fimmtudagur, 27. september 2012
augnablikið
Ég var á leið heim eftir ferð á bókasafnið um daginn og smellti af þessari mynd þegar ég gekk yfir Adólfsbrúna. Það er rétt aðeins farið að glitta í haustlitina en veðrið er enn þá milt, aðallega skýjað og smá rigning inn á milli.
mynd:
Lísa Hjalt
mánudagur, 24. september 2012
haustið heilsar
Þessar myndir tók ég í fyrra í litlum hollenskum bæ á mörkum Hollands og Belgíu, vestan megin við ána Schelde. Þið sem hafið fylgst með ensku útgáfu bloggsins kannist kannski við þær því ég þær eru hluti af færslu sem ég birti í fyrra. Mig langaði til þess að fagna komu haustsins í dag og hvað er meira við hæfi en litrík haustuppskera, einkum grasker. Mér finnst alltaf svo vænt um þessar myndir og þær minna mig á hvað koma haustsins hér á meginlandi Evrópu er ólík komu þess á Íslandi.
myndir:
Lísa Hjalt
Lísa Hjalt
miðvikudagur, 19. september 2012
austurlandahraðlestin
Fyrr í dag var ég að pinna þegar ég rakst á efstu myndina sem er tekin um borð í einhverri
„Austurlandahraðlestinni.“ Flökkukindin innra með mér veðraðist öll upp og ég sá mig svo fyrir
mér rölta eftir brautarpallinum með glæsilegar Louis Vuitton töskur á leið í einhverja dásamlega
ferð - með fulla vasa af gulli, hvað annað! Það vill svo til að fyrr á þessu ári las ég aftur
Austurlandahraðlestina eftir Agatha Christie þannig að ég var auðvitað byrjuð að sjá fyrir mér
allar sögupersónurnar um borð og hinn belgíska Hercule Poirot rannsaka morð til þess að gera
þessa ferð enn þá meira spennandi.
Þessi saklausa mynd var sem sagt það eina sem þurfti til þess að koma dagdraumunum yfir
á næsta stig!
myndir:
af vefsíðu Orient-Express Hotels Ltd.
mánudagur, 17. september 2012
þriðjudagur, 11. september 2012
innlit: heimili í mill valley norður af san francisco
Ég kolféll fyrir þessu bjarta og fallega heimili þegar ég sá það fyrst. Það er í Mill Valley, rétt norðan við San Francisco og er í eigu Allison Bloom, sem er innanhússhönnuður og rekur Dehn Bloom Design (það er eitthvað ólag á heimasíðunni þannig að ég tengi á síðu þeirra á Facebook í staðinn). Ég er búin að geyma þessar myndir í dágóðan tíma í möppunni minni og var hreinlega búin að steingleyma þeim þar til ég sá nokkrar þeirra á bloggi í gær sem kallast Anya Adores. Ég man að ég tók strax eftir listaverkunum á stofuveggjunum en þau eru eftir listakonuna April Dawn Parker. Mér finnst þau passa svo vel við smekklegt innbúið. Staðsetning á skrifborðinu finnst mér algjör draumur - öll þessi birta!
Þið getið lesið meira um hönnuna á húsinu og séð fleiri myndir með því að smella á fyrsta tengilinn hér að neðan. Ef þið opnið hann takið þá eftir tilvísununum á veggjunum í baðherbergi barnanna.
myndir:
John Merkl fyrir California Home + Design og Dehn Bloom Design af blogginu Design Flutter
fimmtudagur, 6. september 2012
sumar: kökuboð og kjólar
Almanakið segir að það sé enn sumar og þó að hitinn hafi farið niður á við þá fer að verða síðasti sjens að nota stuttu eða hnésíðu sumarkjólana. Hvernig væri nú að draga fram kristalinn eða fínu glösin, kaupa falleg blóm, helst hvít eða bleik eða bæði, hóa svo í bestu vinkonurnar og segja þeim að mæta á svæðið með eina heimabakaða köku og í kjól? Ef þið viljið hafa makana með þá mæta karlmenn í stuttbuxum og í stuttermaskyrtu með bindi eða slaufu.
Er ekki málið að nota tækifærið áður en það kólnar enn frekar og skellur á með skammdegi? Þetta þarf ekki að vera neitt flókið, það er óþarfi að mála alla veggi og skipta um eldhúsinnréttingu áður en gestirnir láta sjá sig. Ef þannig stendur á er ég viss um að þið eigið frænku eða frænda á unglingsaldri sem væri til í að koma og hjálpa ykkur að gera heimilið hreint og fínt og fá smá aur fyrir.
Er kakan höfuðverkur? Ég luma á franskri súkkulaðiköku sem klikkar aldrei.
mynd:
Nicky Ryan fyrir Home Beautiful af blogginu Dustjacket attic
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)