Því verður ekki neitað að Robin Williams var stórkostlegur gamanleikari en það voru einkum hlutverk hans í alvarlegri kvikmyndum sem heilluðu mig. Hann náði fyrst til mín í
Dead Poets Society (1989), í leikstjórn Peter Weir, en fyrir leik sinn fékk hann tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir aðalhlutverk í annað sinn (sú fyrsta var fyrir
Good Morning, Vietnam (1987) og sú þriðja fyrir
The Fisher King (1991)). Hann lék kennara með sérstakar kennsluaðferðir í mjög svo íhaldssömum skóla og
lokasenan kallar fram gæsahúð í hvert sinn. Það er svo ekki hægt að minnast Williams án þess að nefna aukahlutverkið í
Good Will Hunting (1998), en fyrir það fékk hann sinn fyrsta og eina Óskar. Ég man ekki hvort það var í viðtali sem ég sá við Ben Affleck eða Matt Damon, sem skrifuðu handritið saman (fengu Óskar fyrir) og léku í myndinni, þar sem fram kom að um leið og Williams samþykkti að vera með opnuðust allar gáttir og allir voru tilbúnir að leggja fram krafta sína.
Þegar ég hugsa um Williams þá kemur leikarinn Billy Crystal alltaf upp í hugann líka en þeir unnu lengi saman ásamt Whoopi Goldberg að uppistandi sem kallaðist Comic Relief. Ef þið eruð gamlir
Friends-arar þá ættuð þið að muna eftir þeim félögum Williams og Crystal sem gestaleikurum í þessari
kaffihúsasenu. Ég get ekki sleppt því að minnast á uppáhaldsþáttinn minn,
Inside the Actors Studio, en þar átti hann ógleymanlega stund með James Lipton og nemendunum. Einn í salnum endaði víst á spítala vegna hláturs! Hér er
brot af því besta en endilega leitið að og horfið á þáttinn í fullri lengd á YouTube. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.