fimmtudagur, 27. júní 2013

Garðhönnun: 18. aldar mylluhús í Oxfordshire

Í gær gerðist svolítið skrýtið. Þegar eiginmaðurinn kom heim var ég að hlaða inn þessum myndum, sem ég hef geymt í möppunni minni í svolítinn tíma, af garði sem tilheyrir 18. aldar mylluhúsi við Cherwell ána í Oxfordshire. Hann hafði gripið nýjustu útgáfu House & Garden (júlí 2013) með sér og ég lýg ekki, það er umfjöllun í tímaritinu um þennan sama garð. Það er auk þess stutt viðtal við garðhönnuðinn sjálfan, Arne Maynard.

Í umfjölluninni kemur fram að það kom út bók eftir Maynard árið 2004, A Sense of Place: How to Create a Garden with Atmosphere, sem rataði að sjálfsögðu beint á óskalistann minn.

Í greininni segir að húsið liggi eins og í „samloku á milli Cherwell árinnar og South Oxford kanalsins á landræmu sem er næstum því eyja“ (bls. 102). Myndirnar í tímaritinu sýndu bæði garðinn og húsið frá fleiri hornum og ég varð að taka mynd af einni opnunni sem sýnir húsið baka til því það er engin slík á vefsíðu Maynard.

Þegar Maynard skoðaði garðinn í fyrsta sinn var hann að drukkna í víðitrjám sem höfðu ekki verið klippt né snyrt í langan tíma og það var bergflétta út um allt. Garðinn sárvantaði rými til að anda þannig að allt var fjarlægt fyrir utan ,New Dawn' og ,Albertine' klifurrósir sem sjást á framhlið hússins.

Nálægt húsinu er hönnun garðsins nokkuð formleg en við jaðarinn er útlitið meira náttúrulegt. Maynard hannaði sérstakan jurtagarð þar sem litríkar plöntur fá að njóta sín og einnig formlegan garð (parterre) með pýramídalaga ýviðum og klipptum limgerðum.

Og sjáið allan þennan lavender!


Í greininni er tilvísun í bókina hans Maynard:
A successful garden must relate and respond to the surrounding landscape and its history as well as to the style of the building, to give it a proper sense of belonging.
Á íslensku leggst þetta nokkurn veginn svona: „Vel heppnaður garður þarf að tengjast og kallast á við sitt nánasta umhverfi og sögu þess, og einnig stíl byggingarinnar, þannig að sú tilfinning að hann tilheyri þessu sé skýr.“ Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þessi garðheimspeki komi sterkt fram í þessum glæsilega garði, sem samt virkar einhvern veginn svo látlaus.

myndir:
1-2 + 4-9: Arne Maynard Garden Design / 3: Lísa Hjalt (ljósmynd í tímariti er eftir Allan Pollok-Morris)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.