökva. Látið þá liggja í sigtinu í smá stund.

Blandið öllu öðru hráefni saman í meðalstórri skál. Afhýðið hvítlaukinn og pressið áður en hann fer í skálina og fínsaxið fersku basilíkuna, ef notuð. Áður en þið bætið plómutómötunum saman við er gott að kreista þá aðeins aftur í sigtinu og rétt þrýsta ofan á þá með lófanum til að losna við sem mest af vökvanum. Bætið þeim svo í skálina og maukið sósuna með töfrasprota.

Pizzasósan geymist í kæli í 3-5 daga í hreinni glerkrukku með loki.


Recipe in English



þriðjudagur, 12. maí 2015

Svartbaunaborgarar (vegan)

Svartbaunaborgarar (vegan) · Lísa Stefan


Ást mín á svörtum baunum þekkir engin landamæri og þessir svartbaunaborgarar fengu mig til að skipta alfarið yfir í grænmetisborgara. Ég myndi ekki segja nei við góðum borgara matreiddum úr gæða kjöti en þegar ég fæ löngun í borgara þá geri ég þessa. Þetta snýst ekki bara um bragðið heldur alla þessa dásamlegu ferskvöru á borðinu þegar ég útbý máltíðina.
Kóríander · Lísa Stefan


Ferskan kóríander vil ég helst alltaf eiga. Ég elska bragðið (nefnt „pungent“ í ensku) og upp á síðkastið stend ég mig að því að nota meiri kóríander en uppskriftir segja til um. „Cilantro“ er annað heiti yfir ferskan kóríander sem Bandaríkjamenn nota úr spænsku. Svo eru sumir sem tala um blöðin sem arabíska steinselju („parsley“) og enn aðrir sem kínverska steinselju. Ekki skrýtið að fólk verði stundum ruglað á öllum þessum heitum.

Svartbaunaborgarar (grænmeti) · Lísa Stefan


Á þessum bæ hefur þróast ákveðin svartbaunaborgarahefð. Í hvert sinn sem ég geri borgarana, sem er ansi oft, þá útbý ég sama meðlætið: Ég steiki sveppi í örlítilli léttri ólífuolíu með hvítlauk og smá salti sem notum líka í borgarana.

Talandi um sveppi. Fyrir mörgum árum síðan fór vinur minn á fyrirlestur með búddhamunki sem sagði eitthvað á þá leið að enginn ætti að borða sveppi því þeir vaxa ekki í sól. Allir hafa rétt á sínum skoðunum en þetta hafði ég um málið að segja: Enginn munkur eða heimspeki skyldi koma á milli mín og minna sveppa og frá þeirri stundu strengdi uppreisnarmaðurinn innra með mér það heit að ég skyldi borða enn meira af þeim. Það er bara þannig sem ég rúlla.
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Uppskriftin að svartbaunaborgurunum kemur frá leikkonunni Gwyneth Paltrow, en hana er að finna í bók hennar, Notes From My Kitchen Table. Ég veit að margir þola hana ekki en hún má eiga það að þessi uppskrift er góð (ég gerði bara örlitlar breytingar). Það er auðvelt að matreiða borgarana og eðal að skella í þá ef þið eigið afgang af soðnum brúnum grjónum. (Tekur annars 25-30 mínútur að sjóða þau: 30 g (ca 3 matskeiðar) = 75 g soðin).
Svartbaunaborgarar · Lísa Stefan


Ég vil borgarana steikta en ég bætti við ofnbakaðri útgáfu fyrir þá sem kjósa það frekar. Ég tvöfaldaði skammtinn af broddkúmeni í uppskriftinni og nota 2 matskeiðar af söxuðum ferskum kóríander. Ég bætti líka chilliflögum og næringargerflögum (nutritional yeast flakes), sem ég merki sem val. Ég ber borgarana fram með steiktum sveppum og hvítlauk, sem ég minntist á hér að ofan, tómötum, avókadó, salatblöðum og gæða majónesi eða heimagerðu. Það er laukur í uppskriftinni og því finnst mér óþarfi að setja hráan lauk eða rauðlauk á borgarann, en þegar ég vil aðeins sterkara bragð þá nota ég jalapeno úr krukku. Með borgaranum fæ ég mér stundum lítið glas af ísköldum bjór með nýkreistum límónusafa.

SVARTBAUNABORGARAR

1½-2 matskeiðar létt ólífuolía
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
½ teskeið broddkúmen (ground cumin)
klípa rauðar chilliflögur (má sleppa)
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
1 dós (400g) lífrænar svartar baunir
75 g soðin brún hrísgrjón
1-2 matskeiðar ferskur kóríander
1 matskeið næringargerflögur (má sleppa)
1-2 matskeiðar lífrænt mjöl (til steikingar)
2-3 matskeiðar jurtaolía (til steikingar)
4 gróf hamborgarabrauð

Sjóðið 30 g af brúnum hrísgrjónum áður en byrjað er á borgurunum. Setjið svörtu baunirnar í sigti og skolið af þeim. Setjið til hliðar.

Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt. Hitið ólífuolíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, broddkúmen og chilliflögur (ef notaðar) í 5-7 mínútur við lágan-meðalhita.

Bætið salti, pipar, svörtum baunum og grjónum á pönnuna, steikið í 2 mínútur og hrærið á meðan.

Saxið ferskan kóríander smátt og bætið á pönnuna ásamt næringageri (ef notað) og hrærið saman við. Takið pönnuna af hellunni.

Notið kartöflustöppu til að stappa blönduna án þess að mauka hana alveg. Hún má halda smá grófleika. Leyfið henni að kólna þar til auðvelt er að meðhöndla hana og mótið þá 4 borgara (á þessum punkti má líka setja hana í kæli í nokkrar klukkustundir).

• Steiktir borgarar: Stráið báðar hliðar með mjöli. Hitið olíuna á stórri pönnu við meðal-hæsta hita og brúnið borgarana, í um mínútu á hvorri hlið. Berið þá fram í grilluðu hamborgarabrauði með því ferska hráefni sem ykkur þykir best.

• Ofnbakaðir borgarar: Setjið borgarana á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 8-10 mínútur á hvorri hlið.

Örlítið breytt uppskrift úr bókinni Notes From My Kitchen Table eftir Gwyneth Paltrow